18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4514 í B-deild Alþingistíðinda. (4376)

416. mál, tollskrá

Frsm. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Þegar þetta mál kemur hér að nýju til hv. Ed., þá hefur verið gerð á því breyting. Það er við 1. gr., að þar bætist við liður 37.03.09 sem mun vera ljósmyndapappír. Þetta var gert af nefndinni allri og með samráði við hæstv. fjmrh. og þess vegna alveg eðlilegt að við styðjum þessa brtt.

Hins vegar gerðist það þegar líða tók á kvöld að tillaga frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni var samþykkt í þinginu með atkvæðum framsóknarmanna flestra eða allra, ég veit ekki hvað leið atkvæði hæstv. forsrh. - já, það munu hafa verið tveir sem greiddu atkvæði gegn henni, eftir þeim upplýsingum sem hér koma fram.

Meðal þeirra ágætismanna sem skrifa undir nál. fjh.- og viðskn. hv. Nd. eru hv. þm. Páll nokkur Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., og hv. þm. Guðmundur Bjarnason, ritari Framsfl. Þeir flytja þessa brtt. sem ég nú hef getið um og síðan segir: „Þannig mælir nefndin einróma með samþykkt frv.“

Það gat nú ekki öðruvísi farið en á einhverjum lokadegi þingsins kæmi innræti þessa flokks upp í þessu samstarfi þar sem reynt hefur verið að starfa sæmilega heiðarlega, þannig að menn færu ekki hver á bak við annan í einu og öllu, þá auðvitað þurfti þetta að koma upp. Menn segja kannske að það sé ekkert stórmál hvort lækkaðir eru tollar á skíðum og skíðaskóm, það var um það sem tillagan fjallaði. Menn geta svo sem hálsbrotið sig, og jafnvel ríkisstjórnir, á einhverju öðru en skíðum, eða lappabrotið. Það verður nú ekki tillaga mín að þetta verði látið varða stjórnarslitum, en þetta sýnir hvernig menn eiga ekki að starfa saman.

Í þessu máli er það alveg ljóst að við öll hér inni hefðum viljað bæta þarna inn einhverjum liðum og það kom til umræðu í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Allir vita nú um minn áhuga að því máli. Það hefur verið unnið að tollskrá allan þann tíma sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur setið og fyrsta vetur þeirrar stjórnarsetu lagði ég mig a.m.k. persónulega gífurlega mikið fram um það að reyna að vinna að tollskránni, notað í það flestar þær frístundir sem ég hafði mánuðum saman, Það vita allir hv. þingdeildarmenn. Og það var von mín þá og margra fleiri að verulegar breytingar yrðu gerðar á tollskránni til lækkunar á þeim okursköttum og tollum sem á þessar vörur leggjast. Við vitum um mörg dæmi þess að vara sem kostar 100 kr. á hafnarbakkanum selst út úr búð eitthvað á fimmta hundrað kr. því að gjöldin leggjast hvert á annað. Fyrst kemur kannske 80% tollur, síðan koma inn ýmis smágjöld þar á ofan, og svo kemur söluskatturinn ofan á það, fyrst álagning kaupmannsins og svo söluskatturinn, þannig að varan fjórfaldast í verði og ríkið tekur rúman helming af því. Þetta gengur auðvitað ekki til langframa í lýðræðisþjóðfélagi. Þessu hefur öllu verið hrúgað upp á ofstjórnartímabilinu fyrir valdatöku þessarar ríkisstjórnar.

Ég setti það nú raunar að algjöru skilyrði fyrir stuðningi við þessa stjórn á síðasta degi áður en ég vissi hverjir yrðu ráðherrar eða stjórnin var mynduð, stuðning við stjórnarsáttmálann, að inn yrði tekið sem fyrsti liður í mildandi aðgerðum að stórfelld lækkun yrði gerð á neyslusköttum sem legðust með miklum þunga á nauðsynjar heimilanna. Og það var samþykkt af öllum þm. Framsfl. eins og Sjálfstfl. að þetta yrði gert. Það stóð allmikið á þeim efndum.

