18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4506 í B-deild Alþingistíðinda. (4364)

321. mál, vaxtalög

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.og viðskn. um frv. til vaxtalaga.

Það er með þetta frv. eins og svo mörg önnur sem fara á milli deilda nú þessa dagana að það hefur ekki gefist mikill tími til umfjöllunar um málið. Eigi að síður hefur nefndin reynt að kynna sér efni frv. eftir föngum og kallað til viðræðu Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðing, en hann hefur haft uppi gagnrýni á frv., einkum þann kafla þess sem fjallar um dráttarvexti og fyrsta ákvæði til bráðabirgða. Einnig kallaði nefndin til viðræðu Jónatan Þórmundsson prófessor, sem vann að samningu frv., en eins og fram kemur í athugasemdum þess fól viðskrh. honum þann 29. des. s.l. að kanna stöðu vaxta- og okurmála og semja frv. til heildstæðrar löggjafar á því sviði.

Nefndin klofnaði í málinu og meiri hl. fjh.- og viðskn. gerir ekki tillögur um breytingar á frv., telur að það séu ekki efni til þess á þessum skamma tíma og leggur til að það verði samþykkt eins og það kom frá Nd. þó að ástæða sé til að fara ofan í saumana á þeim tillögum og ábendingum sem hafa komið fram varðandi efni þess eins og reyndar kemur fram í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd.

Stefán Benediktsson skrifar undir álit meiri hl. með fyrirvara sem hann mun að sjálfsögðu gera grein fyrir við þessa umræðu en minni hlutar nefndarinnar munu skila og hafa skilað séráliti.