18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4500 í B-deild Alþingistíðinda. (4351)

80. mál, fíkniefnamál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir þá skýrslu sem lögð hefur verið fram um fíkniefnamál sem er um margt athyglisverð. Þó í skýrslunni megi finna yfirlit um stöðu mála er engu að síður ljóst af þessari skýrslu að mikið vantar á að allar aðstæður séu með þeim hætti að skipulega og markvisst sé hægt að taka á þessum málum. Fram kemur í skýrslunni að mikið vanti á að kannanir ýmiss konar á sviði fíkniefnaneyslu, bæði um umfang og útbreiðslu, séu fullnægjandi og einnig virðist rannsóknum á afleiðingum og áhrifum fíkniefnaneyslunnar vera mjög ábótavant. Ég tel að það sé mikið undirstöðuatriði, ef takast á að gera nauðsynlegt átak gegn útbreiðslu og neyslu fíkniefna, að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar og rannsóknir á öllum þeim þáttum sem með einum eða öðrum hætti tengjast fíkniefnavandanum, en í ljósi slíkra upplýsinga hlýtur að vera mun auðveldara að leggja grunn að skipulögðu átaki og aðgerðum gegn útbreiðslu og notkun fíkniefna og ekki síst þá að treysta eins og kostur er fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir á sviði fíkniefnamála.

Það sem vekur sérstaka athygli í þessari skýrslu er það álit sem þar kemur fram um að einungis 1-5% af ólöglegum innfluttum fíkniefnum náist af toll- og löggæslu. Af því er ljóst að gríðarlega mikið magn hlýtur að vera í umferð og þá ályktun hlýtur að mega af því draga að tiltölulega auðvelt sé fyrir neytendur að ná í fíkniefni. Í þessu sambandi vil ég minna á að Alþingi samþykkti á árinu 1983 till. til þál. um skipulagðar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur sem gera átti tillögur um úrbætur á sviði toll- og löggæslu sem nauðsynlegar kunna að reynast til að fyrirbyggja dreifingu og innflutning fíkniefna. Till. þessi var flutt af þm. úr öllum flokkum.

Þessi nefnd skilaði margvíslegum tillögum um hertar aðgerðir og úrbætur til að toll- og löggæsla væru betur í stakk búnar til að takast á við vandann og voru lagðar til ýmsar samræmdar aðgerðir á þessu sviði um land allt. Þó að einhverju leyti hafi verið tekið tillit til ábendinga og tillagna nefndarinnar tel ég að mikið vanti á að tillögum nefndarinnar hafi verið framfylgt. Í ljósi þeirra upplýsinga að það náist aðeins brot af þeim fíkniefnum sem berast hingað til landsins er nauðsynlegt að efla til muna allt starf fíkniefnalögreglunnar og reyndar tollgæslunnar einnig og að þessir aðilar fái þann tækjabúnað sem til þarf, en fram kemur í skýrslunni að nokkuð vanti á að komið hafi verið til móts við þarfir toll- og löggæslu í þessu efni. Menntun og þjálfun toll- og löggæslumanna á sviði fíkniefnamála og samstarf innlendra yfirvalda og erlendra á þessu sviði hlýtur einnig að vera brýnt að efla. Reyndar má segja í heild um þessi mál að það er ekki verjandi ef horft er í krónuna í þeirri viðleitni að stemma stigu við útbreiðslu fíkniefna.

Það mætti vissulega hafa um það mörg orð hve dýrt er að spara í þessu efni sem á komandi árum mun tvímælalaust koma fram í stóraukinni þörf fyrir úrlausnir á sviði heilbrigðis-, trygginga- og félagsmála. Við höfum þegar of lítið aðhafst í því að taka markvisst á þessu máli og þegar hefur mikill tími farið forgörðum með þeim afleiðingum að margir hafa orðið fórnarlömb fíkniefnaneyslu og afleiðinga hennar. Kemur það m.a. að nokkru leyti fram í þessari skýrslu þar sem lýst er að fjórðungur af bráðakomum á geðdeild Borgarspítalans er af völdum ofneyslu áfengis og lyfja og að af 2500 einstaklingum sem lagðir hafa verið inn á meðferðarstofnanir fyrir áfengissjúka árlega eru um 20%, eða 500, blandaðir misnotendur eða um 2500 samtals á s.l. fimm árum.

Það er ljóst að mikil þörf er fyrir sérstakar meðferðarstofnanir eða meðferðardeildir, sérstaklega fyrir unga fíkniefnaneytendur, og virðist þörfin í því efni fara sívaxandi. Það er einnig ljóst af því sem fram kemur í þessari skýrslu að kostnaður við fíkniefnaneyslu er gífurlegur og má ráða af þeim tölum sem fram koma í skýrslunni að það sé ekki óalgengt að kostnaður við fíkniefnaneyslu geti verið 50-70 þús. kr. á mánuði hjá þeim sem daglega neyta fíkniefna og jafnvel enn meiri hjá þeim sem ánetjast hafa fíkniefnum mjög mikið.Í þessu sambandi er uggvænlegt það sem kom fram í sjónvarpi á dögunum að algengast er að fíkniefnaneytendur fjármagni neyslu sína með þrennum hætti.

