04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

110. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 113 hef ég borið fram fsp. til hæstv. samgrh. um framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll. Spurt er:

„Hvenær er ráðgert að framkvæmdir hefjist við nýbyggingu Egilsstaðaflugvallar, hvað er áætlað að flugvallargerðin kosti og hver er álitinn æskilegur framkvæmdahraði?"

Hér er innt eftir máli sem er eitt hið mikilsverðasta er snertir samgöngur Austurlands við aðra landshluta og eru þó mörg atriði sem eru ekki komin í viðunandi horf í samgöngum þess landsfjórðungs miðað við það sem gerist annars staðar. Egilsstaðaflugvöllur er aðalflugvöllur Austurlands og geri ég þó ekki lítið úr þýðingu annarra flugvalla í kjördæminu fyrir samgöngur. Í nefnd sem hæstv. samgrh. skipaði fyrir líklega um tveimur árum var lögð áhersla á að framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll yrðu ofarlega á blaði, nánast forgangsverkefni í framkvæmdum við flugvelli hér innanlands og gert var ráð fyrir að nefnd þessi lyki störfum, ef ég man rétt í árslok 1985 án þess að vilja nákvæmlega fullyrða það. Nú vænti ég þess að nefndin hafi skilað sínu starfi og því er ástæða til að inna hæstv. samgrh. eftir því hvað líði áformum um framkvæmdir og annað sem fram kemur í þessari fsp.

Aðstæður við Egilsstaðaflugvöll eins og nú er eru vægast sagt slæmar, einkum á vissum árstímum vegna þess að burðarlag í flugvellinum er ekki þannig að það standist veðurfarsaðstæður, einkum að vori til, og fjölmargt fleira gerir það að verkum að þessi flugvöllur hefur ekki þau skilyrði sem orðið gætu með byggingu nýrrar flugbrautar við hliðina á hinni eldri.

Ég vænti þess að það komi skýrt fram hjá hæstv. ráðh. hver séu áform núverandi ríkisstjórnar um úrlausn í þessu efni.