En nú á s.l. ári var horfið inn á þessa braut einmitt fyrir forgöngu núv. hæstv. fjmrh., formanns Sjálfstfl., að lækka verulega álögur á ýmsar vörur til þess að ná heiðarlegum kjarasamningum. Það var snúið við þarna blaðinu og farið inn á þessa réttu braut. Og hverjar eru þakkirnar hjá Framsfl., samstarfsflokknum? Maðurinn, sem ég nefndi hérna fyrst áðan, formaður þingflokks Framsfl., Páll Pétursson, sagði á fundi á Sauðárkróki fyrir tveim eða þrem dögum að það þyrfti nú að fara að athuga þessa óráðsíu fjmrh. sem væri með stórfelldan halla á fjárlögum. Það var samþykkt af Framsfl. að það yrði halli á fjárlögum í eitt eða tvö ár til þess að bjarga sjúklingnum, þjóðarsjúklingnum að komast út úr verðbólgu - hvað á að kalla það, það var náttúrlega komist langt á leið með stórfelldum kjaraskerðingum í upphafi þessa stjórnartímabils. Síðan auðvitað þegar ekki náðust samningar af því að ríkið gat ekki gefið eftir og var ekki talið geta gefið eftir vegna þess eilífa tals um að það megi ekki vera halli á fjárlögum, eins og þeir hafa nú fjmrh. löngum, jafnvel sá hæstv. fyrrv. fjmrh. sem situr hér á móti mér, verið að tönnlast á og lemja inn í fólk að það yrði að vera alltaf hallalaus ríkisbúskapur. Það skipti ekki miklu máli þó það yrði halli á heimilunum og fólk hefði ekki nóg til að lifa ef bara ríkissjóði væri borgið. En það var nú horfið af þessari braut og þakkirnar eru þær að núv. fjmrh. er skammaður af þingflokksformanni Framsfl. á fundum fyrir það að vera með halla á fjárlögum. Það var gert með opnum augum. Það var ekki nokkur lifandi leið að halda aftur af verðbólgu öðruvísi en að lækka þessa óhóflegu neysluskatta og auðvitað varð að ganga lengra á þeirri braut. Og þegar fjmrh. sýnir það að hann ætlar að ganga áfram þessa braut, að vísu í litlu, þá er komið í bakið á honum að næturlagi og ekkert við hann rætt.

En það er alveg ljóst mál að það er erfitt að taka þessa tiltölulega fáu hluti út úr vegna þess að það er svo ótal margt annað sem þarf að breyta. Tollskráin er nú ekki neinn smábunki. Ég þekki það allt saman, allt það ofboðslega pappírsflóð sem þar er og það er búið að undirbúa það, og var reyndar gert eins og ég sagði á fyrsta ári þessarar ríkisstjórnar, verulega að undirbúa þetta og það er nú yfirlýst af hálfu hæstv. fjmrh. að það eigi að ganga lengra í þá átt ef hann og hans flokkur og minn flokkur hafa til þess vald. En það var hins vegar ekki talið fært á þessu ári vegna þess hve miklar lækkanir voru á síðasta ári á öðrum hlutum en þessum vörum sem hér er um að ræða. En auðvitað er það ekki þægilegt fyrir einn fjmrh., heldur ekki fyrir okkur í nefndinni hér, að þurfa að neita svo og svo miklu af sanngjörnum og eðlilegum hlutum, sem ætti auðvitað að lækka tolla stórkostlega á, og fá það svo í bakið að samstarfsflokkurinn svíkur það samkomulag sem gert var, að þarna yrði engu hleypt inn nema með algjöru samþykki beggja flokkanna.

Eins og ég sagði þá ætla ég ekki að fara að gera það að tillögu minni að við látum þetta varða stjórnarslitum. En þetta sýnir auðvitað mismunandi hug þessara tveggja flokka. Annar er frjálslyndur flokkur sem vill skapa sem best skilyrði fyrir fólkið í landinu og lækka á því álögur. Hinn er auðvitað kerfisflokkur inn við beinið að verulegu leyti og er sífellt að tala um einhverjar samþarfir og það megi ekki vera halli á fjárlögum og það eigi að auka samneyslu og skerða hag einstaklinga og fjölskyldna.

En sem sagt: Mín tillaga er sú að við látum við þetta sitja og við förum ekki að senda frv. aftur til þessara manna í Nd. sem við vitum ekkert hvað mundu gera ef þeir fengju málið aftur í hendur.