18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4509 í B-deild Alþingistíðinda. (4367)

321. mál, vaxtalög

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég skrifa undir meirihlutaálit sem mælir með samþykkt þessara laga, að vísu með ákveðnum fyrirvara. Sá fyrirvari snertir ekki það sem hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds kallar markmiðasetningu þessara laga því að ég held að þessi lög í sjálfu sér hafi ekki ýkja mikil áhrif á vaxtaþróun í landinu þar sem aðrar aðgerðir stjórnvalda hljóta alltaf að skipta þar miklu, miklu meira máli en sú löggjöf sem í gildi er um samskipti manna á fjármunamarkaði. Aftur á móti er þetta frv. ekki á þann veg neitt betra en fjöldi annarra frumvarpa. Á því eru ákveðnir ágallar sem maður vildi gjarnan að ekki væru, en þá ágalla skilgreina menn kannske að nokkru leyti eftir því hver viðhorf þeirra og skoðanir eru.

Ég vil benda á nokkra ágalla sem ég sé á þessu frv. Í fyrsta lagi tel ég að 2. gr. frv. bendi á vissan hátt á hversu vandasamt það verk er að meta hver vaxtataka er hverju sinni, sérstaklega þegar úrskurða á um það hvort okurvextir hafi verið teknir í viðskiptum eða ekki. Greinin hljóðar þannig:

„Auk vaxta taka lög þessi til annars endurgjalds sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar.“

Í athugasemdum við einstakar greinar frv. segir síðan:

„Í 4. og 6. gr. laga nr. 58/1960 er annað endurgjald lagt að jöfnu við vexti.“ - Hugtakið „annað endurgjald“ er feitletrað. - „Skiptir ekki máli hvert endurgjaldið er ef það er í raun endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar um tiltekinn tíma, t.d. afföll af skuldabréfum sem ganga kaupum og sölum í formi kaupsamninga," og síðan kemur lykilsetningin, „enda sé sannað að um dulbúinn lánssamning sé að ræða.“

Það verður sjálfsagt eitt af þeim atriðum sem þvælast munu fyrir ákæruvaldi þegar á að fara að beita refsiákvæðum þessara laga sem að ýmsu leyti eru þó trúlega auðveldari til brúks heldur en misnýtingarákvæði hegningarlaganna. Samt sem áður verður sjálfsagt oft erfitt þegar að því kemur að meta gjaldtöku, sem í raun og veru ekki er hægt að kalla skýru nafni vexti, meta hver áhrif hennar eru á endanlegan fjármagnskostnað. Þetta atriði er loðið.

Eins get ég ekki annað en samsinnt þeim virta lögfræðingi Jóni Steinari Gunnlaugssyni, sem gert hefur mjög alvarlegar athugasemdir við III. kafla þessara laga, samsinnt honum í því að sú dráttarvaxtataka, sem nú er heimil samkvæmt gildandi löggjöf og hér er verið að heimila enn frekar með þessari löggjöf, er siðlaus. Ég tek undir þá skoðun hans að það verði að aðskilja mjög skýrt annars vegar höfuðstólsbætur og svo hins vegar fjármagnskostnað. Mér sýnast tillögur hans í þessu efni vera jákvæðar. Þó að fulltrúar Seðlabankans og ráðuneytisins hafi haft um þær þau ummæli að þær samræmdust ekki almennum lánamarkaði, þá verður einfaldlega að horfa til þess að dráttarvaxtataka er ekki hluti af almennum lánamarkaði, heldur er hún í raun og veru ákveðin refsiaðgerð sem mönnum er annaðhvort sett sjálfdæmi um, eins og ýmsum lánastofnunum, eða þá ákvörðuð hjá dómstólum. Þannig að ég sé ekki að þar sé um neinn gífurlegan mun að ræða frá innihaldi III. kafla þessa frv. þar sem dráttarvaxtataka er tekin alveg út fyrir sviga sem alveg sérstakt verkefni vaxtalaga og passar ekki inn í almennan lánamarkað. En aftur a móti er þar reynt að samræma tvö viðhorf með einni gjaldtöku, þ.e. höfuðstólsbætur og fjármagnskostnað, og ég tel að það dæmi gangi ekki upp þannig að sanngjarnt sé á báða bóga. Og þá á ég við bæði hvað varðar skuldara og lánardrottin.

