19.03.1987
Efri deild: 74. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4466)

Starfslok

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Þar sem nú er að ljúka seinasta fundi hv. Ed. á þessu þingi vil ég þakka ykkur öllum, hv. þingdeildarmenn, fyrir samstarfið sem hefur verið sérstaklega ánægjulegt og gott í alla staði. Mér hefur sem forseta þessarar hv. deildar verið sýnt mikið umburðarlyndi og tillitssemi í hvívetna. Ég vil einnig sérstaklega þakka skrifstofustjóra Alþingis og starfsfólki öllu fyrir alla aðstoð og ánægjulegt samstarf. Jafnframt færi ég varaforsetum og skrifurum deildarinnar þakkir fyrir þeirra störf og góða aðstoð.

Nú erum við ekki aðeins að ljúka þessu þingi, heldur er komið að lokum þessa kjörtímabils. Kosningabaráttan er fram undan og mörg okkar stefna hingað aftur en fyrir liggur að nokkrir hv. þingdeildarmenn verða ekki í kjöri og ég þykist viss um að ég mæli fyrir hönd okkar allra þingdeildarmanna þegar ég flyt þeim sérstakar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og mjög góð kynni.

Ég lýk svo þessum orðum mínum með því að óska öllum utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og heimkomu og ykkur öllum allra heilla í störfum sem nú bíða.