04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

63. mál, bann við geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Nú þegar ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 63 um bann við geimvopnum þætti mér ástæða til að biðja virðulegan forseta að greina formanni Alþfl. og fulltrúa Alþfl. í utanrmn., hv. 3. þm. Reykv. Jóni Baldvini Hannibalssyni og 3. þm. Reykn. Kjartani Jóhannssyni, frá því að þessi mál séu hér til umræðu því að mér finnst eðlilegt að menn hafl tækifæri til að tjá sig um þessi mál, fulltrúar annarra flokka. Ég nefni einnig hv. 9. þm. Reykv. Harald Ólafsson sem á sæti í utanrmn. þar sem þessi till. hefur áður verið til meðferðar. Ég vildi biðja virðulegan forseta að gera þessum hv. þm. viðvart að málið sé hér tekið á dagskrá.

Þessi till. er eins og ég gat um flutt öðru sinni hér á Alþingi. Að þessu sinni er flm. ásamt mér hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir, en í fyrra voru flm. ásamt mér hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir og hv. 1. landsk. þm. Kristín S. Kvaran. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir og styðja á alþjóðavettvangi bann við geimvopnum þar sem miðað verði við:

1. Að allar rannsóknir og tilraunir, er tengjast hernaði í himingeimnum, verði tafarlaust stöðvaðar.

2. Að hvers konar hernaðarumsvif og vopnakerfi til nota í himingeimnum verði bönnuð.

3. Að óheimil sé smíði vopna sem grandað geta gervihnöttum og öðrum tækjum sem tengjast friðsamlegri nýtingu himinhvolfsins.“

Þetta er efni sjálfrar tillögunnar, en í grg. og fskj. er því nánar lýst hvað hér er á ferðinni og raunar þarf ekki svo ýkjamörg orð um þetta að hafa hér á hv. Alþingi því að það er öllum Íslendingum nú dagljóst, vænti ég, hvað býr að baki hugmynda um að færa vopnakapphlaupið út í himingeiminn eða draumum um að koma þar upp vörnum af því tagi sem forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan, fyrstur þjóðarleiðtoga setti fram 23. mars 1983.

Þessar hugmyndir um geimvopn urðu til þess að sögulegu tækifæri var kastað fyrir borð hér á fundi leiðtoga stórveldanna í fyrra mánuði, fundi leiðtoga risaveldanna sem haldinn var hér í Reykjavík. Og það er fróðlegt, herra forseti, að fylgjast með viðbrögðum eins og þau birtast á alþjóðavettvangi við þessari niðurstöðu þar sem það lá fyrir að stórfellt skref, langtum stærra en menn höfðu látið sig dreyma um fyrir þennan leiðtogafund hér í Reykjavík, var teflt út af borðinu vegna ásetnings og yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna að halda sig við geimvopnaáætlun sína, stjörnustríðsáætlunina, og fallast ekki á kröfur gagnaðilans um að rannsóknir varðandi hana yrðu eingöngu bundnar við rannsóknarstofur á næstu árum.

Viðbrögðin eins og við lesum þau í erlendum útbreiddum blöðum eru flest á eina leið. Þar lýsa menn í senn undrun yfir þrákelkni Bandaríkjanna að halda við þessa áætlun sem er þó algerri óvissu háð hvað snertir útfærslu, það mikilli óvissu að hver vísindamaðurinn af öðrum í Bandaríkjunum sjálfum lýsir andstöðu sinni við þessi áform og vantrú á að þau nái nokkru sinni fram að ganga af tæknilegum ástæðum. Þá er ég ekki að tala um þau viðbrögð sem komið hafa fram hjá vísindamönnum í Bandaríkjunum, um 7 þúsund talsins, sem hafa fordæmt þessa áætlun og undirritað skuldbindandi yfirlýsingar um að koma þar hvergi nærri. Ég er heldur ekki að tala um þá vísindamenn sem hafa hlaupist undan merkjum og höfðu verið ráðnir til verka í sambandi við geimvopnaáætlun Bandaríkjastjórnar, en einn af forustumönnum þar lýsti sig nýlega frá þessu starfi og tók upp fyrri störf við MTI-rannsóknastofnunina í Cambridge þar sem hann hafði áður unnið. Ég nefni hér til staðfestingar máli mínu t.d. ummæli í Newsweek 27. okt. s.l. þar sem tekin er ljóslega afstaða gegn hugmyndunum eða draumum Reagans forseta um geimvopn og stjörnustríð og þeirri afstöðu sem forsetinn tók hér á fundinum í Reykjavík þegar stórfelldir möguleikar til afvopnunar urðu að engu vegna þráhyggju um að halda við þessa drauma um stjörnustríð.

