18.03.1987
Efri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (4378)

416. mál, tollskrá

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í heimiliserjur stjórnarflokkanna. Við höfum hlýtt hér á hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, 4. þm. Norðurl. v., lýsa því fyrir okkur hve skelfilegur þessi samstarfsflokkur er, svíkur gerða samninga og kemur í bakið á samstarfsmönnum sínum að næturlagi. Þetta er auðvitað hið versta mál greinilega á stjórnarheimilinu og í sjálfu sér get ég vel tekið undir það að að sjálfsögðu eru þetta hinir verstu menn sem þarna er verið að fjalla um.

En ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst áhyggjur manna yfir þessu vera nokkuð einkennilegar. Við stöndum frammi fyrir því að hæstv. fjmrh. úr flokki Sjálfstfl. hefur verið að sigla fjármálum ríkissjóðs til fjandans. Það hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina í tíð þessarar stjórnar og auðvitað er alveg augljóst mál að þetta litla skíðaslys sem varð hér í gærkvöldi í Nd. er ekki annað en krækiber í helvíti. Því tel ég ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu, tel raunar að búið sé að veita svo miklum fjármunum úr ríkissjóði til svo fjölmargra aðila að íþróttamenn ættu vel skilið að fá þarna eitthvað í sinn hlut og ég get vel unnt þeim þess og ég styð því þá breytingu sem þarna hefur verið gerð.