19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4566 í B-deild Alþingistíðinda. (4471)

Svar við fyrirspurn um húsnæðismál Þjóðskjalasafns

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér þótti dapurlegt að heyra þessar niðurstöður frá hæstv. ráðherrum. Hæstv. menntmrh. hefur gefið sínar skýringar, að ekki hafi tekist samkomulag milli ráðherra um svar við þessari fsp. sem var í fjórum liðum. Hér er um að ræða eitt af þeim söfnum sem hafa búið við miklar þrengingar í húsnæðismálum. Miklar vonir voru bundnar við úrlausn sem í sjónmáli var og þessi fsp. varðaði framkvæmd þess sem fram hefur komið um þessi efni og nánari skýringar. Mér þykir það mjög miður að ekki hefur komið svar við fsp. og mér finnst það tæpast þinglegt að veita ekki svör við fsp. með svo góðum fyrirvara sem hér um ræðir.

Ég verð að treysta á það að hæstv. menntmrh. komi ár sinni fyrir borð varðandi hagsmuni Þjóðskjalasafnsins þann tíma sem hann á eftir að starfa í sínu embætti. Ég vona að það verði rutt úr vegi þeim hindrunum sem kunna að vera fjármálaráðuneytismegin þannig að þeim verðmætum sem liggja nú óaðgengileg og sumpart undir skemmdum, að ég hygg, a.m.k. óaðgengileg almenningi, verði bjargað og að þeim búið svo sem verðugt er.