19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4572 í B-deild Alþingistíðinda. (4487)

Yfirvofandi uppsagnir á ríkisspítölunum

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurna hv. málshefjanda vil ég taka þetta fram:

Fjmrn. fer með gerð kjarasamninga af hálfu ríkisins. Á þessu þingi var sett ný löggjöf um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar var sú meginbreyting gerð að einstök félög opinberra starfsmanna fengu samningsrétt og verkfallsrétt. Fjmrn. fer með samningamál ríkisins og það mun fara með þau mál og leita samninga við einstök stéttarfélög á grundvelli þeirra laga sem Alþingi hefur sett.

Ég veit að ég þarf ekki að ítreka hér að þessi löggjöf fól í sér mjög mikla réttarbót fyrir opinbera starfsmenn og færði samningsréttarmál þeirra mjög að því samningsréttarkerfi sem gildir á almennum vinnumarkaði. Einstök félög hafa samningsrétt og einstök félög hafa verkfallsrétt. Að öðru leyti kveða lögin á um það hvernig með samningamál skuli fara. Fjmrn. mun fyrir sitt leyti leita lausna á kjaradeilum við þá starfshópa sem hér eiga hlut að máli eins og aðra á grundvelli laganna.

Við munum auðvitað kappkosta að leiða ágreining í þessum efnum til lykta sem fyrst þannig að sem minnst röskun hljótist af komi til verkfalla. Í einu tilviki hefur verkfall skollið á nú þegar á ríkisspítölum. Við stöndum á hinn bóginn auðvitað frammi fyrir því, eins og fram kom í umræðunni í gær um kjaradeilu kennara, að á almennum vinnumarkaði hafa verið gerðir kjarasamningar sem byggjast á ákveðnum efnahagslegum forsendum, samningar sem fyrst og fremst miðuðu að því að bæta kjör þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu, tryggja aukningu kaupmáttar án verðbólgu. Ríkisstjórnin var að sínu leyti þátttakandi í þessum kjarasamningum og hefur auðvitað skuldbindingum að gegna í því efni.

Það sem boðið hefur verið í þessum kjarasamningum er fyllilega í samræmi við það sem aðrir hópar hafa fengið í kjarasamningum og nú þegar er búið að gera kjarasamninga við ýmsa hópa opinberra starfsmanna og þar á meðal ýmis félög háskólamenntaðra starfsmanna í þjónustu ríkisins.

Það er ósk mín og von að við getum leitt þessa kjaradeilu til lykta sem fyrst. Öllum má vera ljóst að þó að meginlínu sé fylgt og henni verði að fylgja, þá eru aðstæður með ólíkum hætti í hverju félagi og auðvitað verður að huga að því í kjarasamningum en þrátt fyrir þá staðreynd verður ríkið að fylgja eftir þeirri meginstefnu sem lögð hefur verið.

Að lokum vil ég aðeins ítreka það að fjmrn. getur ekki unnið að lausn kjarasamninga á öðrum grundvelli en þeim lögum sem Alþingi sjálft hefur sett til þess að vinna að lausn málanna og nú vill svo til að við störfum eftir nýjum lögum sem þetta þing hefur sett, sem mælir fyrir um stóraukin réttindi opinberra starfsmanna í samningsmálum og til þess að gera verkföll.