19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4554 í B-deild Alþingistíðinda. (4434)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Frsm. meiri hl. samgn. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. samgn. Nefndin hefur fjallað um þetta mál sem komið er til einnar umr. frá Ed. Nefndarmenn voru sammála um að reyna að greiða fyrir því að þetta frv. gæti orðið að lögum og skjótt frá sagt eru þeir allir sjö sammála um að mæla með frv. í þeirri mynd sem það kom frá Ed., en ágreiningur hefur orðið um 4. gr., þ.e. þá nefndarskipan sem þar um ræðir. Eftir nokkrar umræður féllust fimm nefndarmenn af sjö á að flytja brtt. á þskj. 1063, en tveir þeirra, hv. 3. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Norðurl. e., hafa þó fyrirvara. En það var fullur vilji hjá þessum nefndarmönnum að láta ekki málið stöðvast á þessu ágreiningsatriði.

Tveir nefndarmenn, hv. 3. þm. Norðurl. e. og 5. þm. Norðurl. v., eru andvígir þessari brtt. og gera væntanlega grein fyrir sínu máli, en við hinir fimm leggjum til að brtt. verði samþykkt.