19.03.1987
Efri deild: 73. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4546 í B-deild Alþingistíðinda. (4420)

119. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það hefur verið komið inn á flest eða öll þau atriði sem ástæða var til að minnast á vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á þessu frv. hjá hv. Nd. svo að ég mun stytta mál mitt eins og ég get. En þó eru örfá atriði sem ég ætla að minnast á.

Ég get tekið undir með hv. 5. landsk. þm. að ekki óraði mig heldur fyrir því að málið fengi slíka afgreiðslu í hv. Nd. sem raun ber vitni. Það er einnig rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði í sinni ræðu að þetta mál, umferðarlagafrv., er þess eðlis að það verður seint hægt að fara eftir óskum allra í þeim efnum. Þetta er mikið tilfinningamál hjá mörgum og persónubundið. Við höfum vissulega fengið að heyra þetta að undanförnu bæði hér á hv. Alþingi og sérstaklega kom það kannske fram í afgreiðslu hv. Nd. á frv. Því miður verður að segja það að fjölmiðlar hafa sumir hverjir haft tilhneigingu til að draga fram umræður og skrifa um þessi mál í hálfkæringi og jafnvel í hæðnistón. Öðruvísi hefur málið kannske ekki þótt fréttnæmt og er þá skemmst að minnast greinar sem birtist í Dagblaðinu í gær. Þar mælir Dagfari og fyrirsögnin „Skylt er að sitja klofvega“ er til þess að vekja athygli á þeim hæðnistón sem einkennir umfjöllunina um frv. í því blaði. Þar er komið inn á ýmis atriði sem eru fremur smáatriði og verið að snúa út úr þeim í hæðnistón, eins og það að enginn hafi vitað fyrr og að það sé mikil lagabót að vita t.d. hvar séu vegamót, að það sé þegar vegir mætast eða skerast, svo að eitthvað sé nefnt. Það er farið háðulegum orðum um ljósin eins og fyrri daginn, að nú skuli allir nota ljós um hábjartan sumardaginn, og virðist sá ágæti maður sem skrifar Dagfara og ætíð fer huldu höfði ekki enn hafa öðlast skilning á þeirri þýðingu og þeirri tillitssemi sem vegfarendum, gangandi eða ökumönnum sem á móti bifreið koma, er sýnd með því að aka með ljósum jafnvel um hábjartan sumardaginn.

Ég get ekki á mér setið að rifja það upp þegar ég flutti í fyrsta sinn á hv. Alþingi frv. um að nota ökuljós allan sólarhringinn allan ársins hring. Það eru fjögur ár síðan, það var snemma árs 1983. Þá fékk ég þannig kveðjur - þá hét hann nú reyndar Svarthöfði í Dagblaðinu að það var í raun og veru mælst til þess að þessi þingmaður yrði ekki kosinn í prófkjöri sem þá var rétt að hefjast í því kjördæmi sem ég er þm. fyrir.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og þá vakti þetta mál athygli og umræðu. Að vísu voru margir sem gerðu grín að þessu, gerðu grín að þm. sem flutti svona fáránlegt mál, en eftir því sem árin hafa liðið og umræðan orðið meiri um þetta atriði hafa fleiri farið að nota ökuljósin og nú er svo komið að þeir eru að verða fleiri sem það gera en hinir sem ekki aka með ljósum alltaf.

Þess vegna var það vissulega fagnaðarefni að hv. Nd. skyldi nú álpast til þess - ég get nú ekki annað sagt - að samþykkja brtt. við frv. eins og við sendum það héðan frá Ed. um að hafa ljósin kveikt allan sólarhringinn, líka um hásumarið, vegna þess að það var samkomulag hér í hv. Ed. að ganga ekki lengra en raun bar vitni, þ.e. að ökuljós skyldu notuð frá 1. sept. til 30. apríl. Síðan mættu menn, þeir sem það vildu, slökkva á ljósunum yfir hásumartímann. Þetta gerðum við til þess að vera nú örugg um að málið kæmist í gegnum Nd., að það yrði nú ekki drepið þar eins og hefur gerst á undanförnum fjórum þingum, því að hér hef ég flutt frv. um þetta mál á fjórum þingum ásamt fleiri hv. þingdeildarmönnum og það hefur farið í gegnum þessa hv. deild en ætíð verið svæft í allshn. Nd. Nú ætluðum við að koma í veg fyrir að þarna yrði slys með því að koma til móts við menn sem ekki voru enn búnir að átta sig á hlutunum. En þá gerist þetta merkilega: það er samþykkt brtt. við frv. í Nd. um það að nú skuli bara ljósin kveikt allan sólarhringinn, allan ársins hring. Þar er gamla frv. mitt uppvakið. Ég vil svo sannarlega koma við þetta tækifæri á framfæri þakklæti til hv. Nd., að þar hafi þeim tekist vel í allri slysásögunni varðandi þetta mál.

