19.03.1987
Neðri deild: 71. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4555 í B-deild Alþingistíðinda. (4437)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í deildinni gerði ég þá grein fyrir minni afstöðu að ég taldi rétt að fallast á frv. eins og það var lagt fram í upphafi með fimm manna nefnd. Það hefði farið betur að menn hefðu farið eftir því. Þá væri málið ekki í þeirri stöðu sem það er nú. Þessu var breytt í deildinni og síðan kom breyting frá Ed. sem liggur nú fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að við megum ekki skilja við þetta mál öðruvísi en ganga frá því sem lögum. Mér fannst einhvern veginn á tóninum í hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að með þessari till. værum við að fella út Ferðamálaráð. Ferðamálaráð er ekki inni í gildandi lögum eða fulltrúi þess. Það breytir ekki málinu. Ég tek undir að það hefði verið mjög æskilegt að fulltrúi Ferðamálaráðs ætti sæti í þessu ráði, en valið stendur ekki um það. Mér sýnist, án þess að ég vilji fullyrða neitt, að ef við ætlum að halda okkur við það sem gerðist í Ed. sé málið strand. (ÓÞÞ: Ef við ætlum að halda okkur við það sem gerðist í Ed.?) Já, ef við ættum að halda okkur við það sem gerðist í Ed. af því að það er ágreiningur í Nd., hv. skrifari. (ÓÞÞ: Á þá ekki að halda sig við það sem gerðist í Ed.?) Ef það er ágreiningur í Nd.? Þá strandar málið. (GHelg: Getur nokkur upplýst mig um af hverju Ferðamálaráð má ekki eiga þarna fulltrúa?) Það held ég að hv. þm. verði sjálfur að leita sér upplýsinga um hjá þeim sem ráða ferðinni í málinu. Ég er ekki þess sinnis að Ferðamálaráð eigi ekki að hafa fulltrúa í þessu ráði.

En sú till. sem hér er flutt er gerð til þess fyrst og fremst að reyna að ná sáttum í þessu máli þannig að málið nái fram að ganga. Ég tel að það verði slæmt ef við búum við breytt lög, fulltrúi Ferðamálaráðs þá úti. Ég tel miklu meiri líkur á því að með þessari breytingu komi fulltrúi ferðamannahópanna inn eftir að ráðherra getur skipað tvo menn í ráðið. Ég sagðist ekkert vita. Ég sagðist halda. Ég get ekki vitað hvað hæstv. ráðh. kann að gera, en ég þykist þó þekkja hann svo að hann vilji leysa þetta mál á þann veg að allir geti við unað. Til þess er till. flutt, til þess að ná málinu fram án þess að það strandi í þinginu.