19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (4416)

119. mál, umferðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál uppi þó á þessum síðustu dögum og þessum síðasta degi reyndar, í dag, væri full ástæða til að taka nokkuð snarpa umræðu á þessu máli í heild sinni. Auðvitað er það rétt, sem hv. 4. þm. Austurl. kom inn á áðan, að álitamálin eru enn þá fjölmörg. Áður en ég fer út í þetta almennt vil ég aðeins greina frá því að núna t.d. hef ég frá ágætum embættismanni, sem ákveðin atriði hvíla á og munu hvíla á á næstunni, athugasemdir við frv. í þeim búningi sem það er varðandi skráningu á smátjónum sem eiga nú að flytjast til tryggingafélaganna frá lögreglunni. Að vísu höfðum við fengið það frá umferðardeild borgarinnar að það yrði leitað eftir samvinnu við tryggingafélögin til að fá skýrslur um þessi smátjón, en sannleikurinn er sá að það er mikil hætta á því, eins og þessi deildarverkfræðingur hjá embætti borgarverkfræðings bendir réttilega á, að þá verði hér um verulega afturför í skráningu að ræða og mikil spurning um hvort umferðardeildinni þykir yfirleitt svara kostnaði að safna þessum upplýsingum frá tryggingafélögunum.

Þessi sami maður bendir mér á það, sem við höfðum reyndar fjallað um en ekki kannske áttað okkur nægilega á, og sýnir það best hversu vandmeðfarið þetta mál er, að við erum í raun og veru að færa þetta eins og í fleiri greinum til samræmingar við Norðurlönd. Það hefur kannske verið það meginþema sem hefur ráðið ríkjum hjá okkur í umfjöllun þessa máls. En síðan kemur í ljós í plöggum sem hann afhendir mér að aðilar á Norðurlöndum vildu gjarnan hverfa aftur í þessum málum til þess fyrirkomulags sem við höfum varðandi þessa skráningu og sakna þess mjög að geta ekki fært skráningu allra umferðaróhappa yfir á lögregluna á nýjan leik. Það sýnir best að enn þá eru álitamál ótalmörg. Ég gat ekki stillt mig um að koma þessu hér að þó ég viti að það sé til lítils að tala um það á síðasta degi þegar við stöndum, eins og hv. 4. þm. Austurl. kom inn á áðan, gagnvart orðnum hlut.

Hér er nefnilega um býsna alvarlegt mál að ræða ef þetta verður til þess að menn hafa ekki, á þessari upplýsingaöld og upplýsingastreymisöld, nægilega góðar og haldbærar upplýsingar um þetta má segja höfuðatriði umferðarinnar, einmitt á þessu umferðarsvæði í Reykjavík, og geta ekki gengið að þeim upplýsingum á skipulegan hátt eins og þó verið hefur. Hér m.a. erum við því að flækja mál sem við hefðum ekki þurft að gera einmitt af því að við vorum að færa okkur til Norðurlandanna, til þess sem þar gildir en sem færustu sérfræðingar þar segja að þeir vildu gjarnan hafa í sama farinu og við höfum áður verið með og vildu gjarnan hverfa til þess tíma.

Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér því að það væri lengra mál en svo að ég tefji tímann um það, en kem þessari ábendingu á framfæri alveg sérstaklega með tilliti til þeirrar endurskoðunar sem fram á að fara á þessum lögum og í ljósi þeirrar reynslu sem þá verður af þeirri skipan sem við erum nú að taka upp í stað þeirrar sem gilt hefur.

Og þá er komið að endurskoðunarákvæðinu eins og það kemur frá Nd. og ég staldra kannske fyrst við það. Það var nefnilega boðið af hálfu okkar, sem erum í allshn. þessarar deildar, og í raun og veru boðið þeirri nefnd sem fjallar um þetta mál í Nd. að koma til móts við okkur, eftir öll þau vinnubrögð sem þar höfðu verið viðhöfð og við töldum óverjandi með öllu, með endurskoðunarákvæði og þá ekki endurskoðunarákvæði langt fram í tímann heldur að þessi mál yrðu í raun og veru í stöðugri endurskoðun. En í stað þess að mæta okkur með því að setja inn endurskoðunarákvæði sem væri skaplegt, eins árs endurskoðunarákvæði eða eitthvað svoleiðis, færa þeir þetta alveg yfir til 1991 og hefði svo sem alveg mátt, miðað við önnur vinnubrögð þeirrar nefndar, búast við því að þeir hefðu alveg eins getað sett 2001 eins og 1991 því það hefði verið í mikið betra samræmi við margt sem þeir gerðu þar í Nd. að þeir hefðu sett það hér inn. Þá hefðu þeir verið nokkurn veginn í takt við vinnubrögð sjálfra sín þar.

