19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (4415)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Allshn. Ed. hefur komið saman og rætt þetta mál, frv. til umferðarlaga, sem nú er komið til okkar aftur eftir mjög miklar breytingar sem gerðar voru á því í Nd. hjá allshn. Þær brtt. liggja fyrir á þskj. 819.

Nefndin hefur farið yfir þessar brtt., sem eru mjög margar, og er slík meðferð á máli satt að segja harla óvenjuleg í vinnubrögðum þingsins þó að mig bresti kunnugleika til að dæma um hvort hér séu einhverjar hliðstæður, við höfum ekki athugað það sérslaklega.

Nú var þetta mál ekki nýtt af nálinni í meðförum Alþingis. Ed. hafði fjallað mjög rækilega um málið og þm. héðan úr deildinni unnið að því á milli þinga. Frv. var lagt fram í endurskoðaðri mynd í haust. Það er þó ekki þar fyrir að umferðarmál og umferðarlög eru eilíf álitamál. Álitamálin varða nánast hverja einustu grein þessa lagabálks sem er um 120 greinar. Deilumálin eru nánast óteljandi í þessu og það eru uppi alls konar skoðanir í þjóðfélaginu um hvernig á að skipa umferðarmálum þannig að ef við ætlum að komast að niðurstöðu sem allir eru sáttir við mundi slíkur lagabálkur sem þessi seint verða afgreiddur hér í Alþingi.

Margar brtt. sem Nd. hefur gert við frv. eru um orðalag og um það verður að segja að auðvitað er orðalag á slíku frv. eilíft álitamál og má lengi þar um bæta og áreiðanlega eru margar þessar till. til bóta og ekkert nema gott um það að segja.

Hins vegar verð ég að segja að umfjöllun í fjölmiðlum um þetta frv., einkanlega í sumum dagblöðum, hefur verið með dálítið einkennilegum hætti síðan frv. kom til meðferðar í Nd. og ég hef grun um að einhver orðhengilsháttur hafi verið í vinnubrögðum þar, hjá sumum að minnsta kosti. En það er ástæðulaust að vera að orðlengja um það. Það hefur hver sínar aðferðir að þessu leyti.

Það er auðvitað álitamál eins og ég sagði hvernig lagatexti sem þessi er best orðaður. Við í allshn. Ed. höfðum að leiðarljósi að frv. væri skiljanlegt öllum almenningi, það væri greinilegt og það fæli í sér rétta lýsingu á því sem fram þyrfti að koma, væri á skiljanlegu máli. Hvað lagatexti sem þessi á að vera ítarlegur, hvað hann á að taka til margra atriða, geta menn haft skiptar skoðanir um, en lög um umferðarmál eiga að leiða til aukins umferðaröryggis. Ef sá texti sem hér er gerir lögin skýr og greinileg og eykur umferðaröryggi í landinu hafa lögin náð tilgangi sínum.

Nd. hefur t.d. gert breytingar þar sem ásþungi er tekinn út og öxulþungi settur í staðinn. Þetta geta menn deilt um. Hins vegar hafa fagmenn tekið upp þetta orð, „ásþungi“, og við teljum það ná betur því sem um er fjallað. Hins vegar er þarna ekki beinlínis um umferðaröryggisatriði að ræða. Þarna er aðalmálið að hafa rétt orð um hlutina.

Mér virðist sem allshn. Nd. hafi verið fremur íhaldssöm í afstöðu sinni til umferðarmála. Hún hefur yfirleitt tekið út margar veigamiklar breytingar sem voru gerðar á frv. og fært hlutina í gamla horfið aftur. Þetta tel ég miður. Ég tel að margt af því sem Nd. breytti aftur í gamla horfið hafi verið betra, enda verðum við að sækja fram að þessu leyti.

