18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

Verkfall framhaldsskólakennara

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Þess er náttúrlega enginn kostur að fara að taka hér upp einhvern eldhúsdag um hvernig einstakar ríkisstjórnir hafa staðið sig í þessu eða hinu málinu fyrr og síðar og þaðan af síður er möguleiki á því að fara að ræða ítarlega um launafyrirkomulag yfirleitt og vinnufyrirkomulag hér á landi og það hvernig launakjörum er yfirleitt fyrir komið. En það er umfangsmikið mál að ræða hvert er einkenni á vinnufyrirkomulagi á Íslandi og hvernig það hefur þróast hér á verri veg en í öðrum löndum, að það er naumast hægt að vinna sér inn þokkaleg laun nema með ákaflega löngum vinnudegi. Þeir sem vinnufyrirkomulaginu ráða og þeir sem mest skipta sér af launamálum og vinnufyrirkomulagi og öllu slíku, eru sérfræðingar í þessu og snillingar, hafa ekki búið til betra kerfi á öllum þessum tíma en svo að menn þurfa að þræla myrkranna á milli, launamenn, ef þeir eiga að hafa nokkurn veginn ofan í sig og á.

En það sem ég vildi sérstaklega segja í sambandi við það sem hér er til umræðu er það að hvetja til þess að viðræðurnar, sem hafnar voru, geti haldið skipulega áfram við kennarastéttina og deilan geti leystst farsællega. Mér sýnist margt benda til þess að það sé fullur samningsvilji hjá kennarastéttinni í raun og veru. Ég held að það sé nauðsynlegt að ríkisvaldið gangi eðlilega til móts við kröfur kennarastéttarinnar um launabætur. Ég held að það sé mjög eðlilegt vegna þess að það þarf ekki mikla þekkingu til að vita að t.d. menntaskólakennarar hafa dregist stórlega aftur úr í launakjörum, a.m.k. ef við miðum við alllangt tímabil. Menntaskólakennarar náðu hér allgóðri stöðu og viðurkenningu á sínum störfum fyrir kannske 15-20 árum, en því miður hefur sigið á ógæfuhliðina fyrir kennarastéttina smám saman á löngum tíma. Ég ætla ekki að fara að kenna einum eða neinum um, en ég get jafnframt sagt að ég get ekki lýst neinni sérstakri hrifningu minni af því hvernig atvinnurekendur og þeir sem mest berjast fyrir launþega hafa komið öllum þessum málum fyrir og veit ég ekki hver það er sem helst er að saka í því efni, en hrifning mín er lítil á því hvernig vinnufyrirkomulag er hér á landi, hvernig fyrirtæki eru skipulögð og hvernig það mál er alltaf látið danka og talið sjálfsagt að menn þræli eins og hálfgeggjaðir menn til að hafa nokkurn veginn ofan í sig og á.

En það er mín hvatning nú til ríkisstjórnarinnar og reyndar til kennarastéttarinnar líka að það verði reynt að semja um þessi mál, að eðlilegar viðræður haldi áfram og að þetta leysist sem allra fyrst. Ég er sannfærður um að möguleiki er fyrir hendi um það og ég held að kennarastéttin sé í raun og veru fús til að semja.