04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

23. mál, nýting heimavistarhúsnæðis í þágu aldraðra

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni þörf till. eins og hv. fyrri ræðumenn hafa vikið að og hv. flm. hefur ágætlega fært rök fyrir. Þetta er ein af þessum skynsamlegu hugmyndum sem menn fá og viðra með þáltill. og ber ekki að lasta það. Málið er sem sagt þannig vakið upp og sett til ákveðinnar skoðunar og það er vel.

Ég vil vekja athygli á einu í sambandi við þessa till. og kemst ekki hjá því að gera það og það er sú staðreynd, sem ætti reyndar ekki að fara fram hjá neinum hv. alþm., að engin framhaldsskólalög eru í raun og veru í gildi í landinu. Og það er ekki bara að það vanti nýleg framhaldsskólalög sem hægt sé að vinna eftir. Það vantar í raun og veru alla mennta og fræðslustefnu í þessu landi og stjórnvöld undanfarinna ára hafa heykst á öllum tilraunum til þess að koma á nýlegri löggjöf og taka á þeim málum. Fyrir vikið er uppbygging framhaldsskólakerfisins og reyndar má segja skólakerfisins í heild sinni á Íslandi ákaflega óskipuleg og það rekst eitt á annars horn, mismunandi skólaform eða námsform búa ekki við jafnrétti og er þar nærtækast að benda á þann aðstöðumun sem bóknám annars vegar og verknám hins vegar býr við hvað varðar kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og fleira í því tilliti.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, jafnþörf og þessi till. er og jafnágæt og hugmyndin er, að við gleymum því ekki að það eru mörg spurningarmerki á ferðinni hvað varðar framtíð fræðslu og menntamála á Íslandi. Það er í raun og veru ekki nokkur leið önnur en að benda á það hér að það ætti að koma á undan ráðstöfunum til þess að nýta það skólahúsnæði sem síðar kynni að verða álitið óþarft eða brúklegt til annarra nota þegar menn hefðu tekið ákvarðanir um það hvernig fræðslumálunum yrði hagað og þar með hvað af því húsnæði sem fyrir er í landinu, og er ætlað til skólahalds, hannað til skólahalds og byggt til að vera menntastofnanir, fær áfram að þjóna því hlutverki og hvað ekki.

Og ég vil nefna einnig, herra forseti, að jafnilla og við erum nú stödd með almenna fræðslu, fræðslu fyrir börn og unglinga, erum við þó enn þá meira á brauðfótum hvað varðar þá tegund fræðslustarfs sem mjög er að ryðja sér til rúms og hefur jafnvel fyrir áratugum síðan rutt sér til rúms í ýmsum nálægum löndum og þar á ég við fullorðinsfræðslu og endurmenntun og símenntun og annað því um líkt. Það er alveg ljóst að þar gæti einnig skapast ákveðin þörf fyrir eitthvað af því húsnæði sem núna er nánast að drabbast niður og daga uppi í skólakerfinu vegna þess hvernig ástand þessara mála er. Það er því ekki bara að menntmrh. og heilbr.- og trmrh. þurfi að koma að þessum málum frá því sjónarmiði heldur þarf auðvitað menntmrh. að byrja á því að vinna það sem hann ætti að vera búinn að gera fyrir lifandi löngu, þ.e. að marka sína stefnu um skólamál og leggja fram frv. um framhaldsskóla. Það hefur hins vegar ekki verið gert og ég tel engar líkur á því að það verði á þessu kjörtímabili úr því sem komið er. Ég hef ekki heyrt slíkt boðað. Því vil ég minna á í því sambandi frv. okkar Alþýðubandalagsmanna, þm. flokksins í Ed., um framhaldsskóla og ég hvet tillögumenn og aðra sem áhuga hafa á þessu máli að lesa það vegna þess að þar eru vissir hlutir sem vert er að hafa í huga í þessu sambandi. Þar er m.a. nefnt það hlutverk sem framhaldsskólarnir í landinu ættu að takast á hendur í nýjum lögum í sambandi við fullorðinsfræðslu, endurmenntun, símenntun og annað sem því tengist. Ég held að þetta verði allt að skoða í samhengi áður en menn taka ákvörðun um að afskrifa endanlega húsnæði, jafnvel heilar stofnanir, sem menntastofnanir og fela því annað hlutverk.

Ég til taka fram að þetta þýðir ekki, herra forseti, að ég hafi ekki trú á því, reyndar er ég sannfærður um að það, að ekki sé líklegt að það verði skynsamleg ráðstöfun með hluta af því húsnæði sem enn kallast skólahúsnæði, en ég held að það þurfi að fara varlega í þeim efnum því að það er þó aldrei svo að það húsnæði sem hefur verið byggt upp, hefur verið notað, hefur verið rekið og hannað sem skólahúsnæði henti því hlutverki ekki betur en öðru ólíku.

Hitt er svo mjög þarft og ánægjulegt að einstakir hv. alþm. eru farnir að hugleiða þann mikla vanda sem greinilega er fyrirsjáanlegur hvað varðar þörf fyrir húsnæði, fyrir aðstöðu og fyrir þjónustu við aldraða og sjúka í framtíðinni. Það er skammarlegt til þess að vita að við Íslendingar, sem búum nú við mjög svipaða þróun hvað aldurssamsetningu snertir og nálægar þjóðir, þó að við höfum að vísu verið þar nokkuð á eftir í árum talið, höfum í raun ekkert sinnt því mikla verkefni sem fyrir dyrum stendur á þessu sviði. Það þarf ekki mikla reikningsspekinga til að sjá að innan 10, 15, 20 ára verður þörf fyrir miklu meiri þjónustu á þessu sviði, væntanlega einnig húsnæði og stofnanir. Skynsamar þjóðir mundu auðvitað fara að huga að þessum málum áður en vandinn er á höndum þeirra og nota þann tíma sem við enn höfum til að undirbúa viðbrögð okkar við því mikla verkefni sem þar er fram undan. Þessi till. er ánægjulegur vottur um að menn gera sér grein fyrir því að að þessum málum þarf að fara að huga og betur fyrr en seinna. Ég tel hana því skynsamlegt og þarft innlegg, en hef þó gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem ég tel að þurfi að vera á um meðferð málsins.