04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

110. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil ekki gera lítið úr því litla sem þokað hefur í flugmálum í tíð núv. hæstv. samgrh. Hann taldi upp flugstöðvar og kom með staðhæfingu sem ég tel nauðsynlegt að gera athugasemd við, sagði að það væru komnar nýjar flugstöðvar, ný flugskýli á alla aðalflugvelli sem Flugleiðir flygju til á stærri flugvélum. Þetta er ekki rétt. Ég á oft leið um Norðfjarðarflugvöll. Þar er flugskýli sem er hreysi, ekki mönnum bjóðandi í rauninni, heilsuspillandi hvað þá meira. (Samgrh.: Að tveimur undanteknum.) Það er því alveg ljóst að það sem hæstv. ráðh. staðhæfði um úrbætur í þeim efnum er ekki rétt í öllum greinum.