18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (4366)

321. mál, vaxtalög

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til meðferðar fjallar um meðferð vaxtamála. Skemmst er frá að segja að ég er algjörlega andvígur þeirri stefnu sem mörkuð er í þessu frv. og mun því ekki treysta mér til að greiða því atkvæði.

Ef litið er á hinar mörgu frumvarpsgreinar þessara laga er tvímælalaust að 17. gr. er mikilvægust. Í henni felst kjarni frv. því að þar er reynt að skilgreina með nýjum hætti hvað teljist refsivert okur. Samkvæmt skilgreiningu greinarinnar er því aðeins refsivert að taka vexti umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum, eins og það heitir í lögunum, ef maður hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns. Sem sagt: Í greininni er það lagt í vald dómara að meta hversu hátt vextir mega fara umfram þessi gildandi vaxtamörk áður en vaxtatakan telst refsiverð hagnýting á fjárþröng viðsemjandans, eins og segir í greininni, þ.e. refsivert okur.

Ég held það geti varla dulist neinum að með samþykkt þessa frv. er verið að gefa verulegan slaka í átt til þess að lögleyfa óhæfilega vaxtatöku og reyndar er þetta fjórða stóra skrefið sem ríkisstjórnin hefur stigið á þessari sömu óheillabraut.

Fyrsta skrefið var samkomulag Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar um vaxtamál haustið 1984 en þar var almennt losað mjög um vaxtaákvarðanir lánastofnana og afleiðingin varð fljótlega sú að vextir fóru mjög hækkandi. Ríkissjóður ýtti síðan enn frekar undir hækkun vaxta með því að stórhækka vexti á verðtryggðum spariskírteinum af sinni hálfu og þannig hækkaði allt vaxtastig í landinu mjög verulega.

Næsta skrefið fólst síðan í því að stjórnvöld vanræktu að ákveða hámarksvexti, þá á ég við Seðlabanka og ríkisstjórn, en báðir aðilar voru bersýnilega sekir í þessu máli og afleiðingin varð mikil réttaróvissa eftir frægan dóm Hæstaréttar.

Þriðja skrefið var síðan stigið með samþykkt nýrra seðlabankalaga sem enn frekar hefur grafið undan ákvæðum okurlaga, enda lýsa bankastjórar Seðlabankans því yfir að það sé í raun og veru ekki hægt að beita þeim lengur eftir samþykkt seðlabankalaganna.

Og nú á sem sagt að stíga skrefið til fulls með því að takmarka lagaákvæði um okur við harla þokukennt ákvæði sem varðar misneytingu manna á milli, verknað sem löngum verður býsna erfitt að sanna að sé fyrir hendi.

Ég vil taka það skýrt fram að ég tel nauðsynlegt að tryggja það að vextir séu aldrei neikvæðir, þ.e. að þeir séu ávallt hærri og meiri en nemur hraða verðbólgunnar. Lán verða að halda verðgildi sínu og leigjandinn á kröfu til þess þegar hann lætur fé af hendi til útlána að fá hæfilega leigu fyrir afnotin. Auk þess draga neikvæðir vextir úr sparnaði og éta upp eigið fé sameiginlegra sjóða sem verða síðan að fá árleg framlög af fé skattgreiðenda til þess að halda í horfinu. Því eru neikvæðir vextir með öllu óviðunandi í okkar hagkerfi og engin leið að réttlæta þá. Á hinn bóginn er það skoðun mín að það sé óhjákvæmilegt að stjórnvöld hafi vald á því og komi í veg fyrir það að tekið sé óhæfilegt endurgjald fyrir veitt lán. Bæði er að vextir og vaxtastig er sá þáttur efnahagsmála sem vegur hvað þyngst í okkar hagkerfi. Því meiri kröfur sem eru gerðar til arðsemi lánsfjármagns, þeim mun meiri verða erfiðleikar hjá almennum framleiðslugreinum, sem gengur þá verr í samkeppni við ýmiss konar gróðabrall í þjóðfélaginu, og eins er það staðreynd að minni hyggju að háir vextir kollvarpa efnahagsskipan okkar fyrr eða síðar ef það gengur svo til lengdar að í hagkerfinu sé vöxtur upp á 2-3% að meðaltali á ári, en lántakendur séu látnir greiða miklu, miklu hærri raunvexti. Því að flestir lántakendur hafa enga möguleika til þess að ávaxta lánsfé með meiri hraða en sem svarar vexti þjóðarteknanna, þ.e. svona á bilinu 2-4%, og þeir hljóta því að sökkva dýpra og dýpra í skuldafenið. Bilið breikkar milli þeirra sem eiga lánsfé og hinna sem aðallega skulda og afleiðingin hlýtur að verða að gjaldþrotum fer ört fjölgandi eins og hefur reyndar sýnt sig eftir að vaxtastefna núverandi ríkisstjórnar var tekin upp. Við sjáum það að gjaldþrotum hefur mjög fjölgað einmitt í tíð þessarar stjórnar.

Ég álít að það verði að finna hæfilega millileið milli neikvæðra vaxta annars vegar og okurvaxta hins vegar og ég tel að það sé eitt brýnasta viðfangsefni íslenskra efnahagsmála að marka vaxtastefnu sem hæfir íslensku þjóðfélagi og gengur milliveginn milli þessara tveggja öfga. Vissulega er nauðsynlegt að setja nýja löggjöf um vaxtamál, en hún verður þá að fela í sér ákvæði af öðru tagi en þetta frv., sem er meingallað og stefnir að minni hyggju í alranga átt, ýtir undir háa vexti í þjóðfélaginu, gerir í raun og veru enga tilraun til að halda þeim niðri og mun því verða til óheilla í okkar þjóðfélagi.

Ég lít því svo á að nauðsynlegt sé að taka þetta frv. til endurskoðunar og legg til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.