Auðvitað er hart að þurfa að taka við ýmsum þeim ambögum og útúrsnúningum sem Nd. hefur gert. Það er líka hart, þegar við höfum vel vandað okkur undir sérstakri forustu virðulegs forseta þessarar deildar að koma til móts við óskir um að skólabifreiðir hefðu ákveðinn rétt og þar með væri öryggi skólabarna tryggt betur en nú er í umferðarlögum, að þá skuli Nd. umsnúa því öllu saman. Það er ekki mikill taktur í þessu hjá hv. þm. Reykjaneskjördæmis þar sem hv. þm. Gunnar G. Schram hefur haft forustu fyrir því að umsnúa þessu svo fyrir virðulegum forseta sem raun ber vitni og gera greinina þannig úr garði að hún er til einskis gagns eins og hún er. Nákvæmlega einskis gagns af því hún segir ósköp einfaldlega: Það skal sýna aðgát. Umferðarlögin byggja öll á því að það skuli sýna aðgát. Þar af leiðandi þarf ekki að vera með sérákvæði varðandi þetta frekar en annað þarna. Er í raun og veru grátlegt að út úr þessu skuli hafa verið snúið svo hörmulega sem raun ber vitni eftir að við í nefndinni höfðum fundið viðunandi orðalag þar sem réttur skólabarna og öryggi þeirra var virkilega tryggt lögum samkvæmt, hvað sem verður svo um framkvæmdina á þessu sem öðru sem við erum hér að setja í lög. Það er svo annað mál.

Nokkur veigamikil atriði einnig eru hér algerlega andstæð okkar skoðunum og hafa verið nefnd hér. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Hégómamálið varðandi bílnúmerin er svo yfirgengilegt. Það sýnir best þroska þessarar deildar að í þessari hv. deild eru menn með hin fegurstu bílnúmer og glaðir gerðu efrideildarmenn það að afsala sér þeim með allsherjaratkvæðagreiðslu einróma um það. En í Nd. er þroskinn ekki kominn lengra en það að þar hanga menn í sínum númerum blýfastir og vilja hégómans eins vegna halda í úrelt kerfi, dýrara kerfi og um allt erfiðara og umhentara fyrir almenning.

Ég skal ekki fara út í fleiri atriði vegna þess að hv. 4. þm. Austurl. kom inn á þau, en vissulega hefði verið ástæða til að staldra við og segja einfaldlega:

Það er óviðunandi að taka við þessu á þennan máta. Og að það skyldi þá ekki vera gert núna, úr því að þessu máli var teflt í þessa tvísýnu, að reyna að samræma þessi sjónarmið heldur vera með þá einstefnu sem Nd. hefur verið með - til ills í langflestum greinum. Það kann að vera að þeir hafi fundið einhverjar orðalagsbreytingar þarna niðri af því að þeir leituðu svo grannt, eins og að nál í heystakki, að einhverju sem þeir gætu breytt þar. Það kann að vera. Þeim er ekki alls varnað og það kann vel að vera að þeir hafi gert það. En hitt er annað mál að það hefði verið lágmarkið að þarna hefði farið fram nokkuð samræmd vinna í lokin ef mönnum var alvara að koma þessu máli í gegn.

Hitt er svo ljóst að Alþingi hlýtur áreiðanlega ámæli af hvoru tveggja. Annars vegar því að afgreiða málið með þessum hætti, það er alveg ljóst, m.a. með bílnúmerafarganinu eins og það var orðað einhvers staðar og öðru slíku sem þarna hefur verið fært til verri vegar, og auðvitað ýmsum álitamálum sem þarna eru. Eflaust verður það og við sjáum þegar greinar um það sem eru býsna harðorðar og sumpart byggðar á ósanngirni og á annan hátt réttmætar vegna þess að aldrei er gert svo að öllum líki. En ég held að Alþingi hafi samt enn þá meira ámæli af því að afgreiða ekki umferðarlögin frá sér þó núna, til endurskoðunar svo aftur seinna meir, ef eitthvert vit hefði verið í því endurskoðunarákvæði þannig að endurskoðun hefði í raun og veru hafist strax í ljósi þeirrar reynslu sem fæst jafnharðan af því hvernig þessi umferðarlög koma út í framkvæmd því að það er auðvitað það sem gildir í þessum efnum.

Ég verð því að segja það að ég styð það að þetta mál fari í gegn núna með þeim þó augljósu annmörkum sem eru á því, sem menn hafa teygt sig hér út og suður til samkomulags um, og með þeim göllum sem á frv. hafa orðið í Nd. og kann illa við það á mínum síðasta þingdegi að stefna máli í hættu á þann hátt, máli sem hefur verið unnið þetta mikið í, fara heldur með það út í þjóðfélagið til prófunar og athugunar og taka það upp til endurskoðunar og gera á því breytingar því þrátt fyrir þessa endurskoðun verða auðvitað gerðar á því breytingar alveg á næstu árum þar sem það sýnir sig glögglega í framkvæmdinni að þetta gengur ekki, þar á meðal varðandi það atriði sem ég kom hér inn á áðan varðandi tjónaskráninguna, að ef um það verður að ræða að þarna missa menn áttanna í þeim efnum og ná ekki því sem menn hafa þó haft fyrir, þá ber mönnum að breyta því snarlega án þess að málið sé tekið í heild til endurskoðunar.

En ég sem sagt styð það að þetta verði afgreitt hér út núna, en hef allan fyrirvara á því sem Nd. hefur gert í þessum efnum og harma það að hún skuli hafa unnið eins og stundum áður á þann hátt að taka ekki hið minnsta tillit til þess hvernig máli mundi reiða af í heildina tekið hér út úr þinginu, heldur eingöngu láta eigin duttlunga ráða.