04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

12. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég hefði kosið að hæstv. utanrrh. gæti verið viðstaddur þessa umræðu, en hann dvelst því miður erlendis og getur ekki verið hér þessa viku. En formaður utanrmn. er viðstaddur og ég sætti mig við það og vona að hann beri skilaboð þessarar umræðu áfram.

Ég mæli fyrir till. til þál. sem er 12. mál þessa þings og fjallar um frystingu kjarnorkuvopna. Meðflm. mínir eru hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Sovétríkin og Bandaríkin lýsi yfir tafarlausri frystingu kjarnorkuvopna, annaðhvort með samtíma einhliða yfirlýsingum eða með sameiginlegri yfirlýsingu. Slík yfirlýsing yrði fyrsta skref í átt að yfirgripsmikilli afvopnunaráætlun sem felur í sér:

1. Allsherjarbann við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna og skotbúnaðar þeirra. Enn fremur algera stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna til vopnanotkunar.

2. Frystingu sem er háð öllum þeim aðferðum til sönnunar og eftirlits sem þegar hafa verið samþykktar af málsaðilum í Salt I og Salt II samningunum, auk þeirra aðferða sem þeir hafa samþykkt í grundvallaratriðum í þríhliða undirbúningsviðræðum í Genf um algert bann við kjarnorkuvopnatilraunum.

3. Frystingu sem gildir í fimm ár til að byrja með en gæti orðið lengri ef önnur kjarnorkuveldi slást í hópinn eins og vonir standa til.“

Þessi tillaga hefur verið flutt á undanförnum þremur þingum af þingkonum Kvennalistans og nú flytjum við hana í fjórða sinn. Á okkur er engan bilbug að finna og okkur dettur ekki í hug að gefast upp á því að höfða til skynsemi og betri vitundar hv. þm. og hæstv. ráðh. þó hann sé fjarstaddur því að við erum sannfærðar um að þeir munu að lokum styðja þetta mál.

Þessi till. er efnislega samhljóða tillögu sem flutt hefur verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum. Á s.l. ári var hún flutt af Indónesíu, Mexíkó, Pakistan, Svíþjóð, Uruguay og Perú, en hefur gjarnan verið kennd við Mexíkó og Svíþjóð. Tillagan fjallar fyrst og fremst um bann við frekari tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna eins og ég hef þegar tiltekið.

Herra forseti. Í málflutningi fyrir þessari till. hef ég bent á það að augu æ fleiri stjórnmálamanna eru að opnast fyrir þeirri staðreynd að kjarnorkuvopn eru ekki nothæf til að ná skynsamlegum pólitískum markmiðum né heldur er hægt að nota slík vopn til að öðlast hernaðarlega yfirburði vegna þess að ekki er hægt að nýta þau til hernaðarsigurs. Þetta virðist svo augljós röksemd að varla þurfi að segja meir. Þó hef ég jafnframt ítrekað að eðli vopnanna og gereyðingarmáttur er slíkur að ekki er hægt að beita þeirri hernaðarlist og hugsunarhætti sem þróast hefur um hefðbundin vopn. Veröld okkar stendur því á barmi hyldýpis þar sem mannkynið býr nú yfir tækniþekkingu til að tortíma sjálfu sér. Kjarnorkustyrjöld mundi deyða hundruð milljóna manna á augabragði. Heimsmenningin yrði lögð í rúst og framtíð þeirra sem kynnu að lifa af væri ótrygg ef nokkur.

Eyðileggingarmáttur þeirra vopnabirgða sem Bandaríkin og Sovétríkin eiga nú er langtum meiri en mögulegur fjöldi skotmarka beggja aðila. Því er það blekking að fleiri kjarnorkuvopn, af hvaða gerð sem er, gefi nokkra hernaðarlega eða pólitíska yfirburði. Ég hef bent á þessi rök og svo fjöldamörg önnur í umræðum um afvopnunarmál á þessu kjörtímabili. Þessi rök ættu að mínu mati að knýja alla heilvita menn til þess að gera það sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að afvopnun hvar sem er og hvenær sem er. Og ég þekki enga hagsmuni sem taka má fram yfir þessa.