Frú forseti. Ég flyt litla brtt. við 6. gr. þessara laga. Sú brtt. snertir ákveðna skoðun sem ég hef á vaxtamálum og snertir vaxtatöku af verðtryggðum lánum eða skuldabréfum. Ég tel ekki eðlilegt að lán, sem hafa breytilegan höfuðstól vegna þess að þau eru verðtryggð, hafi líka breytilega vexti. En sú venja hefur skapast hér á undanförnum árum þó það sé ekkert mjög langt síðan það varð að almennri venju að slík verðtryggð lán eru líka með breytilegum vaxtaákvæðum. Afleiðing þessa er einfaldlega sú að fólk, sem tekur lán sem bæði eru verðtryggð og með breytilegum vöxtum, hefur í raun og veru ekki hugmynd um hvaða skuldbindingar það er að undirgangast. Breytingar á vöxtum um 1 prósentustig, jafnvel innan eins árs, koma út sem mjög verulegar upphæðir í hlutfalli við þau lán sem um er að ræða hverju sinni, hlutfallslega miklu hærri upphæðir en fólk á von á eða gerir sér hugmyndir um.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson flutti brtt. við þessi lög í Nd. um það að orðin „á óréttmætan hátt“ í 1. málsl. 17. gr. féllu niður. Manni fannst við fyrsta lestur óeðlilegt að það þyrfti að tvítaka ásetning eða stórfellt gáleysi og hnýta þar við að um óréttmætt athæfi væri að ræða. En lagaskýrendur hafa sannfært okkur í nefndinni um það að þetta orðalag verði að viðhafa þar sem um refsiákvæði sé að ræða og þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til þess að endurflytja þá brtt. hér í hv. Ed.

Ég gæti náttúrlega talað hér lengra máli og tínt til þau dæmi sem okkur voru sýnd og sögð um áhrif dráttarvaxtakaflans í þessum lögum, þ.e. Ill. kaflans, hvaða áhrif það hefði á vaxtatöku og lánsupphæðir. En þar benti hv. lögfræðingur Jón Steinar Gunnlaugsson á það að t.d. 100 þús. kr. lán, sem tekið hefði verið í apríl á síðasta ári og greitt síðan með dráttarvöxtum í febrúar á þessu ári, það væri samkvæmt þessum lögum greitt með 4-5 þús. kr. hærri upphæð heldur en ef notuð yrði sú aðferð sem hann leggur til.

Þegar maður hugsar til þess að á bæjarþingi hér í Reykjavík voru þingfest um 17 000 mál á síðasta ári vegna skuldakrafna, þá getur maður aðeins farið að ímynda sér hvaða upphæðir eru þarna á ferðinni.

Þær skipta ekki bara tugum þúsunda. Þær skipta trúlega milljónum. Þess vegna álít ég að menn verði að endurskoða þennan kafla laganna eins fljótt og auðið er, en auðvitað er það sjálfsögð krafa þeirra sem leggja þetta frv. fram og hafa unnið að því að á það fáist einhver reynsla áður en menn leggja fram endanlegar breytingar, m.a. sérstaklega á þessum þáttum frv.

Að þeim orðum sögðum, frú forseti, lýsi ég því yfir að ég mun greiða atkvæði með þessu frv. þrátt fyrir þá ágalla sem ég finn á því, en þá kannske frekast með virðingu fyrir þeim mönnum sem þetta frv. sömdu og rétti þeirra til þess að láta reyna á þessi ákvæði frv. áður en þau eru tekin upp til endurskoðunar.