18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (4348)

283. mál, sérkennsla

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram um framkvæmd reglugerðar um sérkennslu samkvæmt beiðni þm. Alþfl. Ég tel að í þessari skýrslu fáist mjög greinargott yfirlit um stöðu sérkennslunnar og framkvæmd reglugerðar um sérkennslu. Mikil umræða hefur orðið um sérkennslumálin að undanförnu og því ætti slíkt heildaryfirlit sem hér liggur fyrir að koma að gagni þegar staðan er metin í sérkennslumálum á landinu öllu og í einstökum fræðsluumdæmum. Ég tel að ljóst sé að þessi reglugerð sé orðin úrelt og hana þurfi nú þegar að endurskoða og því ætti slíkt heildaryfirlit um stöðu mála að nýtast vel í þeirri endurskoðun.

Stutt er síðan þessi skýrsla kom fram þannig að mér hefur ekki gefist tími til að kanna til hlítar einstök efnisatriði hennar eða leggja mat á framkvæmd sérkennslunnar í einstökum atriðum í hverju fræðsluumdæmi fyrir sig miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í þessari skýrslu. Tel ég að það hefði vissulega getað flýtt fyrir nauðsynlegri endurskoðun á sérkennslunni ef slíkt heildaryfirlit hefði legið fyrir fyrr á þessu þingi.

Ég fagna því, sem kemur fram í þessari skýrslu, að miðað við önnur lönd stundi fleiri fatlaðir nemendur hér á landi skólagöngu í almennum grunnskóla, en þar með er ekki sagt að þeim sem þurfa á sérkennslu að halda sé búin viðunandi aðstaða í okkar almenna skólakerfi. Það sýnir aðeins að leitast hefur verið við að veita fötluðum kennslu í hinum almenna grunnskóla sem er sú stefna sem fylgja ber fram að því er fatlaða varðar. Ekki bara í skóla- og menntamálum heldur á öllum sviðum er nauðsynlegt að fatlaðir og þroskaheftir einstaklingar hafi möguleika á að aðlagast eðlilegu umhverfi eins og kostur er. Því ber að leggja kapp á þá stefnu að heilbrigðum og fötluðum séu búnir sömu möguleikar við sömu aðstæður á sem flestum sviðum. Ljóst er í skólamálum og sérkennslunni að þó leitast hafi verið við að framfylgja þeirri stefnu að búa fötluðum aðstöðu í almenna skólakerfinu er langt í land að þeim sé búin þar sú aðstaða sem nauðsynleg er. Ég tel t.d. að skólamenn skrifi varla upp á það, sem fram kemur í þessari skýrslu, að farið hafi verið að fullu eftir ákvæðum 15. gr. um sérkennslu, þ.e. að ákvæði um kennslumagn samkvæmt sérkennslureglugerð sé að fullu komið til framkvæmda. Samkvæmt reglugerðinni átti það að vera að fullu komið til framkvæmda fjórum árum eftir gildistöku reglugerðarinnar sem sett var 1977. Þarf ekki í reynd að fara lengra en að vitna í þær umræður sem urðu kringum fræðslustjóramálið. Í þeim umræðum hefur berlega komið fram að mikið vantar á að sérkennslunemendur fái þá sérkennslu sem þeir þurfa á að halda. Það er líka athyglisvert, sem fram kemur í þessari skýrslu, að mikill skortur er á sérkennurum. Á landinu öllu eru starfandi 143 sérkennarar, en samkvæmt skýrslunni er þörf miklu meiri. Samkvæmt upplýsingum fræðsluskrifstofanna er þörf fyrir 231 sérkennara, en aðeins eru starfandi 143. Það eitt út af fyrir sig ásamt með því að kennslumagn sem sérkennslunemendur fá er langt frá þörfinni segir okkur að hér er mikið verk óunnið og nauðsynlegt að við næstu fjárlagagerð verði sérstaklega hugað að þessum málum.

Ég bendi einnig á að af 289 nemendum sem fá kennslu í sérskólum eru 231 úr Reykjavík og Reykjanesi eða tæp 80%. Má því ljóst vera að þungi sérkennslunnar í almennum grunnskólum hlýtur að vera mun meiri úti á landsbyggðinni en í Reykjavík og Reykjanesi og nauðsynlegt að taka mið af þeim staðreyndum og þörfum þegar ákvarðað er fjármagn til sérkennslunnar.

Ég skal ekki, herra forseti, taka lengri tíma að þessu sinni til að ræða þessi mál þó full ástæða væri til og að þm. hefðu haft meiri tíma en nú gefst til að ræða sérkennslumálið og efni þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir. Ég vil þó í lokin segja það að ég sakna þess í þessari skýrslu að hæstv. menntmrh. geri Alþingi ekki grein fyrir meginhugmyndum varðandi endurskoðun á sérkennslureglugerð eins og um var beðið í þessari beiðni um skýrslu um framkvæmd sérkennslureglugerðar. Í 16. tölul. þessarar beiðni um skýrslu um sérkennslu var spurt hvort menntmrh. telji þörf á endurskoðun reglugerðar um sérkennslu. Ef svo er, hverjar séu þá meginhugmyndir ráðherrans varðandi þá endurskoðun. Í svari menntmrh. kemur aðeins fram að skólamálaskrifstofa ráðuneytisins hafi endurskoðaða reglugerð tilbúna og hafi hún verið í athugun í fjármálaskrifstofu frá því í byrjun febrúar 1986. Ég hefði talið æskilegt að hæstv. ráðh. hefði í þessari skýrslu kynnt a.m.k. meginhugmyndir þeirrar reglugerðar og gefið þannig þm. tækifæri á að kynna sér í samhengi við það yfirlit um stöðu mála sem hér liggur fyrir hverjar hugmyndir væru uppi um breytingar á sérkennslureglugerðinni. Vil ég inna hæstv. ráðh. eftir því hverjar helstu hugmyndir eru um breytingu á reglugerðinni og þá jafnframt hvort hann væri tilbúinn að sjá til þess að formönnum þingflokka yrði sent eintak af þessum drögum að reglugerð þannig að gott ráðrúm gefist til að kynna sér þær hugmyndir sem uppi eru áður en þing kemur saman á nýjan leik á hausti komanda.

Ég ítreka síðan þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram um sérkennslumál.