En herra forseti. Það er nauðsynlegt að beita sífellt öllum þeim nýju rökum sem upp koma og renna stoðum undir réttmæti málflutnings manns. Það kemur alltaf að því að ein röksemd höfðar meira til þeirra sem hlusta en önnur og líka er það að þegar röksemdirnar eru orðnar nógu margar og nógu veigamiklar verður óumflýjanlegt fyrir þá sem vilja teljast ábyrgir og heiðvirðir menn að skipta um skoðun.

Ég hef áður minnst á Samtök lækna gegn kjarnorkuvá og varnaðarorð þeirra. Þessi samtök telja nú um 150 þús. lækna í 49 löndum. Ég hef meðferðis ljósrit af bréfum frá þeim sem þeir sendu Reagan og Gorbatsjoff þegar þeir voru hér á Íslandi á leiðtogafundinum og ég mun afhenda hæstv. utanrrh. þessi bréf og enn fremur formönnum þingflokkanna til aflestrar.

Ég hef líka rakið áhrif loftlagsbreytinga sem talið er að muni fylgja í kjölfar kjarnorkusprenginga og kallaðar hafa verið kjarnorkuvetur eða fimbulvetur. Fyrstu rannsóknir í þessum efnum voru unnar af hópi bandarískra og sovéskra vísindamanna, hvors í sínu lagi, en báðir komust að svipaðri niðurstöðu. Í september s.l. voru birtar enn frekari niðurstöður um þetta efni af vísindanefnd um umhverfismál sem fengin var árið 1982 til að annast rannsóknir á því hver áhrif kjarnorkusprenginga yrðu á lífríki og umhverfi jarðar. Þessi nefnd starfar á vegum Alþjóðaráðs vísindafélaga sem eru ópólitísk alþjóðleg samtök vísindamanna hvarvetna í heiminum. Þau voru stofnuð 1931 og meðlimir eru um 110 alþjóðleg vísindafélög af ýmsu tagi og vísinda- og rannsóknaráð um víða veröld. Aðalmarkmið alþjóðaráðsins er að hvetja til alþjóðlegrar vísindastarfsemi í þágu mannkynsins. Lögð var áhersla á að öll vinna að málinu, svo og skýrslan sjálf, yrði framkvæmd á varfærinn, ópólitískan og áreiðanlegan hátt án allrar tilfinningasemi og það voru slegnir allir varnaglar sem hugsast gat. Þrátt fyrir það urðu niðurstöður þessarar nefndar jafnógnvekjandi ef ekki verri en þær sem áður höfðu verið kynntar. Þessar niðurstöður voru síðan gerðar að ályktun þessa alþjóðaráðs á síðasta aðalfundi þess í Bern í september s.l. Ég hef líka meðferðis ljósrit af þessum ályktunum og upplýsingar um þessi alþjóðasamtök vísindamanna um allan heim sem ég mun sömuleiðis afhenda utanrrh. og formönnum þingflokkanna til aflestrar.

Eitt af því sem fundið hefur verið slíkum hugmyndum um frystingu til foráttu, sérstaklega hvað varðar tilraunir með kjarnorkuvopn, er það að erfitt sé að hafa eftirlit með því hvort tilraunirnar eru gerðar. Hefur það einkum verið tekið til að Sovétmenn hafi ekki fallist á slíkt eftirlit. Nú vil ég benda hv. þm. og hæstv. ráðh. á það að fulltrúar sex þjóðlanda í fimm heimsálfum á vegum Alþjóðasambands þingmanna, Parliamentarians for Global Action, hafa tryggt að hópur sérfræðinga frá ýmsum löndum heims, bæði bandarískra og sovéskra þar á meðal, muni taka að sér slíkt eftirlit sem er vísindalega sannferðugt og marktækt. Og það sem meira er: Sovétmenn hafa fallist á það, eins og kom skýrt fram í máli Gorbatsjoffs á blaðamannafundi í Háskólabíói að loknum leiðtogafundi nýliðnum. Ég hef afrit af tilboði þessara þjóðarleiðtoga sem munu tryggja eftirlitið. Ég mun sömuleiðis afhenda hæstv. utanrrh. það og formönnum þingflokkanna. Og að sjálfsögðu mun formaður utanrmn. fá afrit af öllu þessu til að kynna sér. Eftirlit ætti því ekki lengur að vera til fyrirstöðu og sömuleiðis hafa Sovétmenn framlengt bann sitt við tilraunum fram í janúar 1987. Bandaríkjamenn hafa hins vegar haldið áfram tilraunasprengingum og virðast ófúsir að hætta þeim því að þær eru hluti af þeirri stjörnustríðsáætlun sem þeir vilja ekki gefa upp á bátinn.

