19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4560 í B-deild Alþingistíðinda. (4452)

405. mál, eftirlit með skipum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. samgn. Nd. með fyrirvara sem ég gerði grein fyrir við 2. umr. þessa máls. Ástæður þess að ég mæli með því að frv. verði samþykkt og gert að lögum eru þær helstar að hér er í raun verið að gera breytingar á lögum til samræmis við þegar áorðnar breytingar á siglingalögum. Og meira en það. Hér er lagt til að gerðar verði breytingar samkvæmt tillögum þeirrar nefndar sem samdi siglinga- og sjómannalögin á sínum tíma, beinlínis og beinar tillögur þeirrar nefndar. Þetta er í fyrsta lagi.

Í öðru lagi eru hér lagðar til breytingar sem öryggismálanefnd sjómanna hefur lagt mikla áherslu á og var ein af undirstöðunum í áliti þeirrar nefndar á sínum tíma og lutu að eftirliti með skipum og ábyrgð skipasmíðastöðva þegar verið er að breyta skipum og um skil á teikningum og stöðugleikaútreikningum til Siglingamálastofnunar ríkisins. Þessi ákvæði eru skv. frv. verulega hert og ég vil benda sérstaklega á þetta tiltekna atriði.

Í þriðja lagi er hér svo verið að gera breytingar á eftirlitsákvæðum með haffærni sem ekki hefur reynst unnt að framfylgja og framkvæma. Ég held að menn geti varla lagst gegn því og mótmælt því að það er til bóta að taka slík ákvæði burtu sem ekki hefur verið unnt að framkvæma.

Varðandi málsmeðferðina að öðru leyti hefði að sjálfsögðu verið æskilegra að hér hefði gefist meiri tími til skoðunar á málinu, en það er ljóst að hér er ekki á ferðinni heildarendurskoðun þessa lagabálks. Það stendur ekki til og enginn hefur haldið því fram. Það sem hér er á ferðinni er það sem oft og iðulega gerist að fluttar eru tillögur um lagfæringar á lögum, augljósar lagfæringar af einhverjum tilteknum ástæðum þó að heildarendurskoðun eða meiri háttar endurskoðun viðkomandi lagabálks bíði og verði að gera það tímans vegna. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru allar til bóta að mínu mati. Þær snerta ekki þau atriði sem gagnrýnd hafa verið hér. Þar er fyrst og fremst um að ræða ákvæði sem þegar eru í lögum og hafa verið í lögum jafnvel frá 1959 og það er fullseint fyrir samtök hagsmunaaðila að koma hingað núna og benda á að þessi ákvæði séu gölluð úr því að þau eru búin að vera í lögum frá 1959 eða 1970 eftir atvikum. Eftir þá yfirlýsingu sem hæstv. samgrh. hefur hér gefið um að hann muni beita sér fyrir heildarendurskoðun þessara laga, sem er þörf og ekki er deilt um, tel ég einboðið að samþykkja frv. vegna þess að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru til bóta, en breyta ekki gildandi lögum að öðru leyti.