19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4554 í B-deild Alþingistíðinda. (4436)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Skipulagi sérleyfisferða innanlands er á margan hátt mjög ábótavant. Þar hefur lítil framþróun orðið í þá átt að koma í veg fyrir að margar rútur keyri hálftómar sömu leið á sama tíma og má nefna Hvalfjörð sem dæmi um þetta. Mig undrar því þegar í 5. gr. er fyrst sett sem skilyrði í alið að sérleyfið gildi í fimm ár á tiltekinni leið og sé óframseljanlegt, en svo komi í lok sömu greinar fyrirmæli á þennan veg, með leyfi forseta:

„Leysa má sérleyfishafa frá skilyrðum skv. a-lið séu til þess rökstuddar ástæður að mati skipulagsnefndar fólksflutninga og ráðuneytis.“

Skilyrðin í a-liðnum eru tvö og það kemur ekki fram samkvæmt þessu hvort má leysa hann undan því að það gildi til fimm ára eða má leysa hann undan því að skilyrðið sé óframseljanlegt. Það geta komið fram þær aðstæður að hugsanlegt sé að réttlætanlegt sé að framselja skilyrðið, en ég tel að það sé grundvallaratriði að á meðan flestir venjulegir neytendur þessa lands bíða eftir því að reynt verði að koma betra skipulagi á þessa hluti sé mjög óskynsamlegt að hvika frá því að hægt sé að veita leyfin lengur en í fimm ár.