Í þessum efnum eru hagsmunir og velferð Íslands og alls heimsins því sameiginleg, þ.e. að öllum tilraunum með kjarnorkuvopn verði hætt og ekki síður að slíkum vopnum verði aldrei beitt. Jafnframt er það skylda Íslands eins og allra annarra þjóða að leggja sitt af mörkum til að draga úr vígbúnaði og tryggja lausn þessa ógnarlega vanda sem dregur til sín um tífalda upphæð íslenskra fjárlaga á hverju ári í dollurum mælt.

Það er oft talað um hlutverk smáþjóða á vettvangi alþjóðastjórnmála, hvort þær hafi nokkurt vægi í raun og veru. Ísland er að vísu ekki stórt land og ekki búa hér margar manneskjur. Hins vegar þýðir það ekki að þeir sem hér búa þurfi að vera lítilla sanda og lítilla sæva. Ísland er ekki lítið land þegar mælistikan hugkvæmni og frumkvæði er notuð, en það ásamt pólitískum vilja er m.a. það sem mest vantar á sviði afvopnunarmála í dag. Þess vegna getur Ísland orðið jafnstórt og veigamikið og það

sjálft kýs. Ég vil minna menn á að Mahatma Gandhi var aðeins lítill og grannvaxinn maður í mittisskýlu. Hins vegar fæddust í höfði hans hugmyndir sem voru svo áhrifaríkar að þær knúðu milljónir manna til fylgdar og aðgerða þannig að það er ekki spurning um stærð.

Íslensk stjórnvöld hafa hingað til ekki séð ástæðu til að styðja þá tillögu sem hér er til umræðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en jafnan setið hjá við atkvæðagreiðslu. Slíkt er óviðunandi og í ósamræmi við anda þeirrar þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var á Alþingi í maí 1985. Á s.l. hausti sáu allar Norðurlandaþjóðirnar sér fært að styðja áðurnefnda till. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna aðrar en Íslendingar.

Íslendingar þurfa að sýna meira sjálfstæði og hugrekki á alþjóðavettvangi. Við verðum að forða því með öllum ráðum að mannkynið verði leitt í fjöru eins og glötuð grindhvalavaða af gömlum forustuhvölum með brengluð skynfæri eða brenglaða dómgreind.

Þessi till. miðar að því að hindra frekari vopnasöfnun. Íslensk stjórnvöld hafa lítið aðhafst enn til að stuðla að afvopnun á alþjóðlegu friðarári. Mikilvægt er að Alþingi fjalli um þessa þáltill. áður en efnislega samhljóða till. verður borin upp til atkvæða á því þingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir. Sú tillaga hefur ekki enn komið til afgreiðslu þannig að við höfum enn tíma. Okkur gefst tími til að ræða málið. Þessi tillaga verður send til hv. utanrmn. og okkur gefst færi á að greiða um hana atkvæði áður en gengið verður til atkvæða á þingi Sameinuðu þjóðanna.

Með samþykkt þessarar þáltill. mundi Alþingi gefa íslenskum stjórnvöldum það verðuga verkefni á alþjóðlegu friðarári að beita sér fyrir allsherjarbanni við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna og það væri vel.

Að lokinni umræðu, herra forseti, vil ég mælast til þess að till. verði send til hv. utanrmn.