19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4571 í B-deild Alþingistíðinda. (4486)

Yfirvofandi uppsagnir á ríkisspítölunum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að kveðja mér hljóðs hér utan dagskrár vegna þess vanda sem nú blasir við í heilbrigðisþjónustu landsins.

Þann 1. okt. s.l. sögðu 140 háskólamenntaðir starfsmenn ríkisspítalanna upp störfum sínum frá og með 1. jan. Þarna er um að ræða félagsráðgjafa, háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, líffræðinga, næringarráðgjafa, sálfræðinga og sjúkraþjálfara sem sagt hafa störfum sínum lausum vegna óviðunandi launakjara. Þessar uppsagnir eru óskyldar og óháðar þeim verkföllum sem stéttarfélög þessara starfsmanna og annarra standa nú að og eru til komnar áður en kjarasamningar voru gerðir í desember á s.l. ári. Þær eru einungis bundnar við ríkisspítalana því að þar fá þessir starfsmenn verulega lægri laun en aðrar heilbrigðisstofnanir og aðrir vinnuveitendur greiða fyrir sömu eða sambærileg störf. Forsvarsmenn ríkisspítalanna hafa látið í ljós áhyggjur sínar vegna þessa máls, en vísað ábyrgð á kjörum starfsmanna á fjmrn. Ríkisvaldið leitaði ekki eftir samkomulagi, en beitti sérstakri lagaheimild til að framlengja uppsagnarfrestinn um þrjá mánuði. Var haft á orði að þessi framlenging yrði notuð til að skapa svigrúm til þess að leita úrræða. Á þessum tíma hefur aldrei verið haldinn formlegur fundur með starfsfólkinu né heldur nein tilboð gerð til þess.

Þann 11. febr. s.l. lýsti fulltrúi fjmrn. því yfir í fjölmiðlum að ráðuneytið hygðist ekki gera neinar ráðstafanir vegna uppsagna starfsfólks á ríkisspítölum. Jafnframt taldi hann eðlilegt að stjórn ríkisspítalanna endurskipulegði starfsemi þeirra með tilliti til þess að fólk hverfi frá störfum sínum þar. Starfsfólkið hefur kynnt þá afstöðu sína að eftir 1. apríl n.k. mundi það enga þjónustu eða neyðarþjónustu veita og gætu þá forsvarsmenn ríkisspítalanna keypt slíka þjónustu á almennum markaði ef hún væri föl, en án þess þó að starfsfólkið mundi skipuleggja hana eða veita hana. Ef ekkert er að gert og þetta fólk fer myndast skyndilega neyðarástand í heilbrigðisþjónustu, ekki bara á ríkisspítölunum heldur líka alls staðar á landinu vegna þess að ýmisleg þjónusta sem þetta fólk sinnir er einungis framkvæmd á ríkisspítölunum eða í tengslum við þá. Má sem dæmi nefna blóðflokkun og aðra lykilþjónustu Blóðbankans. Án slíkrar þjónustu eru skurðlækningar illmögulegar og sama gildir um ýmsa slysaþjónustu.

Ekkert síður alvarleg eru langtímaáhrif þessara uppsagna og sá atgervisflótti sem þannig verður úr heilbrigðisþjónustunni. Þeim störfum sem þetta fólk sinnir verður ekki gegnt af íhlaupamanneskjum, hvorki hérlendum né erlendum. Hæfni manna í starfi ræðst m.a. af reynslu og ríkisspítalarnir og heilbrigðisþjónustan hafa ekki efni á því að missa þá reynslu og þá hæfni sem nú er verið að stökkva á flótta. Landspítalinn er t.d. að auki þjónustustofnun fyrir landið allt og hann er jafnframt háskólaspítali og kennslustofnun allra heilbrigðisstétta. Hann ber því margfalda ábyrgð gagnvart heilbrigðisþjónustunni í landinu.

Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. og beina til hans eftirfarandi spurningum:

1. Er það stefna fjmrn. og annarra aðila ríkisvaldsins að hafast ekkert að í málinu eins og yfirlýsing fulltrúa ráðuneytisins gaf til kynna þann 11. febr. s.l.?

2. Hefur verið reynt af hálfu ríkisvaldsins að kanna samkomulagsgrundvöll í þessu máli? Ef svo er, hvernig hefur það verið gert?

Í þriðja lagi þá vildi ég beina enn fremur spurningu minni til hæstv. heilbrmrh. ef það er ekki hæstv. forseta mjög á móti skapi:

Hvaða áhrif hefur það á heilbrigðiskerfið ef ekki er hægt að halda hæfu fólki þar í starfi vegna slæmra kjara?