04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

98. mál, sjálfvirkt tilkynningarkerfi fiskiskipa

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Sjálfvirki farsíminn hefur ekki verið í notkun nema í u.þ.b. fjóra mánuði. Eitthvað á þriðja þúsund farsímar eru komnir í notkun. Og ef ég man rétt var farsíminn, fyrir hálfum mánuði þegar ég fékk síðast skýrslu um það frá Póst- og símamálastofnun, kominn í notkun hjá um 220 skipum. Þetta er miklu örari þróun en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að farsíminn er gífurlega mikið öryggistæki og nánast bylting í öryggismálum sjómanna um leið og hann er til mikilla þæginda fyrir sjómenn og fjölskyldur þeirra, að ná beinu sambandi, og sömuleiðis fyrir marga aðra sem þurfa að ferðast á landi bæði í óbyggðum og á heiðum uppi. Ég tel að það sé fullsnemmt að fara að setja á skyldu á meðan við erum ekki búnir að koma upp sjálfvirku kerfi hringinn í kringum landið. Og þar er einnig komið til kasta Alþingis við afgreiðslu fjárlaga að skera ekki niður fjárveitingar í þessum efnum sem öðrum til símans þannig að ekki sé hægt að halda áfram þessum framkvæmdum með þeim hraða sem nauðsynlegt er að gera.

Að öðru leyti, vegna þess sem fyrirspyrjandi nefndi, að það kemur mjög til greina, eftir að komið hefur verið upp hnútastöðvum hringinn í kringum landið, að huga að því að skylda skip til að hafa farasíma en ekki fyrr.