Hins vegar er það dapurlegt, og ég vil segja sorglegt, atriðið sem hér hefur verið nefnt af hv. þm. sem hafa talað á undan mér. Það er varðandi 18. gr. frv. um merktar skólabifreiðar, um það að ökumenn, sem nálgist slíka bifreið sem er að hleypa farþegum út eða inn, skuli nema staðar á meðan.

Þetta er fellt út og síðan á bara að hafa sérstaka aðgát. Og hvað þýðir nú það? Hvenær er það sem ökumaður á ekki að hafa sérstaka aðgát?

Eins og var nefnt hér á undan er það hörmulegt að hv. þingdeildarmenn í Nd. skyldu ekki átta sig a hvað hér er á ferðinni. Hér er verið að vinna fyrirbyggjandi starf gagnvart börnum, skólabörnum, og það vill nú svo til að einn varaþingmaður sem sat hér á þingi á s.l. ári upplifði það sjálfur að þurfa að fylgja nemanda sínum til grafar sem hafði orðið fyrir slysi einmitt af þessum ástæðum. Þessi hv. varaþingmaður skrifaði mér bréf til þess að lýsa því yfir að hann hefði áður verið í vafa um þetta ákvæði en nú væri hann sannfærður. Því miður var þetta atriði fellt út úr frv. og dregnar úr því vígtennurnar, ef svo má að orði komast, og það gert marklaust.

Ég vil því taka undir með þeim hv. þm. sem hafa talað á undan mér um að þetta verður eitt af þeim atriðum sem við - eða þeir þm. ætlaði nú að vera bjartsýnn og halda að hann kæmist aftur á þing en hv. 5. landsk. þm. þorði ekki að taka sér slíkt í munn, ég skil það nú eiginlega ekki, en ég vil bara vera bjartsýn og segja að við sem verðum á næsta þingi munum taka þetta ákvæði upp ásamt ýmsum öðrum og reyna að koma lagi á þau mál sem hafa verið úr lagi færð.

Ég held að ég sé ekki að orðlengja þetta mikið meira. Jú, ég vildi nefna það sem hv. 5. landsk. þm. kom einnig inn á og hefur verið mitt áhugamál og það er að það sé lögbundið að börn á reiðhjólum skuli hafa öryggishjálma. Það er e.t.v. ekki nauðsynlegt að þetta sé lögfest. Þetta mætti væntanlega setja í reglugerð og ég vildi a.m.k. beina því til núverandi hæstv. dómsmrh. að hann beiti sér fyrir því að þetta atriði verði kannað, hvort ekki sé hægt að setja slíkt í reglugerð.

Það hefur komið fram að það er nauðsynlegt að fylgja þessu frv. eftir með kynningu þegar það er orðið að lögum og það er ástæða til að fagna því að í gær var samþykkt í hv. Sþ. þáltill. sem ég ásamt fleiri þm. flutti um þjóðarátak í umferðaröryggi. Það er markmiðið að undirbúningur að slíku þjóðarátaki verði hafinn til þess að það geti komið í kjölfar þessara laga þegar þau taka gildi.

Ég vil minna á það aftur hvaða þýðingu það hefur að reyna að stuðla að því að þeir sem ferðast um, hvort sem þeir eru gangandi eða akandi, sýni tillitssemi og hafi aðgát. Það hefur komið fram að núna aðeins í janúarmánuði urðu 544 umferðaróhöpp aðeins þar sem umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík hafði með að gera. Af þeim voru 47 slys, má ég segja.

Þetta sýnir okkur hvað það er nauðsynlegt að endurhæfa okkur öll og það er markmiðið með þessu þjóðarátaki sem ég minntist á, að gjörbreyta hegðun Íslendinga í umferðinni, jafnt ökumanna sem gangandi vegfarenda, þannig að tillitssemi við aðra vegfarendur og kunnátta sem greiði fyrir umferð og auki umferðaröryggi verði sjálfsagður þáttur í daglegri hegðun. Með því móti má nánast útrýma þeim umferðarslysum sem stafa af vankunnáttu, þjálfunarleysi og tillitsleysi við aðra vegfarendur. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir þá ríkisstjórn sem situr á næsta þingi að sýna það að gerð verði gangskör að því að koma slíku þjóðarátaki á.

Varðandi þetta frv. vil ég þakka hv. 6. landsk. þm. fyrir að hann lýsti því yfir að þeir mundu draga sína brtt. til baka til þess að greiða fyrir þessu máli. Ég tel að það sé skynsamlegt. Það er kannske ekki við öðru að búast hjá okkur í þessari hv. deild. Sá vægir sem vitið hefur meira og við munum standa að því að samþykkja frv. væntanlega eins og það liggur fyrir og kemur frá hv. Nd., þó að við séum á engan hátt sátt við margar þær óþörfu breytingar sem á því voru gerðar. En eins og hér hefur komið fram hjá mörgum sem hafa talað á undan mér munu væntanlega þeir sem eiga sæti á næsta þingi taka málið upp að nýju og reyna að fá lagfæringar sem nauðsynlegar geta orðið.