19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4561 í B-deild Alþingistíðinda. (4454)

405. mál, eftirlit með skipum

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera að lengja þessar umræður, en ég kem upp vegna þess að ég er nefndarmaður samgn. og formaður nefndarinnar sagði að við mundum sjálfsagt gera grein fyrir okkar skoðunum. Því sé ég ástæðu til að skýra frá minni afstöðu í málinu.

Það fyrsta sem ég finn að er að nefndinni er ætlaður allt of skammur tími til að fjalla um jafnviðamikið mál og hér er verið að tala um. Ég verð að segja að ég fagna því og tek mjög undir það, sem hér hefur verið sagt, að hér hefur vissulega á þessu kjörtímabili verið unnið að ýmsum breytingum á siglingamálum og ekki síður að ýmsum öryggismálum sjómanna. Þeim sem þar eiga hlut að máli ber vissulega að þakka og það vil ég gera rækilega. Það breytir hins vegar ekki minni skoðun og ég viðurkenni það að mér hefur ekki gefist sá tími sem ég hefði kosið að ég hefði til að leita mér upplýsinga og skoða þetta mál af kostgæfni. Ég held hins vegar að það hefði ekki spillt þessu máli á nokkurn hátt þó að það hefði verið sett í nefnd eins og samgrh. var að segja okkur frá að hann væri tilbúinn að setja á laggirnar, nefnd hinna bestu manna til að skoða þetta mál, og það gæti síðan komið fyrir Alþingi á haustdögum og orðið að lögum fyrir næstu áramót. Ég held að það sé vilji þm. að taka á þessu máli. Ég legg áherslu á þetta atriði, að mér finnst málið ekki nægjanlega vel unnið til þess að ég treysti mér til að samþykkja það.