04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

105. mál, endurmat á störfum kennara

Fyrirspyrjandi (María Jóhanna Lárusdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans við fsp. minni.

Það er rétt að laun kennara hafa hækkað umfram aðra opinbera starfsmenn um einhver prósentustig. Launin eru samt enn smánarlega lág og má rekja kennaraflóttann að miklu leyti til þeirra. Byrjunarlaun grunnskólakennara, er hefur þriggja ára háskólamenntun að baki, eru nú rúm 31 þúsund. Eftir 15 ára starfsreynslu eru þau rúm 42 þúsund og geta ekki hækkað úr því. Eru því laun kennara, er hafa kennt 15 ár eða lengur, tæpur helmingur launa hv. þm.

Ég beini því til hæstv. menntmrh. að dustað verði rykið af skýrslu endurmatsnefndarinnar og niðurstöður hennar verði lagðar til grundvallar á nýju og raunhæfu mati á störfum kennara áður en óbætanlegt tjón hlýst af í menntamálum þjóðarinnar.

Það er í rauninni hlálegt að stjórnvöld, er láta í veðri vaka að þau hyggist flytja út hugvit og þekkingu landsmanna, skuli búa þannig að kennarastéttinni að hæfir og vel menntaðir kennarar verða að sjá sér farborða með öðrum hætti en kennslu og að menntun barnanna okkar sé að verða þjóðarhneisa eins og kemur fram í útdrætti úr skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um ástand menntamála hér á landi og skýrt var frá í Ríkisútvarpinu hér á dögunum.