18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (4347)

283. mál, sérkennsla

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það hefur verið lögð fram beiðni um að skýrsla sem ég hef verið beðinn um um framkvæmd reglugerðar um sérkennslu væri tekin hér til umræðu. Ég sé ekki ástæðu til þess sérstaklega að vitna í einstök atriði sem þar koma fram. Það var reynt að vinna þetta samviskusamlega og veita þau svör sem gáfust við einum 15 eða 16 tölusettum fsp. með undirliðum sem lagðar voru fyrir og beðið svara um þegar beðið var um þessa skýrslu. Ef eitthvað sérstakt er hér sem hv. þm. vildu gera athugasemdir við skal ég reyna að greiða úr því annaðhvort nú þegar eða þá með svari til viðkomanda þó síðar yrði.