Það sjónarmið kemur líka fram í nefndri grein í Newsweek varðandi geimvopnin að í stað þess að gera þær hugmyndir að engu og í stað þess að þær ættu að eyða ógnarjafnvæginu muni stjörnustríðshugmyndirnar viðhalda ógnarjafnvæginu, viðhalda stríðsógninni. Á enskunni, svo að ekkert fari á milli mála, stendur þarna, með leyfi forseta: „Instead of doing away with the balance of terror starwars will preserve it“, segir í þessari grein 27. okt. í Newsweek.

Ég hef hér fyrir framan mig úttekt tímaritsins Spiegel á Reykjavíkurfundinum og þar er orðið sem notað er um stjörnustríðsáætlunina, sem girti fyrir hið sögulega samkomulag sem virtist í seilingu á þessum fundi, „aberwitziger Plan“. Það er notað um stjörnustríðsáætlunina, „Reagans aberwitziger Plan“. Það er í rauninni sem „fjarstæðukenndar áætlanir“ sem Spiegel stimplar þessar hugmyndir. Þannig má rekja sig í gegnum skrif á alþjóðavettvangi í virtum tímaritum Vesturlanda um þessa

niðurstöðu og um áætlanir Bandaríkjaforseta um stjörnustríð. Allt er það á eina bókina lært þar sem þeir sem þar halda á penna eru auðvitað sérfræðingar hver á sínu sviði í alþjóðastjórnmálum. Hið sama kemur fram í viðtölum við virtan ráðgjafa fyrrv. forseta Bandaríkjanna eins og lesa má í Der Spiegel nýlega þar sem einnig kemur fram mjög rökstudd og veigamikil andstaða við allar þessar hugmyndir.

Það er auðvitað, herra forseti, ekki lítið alvörumál þegar hugmyndir af þessu tagi, sem að flestra mati sem hafa kynnt sér þær eru ólíklegar til að ganga upp tæknilega séð, viðhalda stríðsógninni í stað þess að afnema hana, eru orðnar meginþröskuldur í þeirri afvopnun, þeirri stöðvun kjarnorkuvígbúnaðarins sem okkur vesturlandamenn og jarðarbúa alla hefur verið að dreyma um að rættust. Þetta er þeim mun alvarlegri staðreynd þegar litið er á að Sovétríkin, sem hafa á undanförnum árum oft verið treg að fallast á það eftirlit með tilraunum með kjarnavopn sem vesturveldin hafa sett fram kröfur um, hafa nú fallist á slíkar kröfur og það á þann hátt að metið er fullgilt af aðilum sem horfa hlutlægt á þessi mál.