Eitt af því sem Nd. færði í gamla horfið aftur í harðri atkvæðagreiðslu í deildinni voru þau ákvæði frv. sem lutu að umdæmaskráningu, sem lutu að því að heimilt var að afnema umdæmaskráningu bíla. Ég tel mjög miður þessa meðferð. Ég tel að þarna þurfi að breyta til. Það er með ólíkindum að þm. skuli láta tilfinningasemi sína og annarra ráða að þessu leyti, láta tilfinningasemi þeirra sem hafa krækt sér í lágt bílnúmer ráða afstöðu sinni hér á Alþingi og baka þar með öllum almenningi stórútgjöld og fyrirhöfn og skikka fólk til að vera í biðröðum hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins inni á Ártúnshöfða. Sama gildir út um allt land þar sem númeraskráning og allt það stúss sem því fylgir er jafnvel enn þá meiri fyrirhöfn og kostar ferðalög kannske um langan veg. Allt er þetta gert til að þóknast þeim mönnum sem hafa fest sig í þeirri sérvisku að halda að lágt bílnúmer sé eitthvert atriði í lífinu. Það er margt annað sem gefur lífinu gildi en lágt bílnúmer. Hins vegar var einu sinni þm. hér sem gerði texta við bílnúmerasöng og það sem ég man úr textanum er svona:

Viljir þú ná í heiminum hátt hafa þú verður númer lágt. Opnar þá standa þér upp á gátt auðnunnar dyr í hverri átt. Veraldargengið vaxandi fer því nær sem núllinu númer þitt er.

Kannske fer þetta eftir í kosningabaráttunni og þá getum við talið úti á bílastæði hverjir hafa gott gengi og hverjir ekki.

En nóg um þetta. Ég er samt ósammála þessari afgreiðslu Nd. á málinu og vildi láta það koma fram við þessa umræðu, en auðvitað er ekki orðið of seint að taka þetta mál upp aftur áður en lögin taka gildi því þau taka ekki gildi fyrr en í mars ef þau verða samþykkt. Nýtt Alþingi hvernig sem það er skipað getur tekið þessi mál upp á nýjan leik.

Ég vék að því fyrr í ræðu minni að megintilgangurinn með frv. og þessari lagasetningu, sem menn hafa unnið að mjög lengi, er að auka umferðaröryggi hér á landi. Ég hef fyrir satt og er sannfærður um að ný löggjöf skipti sköpum að þessu leyti því núverandi umferðarlög eru orðin gömul og úrelt í mörgum greinum. Ég hef það m. a. fyrir satt vegna viðtala við menn eins og formann Umferðarráðs sem ég talaði síðast við í morgun um þessi mál. Hann telur að þessi lagasetning skipti sköpum, jafnvel þó hún sé ófullkomin í ýmsum greinum að hans dómi og hann sé ekki sammála öllu sem þarna er sett fram. Það eru eilíf deiluefni hvað hentar best að setja í lög í sambandi við umferðarmálin.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mikið fleiri orð um þessi mál. Ég mun þrátt fyrir allt og þrátt fyrir að ég sé afar ósammála vinnubrögðum Nd. í þessu máli í mörgum greinum leggja til að frv. verði með þeim breytingum sem gerðar voru í Nd. samþykkt í Ed. og við göngum frá nýrri löggjöf í umferðarmálum á þessum degi.

Það er e.t.v. gott að vera vitur eftir á. Ég vil láta það koma fram í þessari umræðu að við gerðum tilraun til þess, efrideildarmenn, að fá Nd. í vinnu með okkur í þessu máli. Við gerðum tilraun til þess að láta nefndir efri og neðri deildar vinna saman, bæði á síðasta þingi og eins á þessu þingi, en þær tilraunir báru ekki árangur. En það er leitt að hafa ekki lagt meiri áherslu á það. Þá hefði verið hægt að komast hjá vinnubrögðum eins og hafa verið við þetta frv. til umferðarlaga.

Ég endurtek að ég legg til að frv. sem hér liggur fyrir verði samþykkt óbreytt eins og það kemur frá Nd. Ég tel að þar sem nú er liðið á síðasta dag þings og þinglausnir eru núna kl. 4 stöndum við í rauninni frammi fyrir gerðum hlut. Þó að mér væri skapi næst að senda nokkrar breytingar niður í Nd. aftur vil ég ekki stefna frv. í hættu með því að gera það því að ég veit ekki hvaða viðtökur það fær þar og býst við öllu hinu versta í þeim efnum. Þannig legg ég til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Hér hefur reyndar verið lögð fram brtt. um bílnúmeramálin og umdæmisskráninguna. Mér fyndist best ef tillögumenn gætu dregið þá till. til baka á einhverju stigi vegna þess hvernig er í pottinn búið, en auðvitað munu þeir gera grein fyrir afstöðu sinni að þessu leyti við þessa umræðu og ég mun ekki hafa þessi orð fleiri að sinni.