19.03.1987
Sameinað þing: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4576 í B-deild Alþingistíðinda. (4491)

Yfirvofandi uppsagnir á ríkisspítölunum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Svör hæstv. fjmrh. voru afar ófullnægjandi. Í raun er ég steinhissa á því að hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hvernig málið er vaxið. Og á vissan hátt hefur hv. 5. þm. Reykv. heldur ekki gert það.

Hér er ekki um að ræða verkföll. Hér er ekki um það að ræða að það sé verið að segja upp kjarasamningum. Þetta fólk sagði upp vinnu sinni 1. október 1986, áður en lög um kjarasamninga voru gerð. Þetta mál er allt öðruvísi vaxið heldur en þau verkföll sem nú standa yfir. Þetta fólk er að fara úr störfum sínum. Þetta er ekki fólkið sem er að fara í verkfall. Ég hélt að ég hefði gert þetta mjög skýrt í máli mínu áðan. Það verður laust allra mála þegar það fer, nema sett verði sérstök lög í landinu sem skylda menn til að vinna að þeim störfum sem ríkisstjórnin ákveður.

Hæstv. fjmrh. svaraði í raun alls ekki því sem ég var að spyrja um. Stéttarfélög standa ekki að baki þessum uppsögnum. Þess vegna er ekki hægt að taka á málinu eins og um kjarasamninga sé að ræða. Ég spurði hvort það væri stefna fjmrn. og annarra aðila ríkisvaldsins að hafast ekkert að í málinu eins og yfirlýsing fulltrúa þess gaf til kynna þann 11. febr. s.l. Ég spurði líka hvort reynt hefði verið af hálfu ríkisvaldsins að kanna samkomulagsgrundvöll í þessu sérstaka máli og hvernig það hefði verið gert. Ég fékk engin svör við þessum spurningum.

Hér er ekki um verkfall að ræða, hæstv. fjmrh. Þetta fólk er að fara og það verður enginn í Blóðbankanum til þess að flokka blóð. Hver á þá að sinna blóðgjöfum? Þá verða engir uppskurðir. Það verður engin slysaþjónusta. Hvað ætlar hæstv. fjmrh. að gera þá? Þessu verður hann að svara núna. Hann hefur svo fáa daga þangað til þetta skellur á. Hvað á að gera? Þetta er ekki fólkið sem er að fara í verkfall. Þetta er allt annað mál. Þess vegna vakti ég máls á því nú í dag, einmitt þess vegna. Og ég fer fram á svör.