19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4562 í B-deild Alþingistíðinda. (4457)

Starfslok

Forseti (Ingvar Gíslason):

Hv. þingdeildarmenn. Þetta verður síðasti fundur þessarar hv. þingdeildar á þessu þingi og á þessu kjörtímabili. Af því tilefni leyfi ég mér að þakka hv. þingdeildarmönnum öllum í senn og hverjum um sig fyrir samstarf við mig sem forseta deildarinnar sem í öllu hefur verið ánægjulegt. Þar er reyndar fyrir að þakka samstarf sem varað hefur allt kjörtímabilið.

Ég þakka varaforsetum sérstaklega fyrir ágætt samstarf og góða liðveislu við mig og skrifurum veitta aðstoð sem er mjög mikilvæg. Skrifstofustjóra og starfsmönnum þingsins þakka ég þau ómetanlegu störf sem innt eru af hendi á hans vegum og starfsmanna allra. Án framlags starfsliðsins væri þinghaldið ekki framkvæmanlegt. Allt þetta vil ég þakka í lok þessa fundar, í lok þessa þings, í lok þessa kjörtímabils og í lok alllangrar þingsetu minnar.

Ég óska þm. góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og flyt þeim óskir mínar um heillaríka framtíð.