18.03.1987
Neðri deild: 70. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4530 í B-deild Alþingistíðinda. (4413)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv., sem hér liggur fyrir, en hefði að sjálfsögðu viljað að það hefði gengið lengra. Að þetta frv. er nú borið fram sýnir, eins og oft áður hefur verið um talað, að búvörulögin, sem sett voru fyrir tveimur árum, hafa ekki náð þeim tilgangi sem til var ætlast. Það hefði þurft að vera miklu lengri aðlögunartími og hann er hér framlengdur með þessu frv. Það hefði þurft lengri framlengingu, en nú er komið fram á síðustu daga þingsins og ég stend þess vegna að því að frv. verði afgreitt óbreytt.

Það sem vantar að auki er að taka á birgðavandanum og leysa hann. Framleiðendur og ríkisvald þyrftu þar að taka höndum saman, koma þessum vanda úr landinu, en síðan m.a. að beita útflutningsuppbótum á innanlandsmarkaðinn og stórauka neysluna innanlands, sem vel er hægt. Það þarf í öðru lagi að endurskoða reglugerðir og gera kerfið manneskjulegra. Við setningu búnaðarþings benti formaður Búnaðarfélags Íslands landbrh. á að þetta þyrfti að gera og vonandi verður hann við því. Það þarf líka að efla búgreinafélögin og skapa þeim aukið fjármagn. Það mundi verða til þess að efla landbúnaðinn og hverja grein fyrir sig.

Nýlega skrifaði húnvetnskur bóndi grein í Morgunblaðið þar sem hann sagði m.a., með leyfi forseta: „Bændur hafa mátt þola margar plágur og eru margar þeirra af mannavöldum. Fjárkláðinn var fluttur til landsins 1856, minkaplágan 1930, mæðiveikin 1933 og síðar garnaveiki. Þessar plágur hafa valdið bændum þungum búsifjum og miklu tjóni. En allt útlit er þó fyrir að Jónsplága verði hvað mest og óskaplegust.“ Það frv. sem hér liggur fyrir og verður væntanlega samþykkt mun að nokkru draga úr afleiðingum Jónsplágu og þess er sannarlega þörf.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað