19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (4418)

119. mál, umferðarlög

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni að gera verður fleira en gott þykir. Ég vil láta það koma skýrt fram strax í upphafi máls míns að ég mun greiða atkvæði með þessu frv. þó að ég hafi eitt og annað við það að athuga. Það hlýtur náttúrlega hverjum manni að vera ljóst að þegar verið er að afgreiða frv. í 120 lagagreinum getur ekki farið svo að maður sé sáttur við allar greinar þess frv. og verður því að taka afstöðu til heildarinnar. Það er þó líka greinilegt að endurskoðunarákvæðið, sem búið er að samþykkja við þetta frv., um það að lögin verði tekin til endurskoðunar 1991, fullnægir ekki nándar nærri vilja og kröfum manns um það að reyna að bæta þetta frv. og þetta endurskoðunarákvæði kemur reyndar ekki í veg fyrir það að frv. verði skoðað á hvaða tíma sem er. Það er reyndar fyrirsjáanlegt að næsta þing, þegar það kemur saman, fær mjög mikið að starfa eingöngu við það að laga þau frv. sem samþykkt voru á þessu þingi. Fer þá eiginlega starfsvettvangur þingsins að verða nokkuð hjákátlegur þegar eitt þing samþykkir aragrúa af frv. - ég minni hér á t.d. frv. um tekju- og eignarskatt og lög um staðgreiðslu sem búið er að samþykkja - en næsta þing hefur svo kannske aðalstarfa af því að fara í gegnum þau frv. sem samþykkt voru á seinasta þingi til þess að lagfæra þau og koma þeim að einhverju leyti í það horf sem menn raunverulega vildu þegar þeir afgreiddu lögin. Þá verður nú að viðurkennast að maður sér kannske lítinn tilgang í því að vera að afgreiða frv. og gera þau að lögum með slíku hugarfari.

Nd. hefur gert breytingar á frv. eins og það kom frá Ed. og það verður að viðurkennast að miðað við þann langa umhugsunartíma sem Ed. tók sér við þetta frv., en hún hafði það milli handa í fleiri en eitt þing og setti í það sérstaka starfsnefnd að fara yfir frv. og eiga viðræður við alla þá aðila sem umsögn gátu veitt um þetta frv., var allshn. Nd. greinilega ólíkt fljótari að skoða hug sinn en allshn. Ed. því að það tók hana ekki nema nokkra daga að sjóða saman allar þær brtt. sem voru gerðar á frv. í Nd. og eru sumar þeirra þó nokkuð alvarlegar.

Ég vil lýsa óánægju minni með þá breytingu sem gerð var á 18. gr. frv. um hegðan ökumanna þegar þeir nálgast hópferðabifreið, eða hópbifreið eins og það kallast nú, eða skólabifreið. Menn höfðu fjallað um þetta mál þó nokkuð ítarlega hér í þessari hv. deild og komist að þeirri niðurstöðu að til að tryggja mætti sem best öryggi allra væri nauðsynlegt að hafa þessi ákvæði strangari en Nd. nú vill. Og eðlilegt hefði náttúrlega verið í samræmi við þá niðurstöðu okkar að við gerðum það að okkar tillögu að breyta því til fyrra horfs. Við vitum hins vegar hvað það mundi kosta. Það munda kosta það einfaldlega að þessi lög yrðu ekki afgreidd á þessu þingi og það gengur þá gegn almennum vilja okkar.

Eins sé ég ekki ástæðu þeirrar íhaldssemi sem kemur fram í breytingu Nd. við 32. gr. um lögboðna ljósaskyldu því að eins og hv. 5. landsk. þm. Eiður Guðnason benti á fer þeim bifreiðategundum sífellt fjölgandi sem eru með þennan öryggisbúnað innbyggðan, þ.e. það kviknar á ljósum bifreiðarinnar um leið og hún er sett í gang og það slokknar einfaldlega á þeim þegar á bifreiðinni er drepið og í sjálfu sér þurfa ökumenn þá ekki að hafa neinar áhyggjur af því hvort ljós eru logandi eða ekki, bifreiðin og tækni hennar sér um það.

