18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4488 í B-deild Alþingistíðinda. (4336)

Verkfall framhaldsskólakennara

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða þá alvarlegu stöðu sem uppi er á vinnumarkaði þar sem fjölmennir hópar eiga í kjaradeilu við ríkisvaldið og kennarar í Hinu íslenska kennarafélagi eru nú í verkfalli þriðja daginn í röð. Hjúkrunarfræðingar eru í verkfalli og eru að ganga úr störfum á sjúkrahúsunum. Náttúrufræðingar hafa boðað verkföll um næstu mánaðamót og heyrist ekki að þar séu alvarlegar viðræður í gangi.

Tilefni umræðunnar er þó sérstaklega verkfall kennara sem hefur átt sér þann aðdraganda sem lög bjóða, 15 daga verkfallsboðun, og ekki tókust samningar. Þetta eru alvarlegir hlutir. Starf framhaldsskólanna í landinu er lamað vegna verkfalls og það er ekki í fyrsta sinn á starfsdögum þessarar ríkisstjórnar að slíkt gerist í framhaldsskólunum, en þetta snertir einnig grunnskólana þar sem um 300 grunnskólakennarar eiga aðild að Hinu íslenska kennarafélagi og sumir grunnskólar eru einnig lamaðir vegna þessara verkfallsátaka.

Framhaldsskólakennarar lögðu niður vinnu fyrir tveimur árum og áttu þá í harðri deilu. Þeim var lofað endurskoðun á kjörum sínum eins og félögum í Kennarasambandi Íslands og gerðar hafa verið úttektir sem allar sýna að laun kennara miðað við það sem gerist á almennum vinnumarkaði eru langtum lægri hvað þá ef tekið er tillit til sambærilegrar menntunar. Byrjunarlaun kennara með 4-5 ára háskólamenntun að baki eru nú undir 35 000 kr. Kröfur kennara eru um að byrjunarlaunin hækki miðað við þessa menntun upp í um 45 000 kr. og þykir engum ofrausn þó margir megi í okkar þjóðfélagi búa við minna.

En þetta er ekki aðeins málefni kennara heldur þjóðfélagsins í heild. Þetta er málefni foreldra, þetta er málefni nemendanna og það er málefni þróunar íslensks þjóðfélags að það verði bundinn endi á það styrjaldarástand sem ríkt hefur á milli ríkisvaldsins og þeirra sem í skólunum starfa um margra ára skeið frá því að núverandi ríkisstjórn settist að völdum. Við höfum fengið skýrsluúttekt erlendis frá, frá OECD, sem sýnir að á þessu sviði er þannig búið að kennurum að ekki er við því að búast að skólastarf fari fram í landinu með eðlilegum hætti, jafnmikið og þeir þurfa á sig að leggja í yfirvinnu og þjakaðir af slæmum launum.

Stór hluti af kennurum eru konur og það sætir vissulega furðu að þegar ríkisvaldið leggur fram tilboð í þessari deilu er það í þá veru að skylda kennara til ákveðinnar viðveru ákveðinn tíma í skólunum sem sérstaklega hittir konur sem þar starfa miðað við núverandi aðstæður. Það er ekki vitlegt þegar þannig er haldið á málum af samningsaðila.

Ég vil inna hæstv. fjmrh., sem fer með samningsumboð ríkisins í þessari deilu við kennara og auðvitað við hjúkrunarfræðinga og aðra opinbera starfsmenn, eftir því hvort af hans hálfu og ríkisstjórnarinnar sé ekki vilji til þess nú loksins að leiðrétta þann mismun sem er á launum kennara miðað við allar aðstæður og dregið hefur verið fram í úttektum sem ríkisvaldið hefur verið aðili að ásamt kennarasamtökunum. Ég inni hæstv. ráðh. eftir hvernig hann sér þróun þessarar deilu fyrir sér, hvort ríkisstjórnin ætlar að halda að sér höndum í þessari deilu og standa þannig að því að lama starf í framhaldsskólum og sumum grunnskólum í landinu. Þetta er spurningin um skólastarfið í landinu og þetta er spurning um þróun þjóðfélagsins og við hljótum að láta okkur þetta varða hér á Alþingi Íslendinga.