19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4546 í B-deild Alþingistíðinda. (4419)

119. mál, umferðarlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt Stefáni Benediktssyni lagt fram brtt. við umferðarlögin sem lúta að því að taka upp nýtt skráningarkerfi á bifreiðar, afnema það rugl og vitleysu sem uppi er með núverandi skráningarkerfi, færa frv. í það horf sem var þegar það fór héðan frá deildinni. Það hafa verið færð mjög góð rök fyrir því að þessi breyting verði gerð. Ég ætla ekki að tíunda þau hér en þó að segja það að núverandi kerfi ýtir undir hégóma og snobb, sóar fjármunum, sóar starfskröftum, er forneskja sem ber að afnema.

Það hefur komið fram í máli manna að menn óttast það að verði tillagan samþykkt, sem ég tel líklegt að verði, svo eindregin var skoðun manna þegar frv. fór frá deildinni til Nd., verði það til þess að frv. nái ekki afgreiðslu í Nd. Ég vil ekki vera valdur að því. Við viljum ekki vera valdir að því, við félagarnir sem berum fram þessa brtt., en ég tel ástæðu til að taka málið upp á næsta þingi og breyta númerakerfinu yfir í nýtískulegt horf, koma því frá þeirri vitleysu sem samþykkt var í Nd.

Ég mun því, og við félagarnir, draga þessa tillögu til baka í þetta sinn svo að tryggt verði að umferðarlagafrv. komist í gegn en ítreka það að ég tel nauðsynlegt að málið verði tekið upp til breytinga á næsta þingi.