Efrideildarnefndin gerir líka þó nokkuð miklar breytingar á bótakröfugreinum frv., þ.e. þeim greinum sem lúta að vátryggingu og ábyrgð á tjóni eða bótaábyrgð. Þær breytingar eru að því leyti í hæsta máta undarlegar að við höfðum hér í þessari deild að höfðu samráði við vátryggingarfélög reynt að færa greinar frv. til þess horfs sem passaði má segja nútímaástandi í umferðarmálum, en að því er við fáum best heyrt hér í Ed. mun þessum greinum síðan hafa verið breytt aftur til fyrra horfs, þ.e. til gamaldags hátta, líka að tilstuðlan vátryggingarfé laganna, en þau höfðu einmitt verið höfð með í ráðum þegar við vorum að breyta þessum greinum frv. Ég verð að lýsa undrun minni yfir slíkum vinnubrögðum.

Því atriði sem allir vita að gat sparað bifreiðaeftirliti, eins og fram hefur komið, 13 mannár og líklega u.þ.b. 20 millj. kr. á núgildandi verðlagi, þ.e. að númer fylgi bifreið í stað þess að skipta þurfi um númer í hvert skipti sem bifreið skiptir um eiganda eða fer milli lögsagnarumdæma, breyttu neðrideildarmenn aftur til þess að fullnægja þeirri tilfinningasemi sem býr að baki því að hafa eitthvert ákveðið númer sem stöðutákn. Ég tek undir það sem 5. landsk. þm. sagði: Mér finnst fyllilega réttlætanlegt að skattleggja þá sérstaklega sem endilega vilja halda þessu gamla númerakerfi vegna þess að því verður ekki á móti mælt að þeir hinir sömu, sem vilja halda í gamla númerakerfið, eru að skattleggja aðra um 20 millj. kr. Ég tel því að þeir ættu eins vel að geta borgað kostnaðinn af þessari fordild sinni sjálfir. Hefði maður haft tíma og aðstöðu til þess hefði verið ástæða til að leggja fram brtt. við 64. gr. frv. þess efnis að í stað: Ökutæki skal skráð í umdæmi þar sem skráningarskyldur eigandi þess á lögheimili eða varnarþing - eins og Nd. vill hafa það, þetta er það sem tryggir gamla númerakerfið - stæði: Leyfilegt er að skrá ökutæki í umdæmi þar sem skráningarskyldur eigandi þess á lögheimili eða varnarþing. Í þessu fælist þá einfaldlega það að ráðherra eða bifreiðaeftirliti viðkomandi lögsagnarumdæmis væri heimilt að taka gjald fyrir þá sérvisku að vilja láta skrá ökutækið í sínu eigin lögsagnarumdæmi, og bæri gjaldið að fullu uppi þann kostnað sem af því leiddi. Við erum í raun og veru, eins og þetta stendur núna og mun líklega endanlega verða samþykkt, að skapa hér ákveðin forréttindi í þjóðfélaginu, fólks sem nýtur ákveðinnar sérstöðu í gegnum það að hafa þessi númer sem það elskar svo mjög. En kostnaðinn af því greiðir allur almenningur með því að borga þá vinnu sem fram fer hjá bifreiðaeftirlitunum við það að viðhalda þessu forna forréttindakerfi.

Það vekur manni undrun, því maður verður svo oft var við það hér á þingi hvað menn hafa miklar áhyggjur af útgjöldum hins opinbera og álögum á almenning vegna þeirra útgjalda, að menn skuli ekki hlusta á jafneinföld og eðlileg rök eins og liggja fyrir þessari breytingu, þ.e. að með því að breyta til þess horfs að láta skráningarnúmer fylgja bifreið sé hægt að spara 31-33% af vinnutíma bifreiðaeftirlitsstarfsmanna og spara bara hér í Reykjavík a.m.k. 10-13 mannár og upphæðir á borð við það sem hér hefur verið nefnt, í kringum 20 millj. kr.

Eins og fyrir liggur höfum við hv. þm. Karl Steinar Guðnason lagt fram brtt. við 64. gr. um það að sú setning sem Nd. setti inn í frv. verði látin falla brott aftur. Viljum við þar með láta endanlega reyna á það hvort ekki megi ná þeirri skynsemi út úr þingi og þingmönnum að ljúka starfsári sínu núna með því að spara þjóðinni á einu bretti 20 millj. kr. Ég verð að lýsa furðu minni yfir því ef menn ætla að slá hendinni á móti jafnauðveldri, einfaldri og stórri gjöf sem þeir gætu gefið landsmönnum svona undir lok þessa þings.