19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4573 í B-deild Alþingistíðinda. (4488)

Yfirvofandi uppsagnir á ríkisspítölunum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Til mín var beint spurningu og svarið við henni er auðvitað augljóst. Spurningin var þessi: Hvaða áhrif hefur það á heilbrigðisþjónustuna ef ekki er hægt að halda hæfu fólki í starfi?

Það segir sig auðvitað sjálft að heilbrigðisþjónusta sem ekki er í höndum hæfra starfsmanna er ekki góð heilbrigðisþjónusta. Þess vegna skiptir það geysilegu máli að hægt sé að leiðrétta þau kjör sem þar eru of slæm nú til þess að unnt sé að leysa úr þeim gífurlegu vandamálum sem við stöndum andspænis, ekki aðeins nú. Ég get ekki komist hjá því, fyrst þessi mál eru rædd, að segja að við ættum að hugsa pínulítið um lögmál framboðs og eftirspurnar í þessu sambandi. Þær stéttir þar sem starfsfólk skortir eru einmitt þær stéttir sem eru í lægri launakantinum og það eru þær stéttir sem mestmegnis eru skipaðar konum.

Ég held að þegar frá líður verði ekki hjá því komist að horfast í augu við þá staðreynd að það er geysilegur launamunur innbyrðis milli heilbrigðisstétta. Ein stétt getur hins vegar ekki fullnægt sínum skyldum án aðstoðar annarra stétta. Það er ekki hægt að komast af án þeirra. Þess vegna held ég að það hljóti að reka að því að það verði farið að skoða þessi mál öll í annars konar samhengi er frá líður, en til þess þarf að líta á hið innra skipulag sjálfra heildarsamtakanna. Stundum er það þar sem vandinn liggur. Þetta vildi ég nú segja í þessu sambandi. Aðalatriðið er þetta að auðvitað verða kjör þessara stétta að vera með þeim hætti að þau laði fólk að störfunum því að í sjálfu sér eru störfin heillandi og gefandi þótt erfið séu og það skýtur því skökku við að skortur sé á fólki til þeirra starfa sem hér er um að ræða.

Ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því að ég hef í þessu máli kannske litið til lengri tíma heldur en einungis til þessa vanda sem núna blasir við, en ég held líka að það sé einmitt eitt af því sem skortir stundum þegar við ræðum um mal af þessu tagi að við lítum aðeins til hins næsta tíma. Sú spurning sem þarf að svara núna er auðvitað þessi: Hvernig á að leysa vandann núna á næstunni? En ég held að það væri mjög skynsamlegt að hinir mörgu aðilar sem hlut eiga að máli skoði svo skipulag hlutanna, hið innra skipulag í kjarabaráttunni, með langtímasjónarmið í huga.