18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (4337)

Verkfall framhaldsskólakennara

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kemur hjá hv. málshefjanda, að verkfall kennara getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir skólastarfið í landinu og bitnar auðvitað þyngst á nemendum. Vegna fyrirspurnar hans er rétt að taka fram að laun opinberra starfsmanna hækkuðu meira á síðasta ári en laun annarra í þjóðfélaginu og laun kennara, þar á meðal framhaldsskólakennara, hækkuðu síst minna en laun annarra opinberra starfsmanna þannig að heldur hefur miðað í þá átt að bæta stöðu kennara að þessu leyti í hlutfalli við aðra.

Kjarasamningar Hins íslenska kennarafélags runnu út um áramót eins og annarra félaga í Bandalagi háskólamanna. Sameiginlegar viðræður við Bandalag háskólamanna stóðu til loka janúar, en lauk þá án árangurs. Hið íslenska kennarafélag ákvað í lok janúar í atkvæðagreiðslu verkfallsboðun frá og með 16. mars, en sú ákvörðun var tekin áður en félagið óskaði eftir viðræðum við ríkið um samninga og fór atkvæðagreiðslan fram án þess að kynnt væri raunveruleg staða samningaviðræðna á milli félagsins og ríkisvaldsins, en áður höfðu viðræður farið fram við Bandalag háskólamanna.

Samninganefnd ríkisins lagði fram tilboð sitt á fundi samningsaðila 11. mars. Í því var gert ráð fyrir samningi til ársloka 1988. Þar var boðin hækkun heildarlauna í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið að undanförnu, 18-19%, og meiri hækkun fastra mánaðarlauna eða 22-24% vegna þeirra breytinga á vinnutíma sem í tilboðinu fólust. Enn fremur var gert ráð fyrir að sérstök hækkun yrði á föstum launum byrjenda eða um 32%. Auðvitað kemur þessi hækkun misjafnlega niður og verður því minni sem heildarlaunin eru meiri. Samninganefnd kennara sýndi til að mynda fram á að kennari með heildarlaun upp á 108 þús. kr. fengi ekki nema 2,1% hækkun, en tilboðið var þannig upp byggt að það var fyrst og fremst miðað við að mest hækkun yrði á byrjunarlaunum og var að öðru leyti í samræmi við hugmyndir sem uppi hafa verið um að athuga möguleika á breyttum vinnutíma með því að fella inn í hann ýmis störf sem greidd hafa verið aukalega. Þessu tilboði var svarað af Hinu íslenska kennarafélagi með gagnkröfu sem hefði kostað 50-60% útgjaldaaukningu.

Þegar viðræður fóru fram um s.l. helgi og stóðu fram á mánudagsmorgun þokaði verulega í samkomulagsátt. Fundi var þá frestað til klukkan 17.00 á mánudag. Eftir að fundi lauk á mánudagsmorgun og hafði verið frestað var haft eftir formanni Hins íslenska kennarafélags, með leyfi forseta: „Það þokaðist áleiðis. Við náðum árangri þó að hann væri ekki sérlega stór og ég held að það þurfi náttúrlega að ganga svolítið betur í kvöld til þess að við ljúkum þessu og talsvert mikið betur.“ En hann sagði: „Það þokaðist áleiðis. Við náðum árangri.“ Og menn voru nokkuð bjartsýnir að á fundinum klukkan 17.00 yrði unnt að halda áfram á þeim grunni sem lagður hafði verið í lok viðræðnanna á mánudagsmorgun. En þá kom í ljós að samninganefnd kennara hafði ákveðið að auka við kröfur sínar frá því sem var þegar staðið var upp á mánudagsmorgni og það hafði eðlilega þau áhrif að erfitt var að halda viðræðum áfram. Samninganefnd ríkisins lýsti því yfir að hún væri tilbúin fyrir sitt leyti að halda áfram á þeim grunni sem lagður hafði verið og gefið hafði góðar vonir um að samkomulag tækist og það verður allt kapp lagt á það af hálfu ríkisvaldsins og samninganefndar ríkisins að ná samningum í þessari deilu á þeim grundvelli sem lagður hefur verið.