19.03.1987
Neðri deild: 72. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4563 í B-deild Alþingistíðinda. (4458)

Starfslok

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Fyrir hönd þm. í Nd. vil ég þakka hæstv. forseta hlý orð og góðar óskir í okkar garð. Ég flyt honum þakkir fyrir ljúfa og sanngjarna fundarstjórn á þessum vetri sem og á öðrum vetrum þessa kjörtímabils.

Nú er hæstv. forseti að ljúka langri og farsælli þingsetu og vil ég því flytja honum hugheilar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf. Ég bið honum farsældar og heilla í framtíðinni og óska honum og fjölskyldu hans gleðilegs sumars.

Enn fremur eru fleiri þm. þessarar deildar sem hyggjast nú hverfa af þingi eftir þetta kjörtímabil, Ellert B. Schram, Garðar Sigurðsson, Guðmundur J. Guðmundsson, Kristín S. Kvaran, Pétur Sigurðsson og Þórarinn Sigurjónsson. Þeim þakka ég öllum gott samstarf og óska þeim farsældar og heilla í framtíðinni.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka skrifstofustjóra og starfsliði Alþingis fyrir samveruna í vetur og mikil og vel unnin störf á þessu kjörtímabili og ótrúlegt umburðarlyndi í garð okkar þm. Svo vona ég að við megum öll þrátt fyrir ríkjandi vorhret njóta góðs og gjöfuls sumars og hittast endurnærð að hausti, þau sem hingað eiga afturkvæmt.

Ég vil svo biðja hv. þingdeildarmenn að rísa úr sætum sínum og taka með því undir orð mín. [Deildarmenn risu úr sætum.]