19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4550 í B-deild Alþingistíðinda. (4423)

Afgreiðsla mála úr heilbr.- og trn. neðri deildar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þess hefur verið óskað að ég sem formaður heilbr.- og trn. Nd. gerði nokkra grein fyrir þeim málum sem þar munu daga uppi. Það var fyrir nokkrum dögum samþykkt þegar álagið var hvað mest hjá nefndinni að þau mál sem ekki yrði samkomulag um yrðu látin liggja og við mundum ekki freista þess að afgreiða þau. Við höfum setið á löngum fundi í morgun vegna frv. til laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit með síðari breytingum sem kom til okkar vel unnið frá Ed. Við sjálfstæðismenn og reyndar fulltrúi Alþb. og trúlega einnig fulltrúi Alþfl. hefðum getað sameinast um að þetta mál næði fram þótt það skuli hins vegar tekið fram að sumir fulltrúar, með það í huga sem við höfðum ákveðið í fyrrinótt eftir okkar síðustu ákvarðanatöku, hefðu ekki getað kynnt sér málið til hlítar. Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að láta þetta koma fram vegna fsp. sem hafa komið fram um einstök mál sem hafa legið hjá nefndinni, liggja enn og munu liggja um sinn.