19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (4477)

49. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það eru tvö orð í þessari brtt. sem stinga mig nokkuð. Annað orðið er „eingöngu“. Ef það kæmi nú í ljós að húsmóðir hefði mjög óveruleg lífeyrisréttindi vegna starfa sinna annars staðar en að mestu leyti ynni hún störf á heimili væri að mínu viti ekki gott ef þannig tækist til með lagasetningu að hennar réttur vegna heimilisstarfanna kæmi ekki þar til viðbótar. Ég vildi gjarnan fá úr því skorið hvort það væri hugsun flm. að svo væri. Ég teldi það allt of þröngt. Ég óska eindregið eftir því að það sé upplýst áður en þetta fer til atkvæða hvort svo sé.

Hitt orðið er „umönnunarstörf“. Ef umönnunarstörf eru unnin á heimili eru þau heimilisstörf og þarf ekki mikla rökhyggju til að átta sig á því. Séu þau unnin annars staðar hygg ég að það fari ekki á milli mála að þeir sem vinna þau þar öðlist lífeyrisréttindi vegna þeirra launa sem þeim eru greidd. Ég vildi gjarnan fá það upplýst hvaða hugsun liggur á bak við „umönnunarstörf“. Er það hugsað á þann veg að störf þeirra sem vinni umönnunarstörf t.d. á þann hátt að þeir eru ráðnir af borgarstjórn Reykjavíkur til að hjúkra öldruðum í heimahúsum og fá að sjálfsögðu greiðslur fyrir það séu svo metin einnig þegar farið er í athugun á lífeyrisréttindum? Eða eru menn með þessu móti að taka upp þá flokkun að viss tegund af heimilisstörfum séu ekki heimilisstörf, heldur séu það umönnunarstörf? Það verður þá mikil spurning hvar mörkin eru. Hvað eru þá heimilisstörf og hvað eru umönnunarstörf á heimili?

Ég hefði talið að þessi tvö orð mættu að ósekju fara út úr tillögunni. Þá stæði hér eftir: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um lífeyrisréttindi þeirra sem sinna heimilisstörfum og leggja þær fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóvember. Það er þá sú merking sem menn eru hér að tala um að koma á framfæri, þ.e. að tekið sé á málum þeirra sem eru heimavinnandi og eru ekki með aðgang að öðrum lífeyrissjóði.

Ég óska eftir því að fram komi svör við þessu hjá flm.