19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4569 í B-deild Alþingistíðinda. (4478)

49. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks

Frsm. félmn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 5. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar um texta þessarar tillögu er rétt að taka fram að orðalagið „þeirra sem eingöngu sinna heimilis- og umönnunarstörfum“ í þessari till. er miðað við að hér sé um þá að ræða sem fyrst og fremst eða aðallega sinna heimilis- og umönnunarstörfum, hafi það sem sagt að aðalatvinnu og vinni ekki utan heimilis nema þá í mjög litlum mæli. Það er vitanlega í svo stuttum tillögutexta sem þessum, þar sem tillagan er ekki nema ein setning, ekki unnt að fara út í sérstakar skilgreiningar frekari á þessum orðum. Þess vegna hlýtur það að vera hlutverk þeirrar nefndar eða þeirra sem til þess verða settir af hálfu ríkisstjórnarinnar að undirbúa tillögur um lífeyrisréttindi þessa hóps að fjalla frekar um skilgreiningu hópsins, hverjir eiga að teljast til hans og hverjir ekki. Hér er hins vegar mjög eindregin vísbending um það til hverra þessi réttindi eigi að mati flm. að ná. Það er vitanlega sá hópur sem fyrst og fremst eða eingöngu, eins og það er orðað, sinna þessum störfum með þá mjög takmörkuðum frávikum - frávik hljóta vitanlega alltaf að eiga sér stað í litlum mæli. Það er til þess hóps sem ætlast er til að þessi lífeyrisréttindi nái.

Það má segja að það sama gildi um umönnunarstörf. Hér er átt við störf sem unnin eru á heimilum við umönnun sjúkra og aldraðra. Hér er það einnig skilgreiningaratriði á sama hátt og verður þá hlutverk þeirrar nefndar sem gerir tillögur í þessum efnum á grundvelli þessarar tillögu að skilgreina það nánar. Ég hygg að það sé ljóst hvað í orðinu „umönnun“ að þessu leyti og innan ramma tillögunnar felst.