1. Með því að selja sjálfir öðrum neytendum fíkniefni.

2. Peningar sem fíkniefnaneytendur verða sér úti um eru fengnir með afbrotum og þjófnaði oft og tíðum.

3. Peningar til fíkniefnaneyslunnar eru fengnir með vændi.

Hér er vissulega mikil alvara á ferðum, ekki einasta að upplýst er að vændi þekkist hjá unglingsstúlkum heldur og ekki síst vegna þess að hér er um mjög hættulega smitleið að ræða á alnæmi. Það er því deginum ljósara að það er ábyrgðarhluti ef stjórnvöld taka þessi mál ekki nú þegar föstum tökum og að þegar í stað verði gert umfangsmikið og skipulegt átak gegn fíkniefnum og þar verði ekkert til sparað til að sporna við útbreiðslu og neyslu þessara efna.

Þessi þjóðfélagsmeinsemd hefur allt of lengi fengið að grafa um sig hér á landi án þess að tekið væri af hörku á þessum málum af ráðamönnum. Það er staðreynd að hingað til hefur verið veitt allt of litlu fjármagni til skipulegra aðgerða gegn fíkniefnum. Fjárlög hafa oft á tíðum verið afgreidd með skammarlega lágu framlagi til þessara mála eða 1-2 milljónum sem nægir rétt fyrir útgjöldum vegna eins eiturlyfjasjúklings á meðferðarstofnunum í skamman tíma. Á meðan hefur þessi vandi búið um sig meira og meira hér á landi og sífellt virðast fleiri ánetjast þessum fíkniefnum.

Við vitum að fjöldi afbrota, líkamsárása og jafnvel morð tengjast neyslu og útbreiðslu fíkniefna. Hversu mikið það er virðist lítið vitað um ef marka má það sem fram kemur í skýrslunni, en hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins eru upplýsingar um tengsl fíkniefnaneyslu og afbrota ekki skráð sérstaklega í málaskrá hjá embættinu og er það reyndar furðulegt og nauðsynlegt úr að bæta. Fram kemur þó að allmörg brot, einkum þjófnaði og fölsunarbrot, megi rekja beint eða óbeint til fíkniefnaneyslu. Auk stórra og smárra afbrota, sem örugglega má rekja til fíkniefnaneyslunnar, er vitað um að vændi er fylgifiskur neyslunnar og við vitum að fíkniefnaneyslan hefur lagt líf fjölda ungmenna og fjölskyldna þeirra í rúst. Við þetta bætist síðan hættan á eyðni hjá fíkniefnasjúklingum og ekki bara þeim heldur eru þeir hættulegir smitberar á alnæmi.

Varla þarf frekar vitnanna við að tafarlaust þarf að taka á þessu máli. Það er ekki bara skylda stjórnvalda, Alþingis og framkvæmdarvaldsins heldur er það hreinn ábyrgðarhluti ef ekki verður gripið til tafarlausra aðgerða. Nefnd hefur verið starfandi á vegum forsrn., eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., undir stjórn Helgu Jónsdóttur aðstoðarmanns forsrh. Henni er ætlað að vinna að samræmingu hugmynda og verkefna einstakra ráðuneyta um fíkniefnamál, þ.e. að samhæfa aðgerðir í baráttunni gegn útbreiðslu og notkun ávana- og fíkniefna. Kannske er ein skýring þess að ekki hefur meira verið aðhafst í þessu máli af hálfu stjórnvalda sú að alla samræmingu vantar, því þetta mál heyrir með einum eða öðrum hætti undir mörg ráðuneyti, sem best sést á því að fulltrúar að ég held 7-8 ráðuneyta eiga sæti í þessari nefnd.

Ég vænti þess fastlega að nefndin skili af sér hið allra fyrsta eins og í raun kom fram hjá hæstv. forsrh. og er reyndar viss um að hún hefur unnið gott starf. Ég harma að ekki hafi á þessu þingi verið hægt að fjalla um þær tillögur sem nefndin væntanlega leggur fram um aðgerðir gegn fíkniefnum. Og það er vissulega ekki nóg að leggja fram tillögur. Á mestu veltur hver og hvernig framkvæmdin verður. Og það skiptir líka höfuðmáli að ekki verði lengur beðið. Ég vænti þess hérna í lokin, herra forseti, að ríkisstjórnin og hæstv. forsrh. séu mér sammála í því og að kappsamlega verði unnið að úrbótum og fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir neyslu og útbreiðslu fíkniefna.

Þar sem skýrsla frá þeirri nefnd sem nú er starfandi liggur ekki fyrir og verður væntanlega ekki hægt að leggja fyrir þingið fyrir þinglausnir vil ég beina því til hæstv. forsrh. og óska eftir því að formönnum þingflokka verði þá sendar þessar tillögur og niðurstöður nefndarinnar og tillögur hennar um aðgerðir til úrbóta þannig að þingflokkunum gefist tækifæri á að kynna sér það.