Það hlýtur að teljast verðugt viðfangsefni hér á Alþingi Íslendinga að fara ofan í saumana á þessum áætlunum og kveða upp úr um það hvert sé sjónarmið og viðhorf Alþingis Íslendinga til stjörnustríðshugmynda Bandaríkjanna eða annarra hugmynda hvaðan sem þær kæmu, ekkert síður ef þær væru uppi innan Sovétríkjanna, varðandi geimvopn. Menn hafa heyrt rök og gagnrök í þessu máli frá leiðtogum risaveldanna, en það eru ekki þeir einir sem eiga að tala. Ég vil ekki túlka orð virðulegs formanns utanrmn. áðan í umræðum um annað þingmál á þann hátt að hann vilji í einu og öllu bíða eftir því hvað gerist í afvopnunarviðræðum og togstreitu risaveldanna í sambandi við þessi lífshagsmunamál alls mannkyns, en þó gætir þess oft í málflutningi hjá talsmönnum sem hafa verið allt of reyrðir við stefnu Reagan-stjórnarinnar í þessu máli sem öðrum að þeir telji að það varði næsta litlu hvað bandamenn Bandaríkjanna og talsmenn annarra ríkja hafa að segja í þessum þýðingarmiklu málum. Auðvitað vita þeir hinir sömu nákvæmlega að slík afstaða getur algerlega skipt sköpum um hver verði niðurstaðan. Við vitum líka að innan Atlantshafsbandalagsins hjá bandalagsríkjum Bandaríkjanna ríkir hin megnasta tortryggni svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, andúð væri kannske réttara að segja, gegn þeirri afstöðu sem Reagan forseti Bandaríkjanna tók á leiðtogafundinum í Reykjavík. Þetta birtist m.a. í orðum og viðhorfum Genschers utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands sem hann lét falla eftir lok leiðtogafundarins í Höfða þó að hann væri varfærnari í orðum eftir að menn höfðu bundið sig saman um að fara ekki í opinn ágreining, utanríkisráðherrar Atlantshafsríkjanna, eftir fund sem haldinn var í Brussel að ég hygg einum degi eftir leiðtogafundinn.

Það er líka vert fyrir menn að átta sig á því að þráhyggja Bandaríkjanna að halda áfram tilraunasprengingum með kjarnavopn byggir á þeirri staðreynd ekki síst að stjörnustríðsáformin hvíla á kjarnorkusprengingum og mikið af þeim kjarnorkusprengingum, sem Bandaríkin hafa framkvæmt eftir að Sovétríkin hættu einhliða tilraunasprengingum með kjarnavopn, hefur beinlínis verið í þágu þróunar og svokallaðra rannsókna í þágu geimvopna. Þetta er viðurkennt og staðfest. Ég hef fréttaskeyti frá því 13. okt. frá Reuter þar sem það er tekið fram að bandarískir embættismenn hafi í einkaviðtölum sagt að þörfin til að reyna tækni stjörnustríðsáætlunarinnar sé að hluta til ástæðan fyrir því að Reagan forseti hefur neitað að fallast á eða gerast aðili að stöðvun tilrauna með kjarnavopn sem Sovétríkin hafa staðið fyrir og hafa verið í gildi í meira en eitt ár, eins og stendur í þessu fréttaskeyti.

Í greinargerð með þessari till. eru rakin mörg rök gegn geimvopnahugmyndunum hvaðan svo sem þær koma. Þar er rakinn hin óhemjulegi kostnaður sem fellur til á allra næstu árum í sambandi við þróun geimvopnanna upp á 32 milljarða bandaríkjadala eða 1300 milljarða íslenskra króna. Það er nú ekkert minna sem þarna er að baki.

En það sem ég hlýt að leggja alveg sérstaka áherslu á, herra forseti, í máli mínu, og hefði verið æskilegt að hæstv. utanrrh. væri viðstaddur þessa umræðu, er sú staðreynd að ríkisstjórn Íslands með utanrrh. í fararbroddi leggur það fram fyrir Alþingi Íslendinga í skýrslu utanrrh. á síðasta þingi að æskilegt sé fyrir Íslendinga og freistandi að gerast beinir aðilar að stjörnustríðsáætlun Reagans. Þetta er prentað sem tilvitnun í grg. í skýrslu utanrrh. á bls. 3 í þskj. sem ég mæli hér fyrir. Þar segir ráðherrann berum orðum, með leyfi forseta:

„Geri Bandaríkjamenn öðrum þjóðum kleift að taka þátt í áætluninni er ljóst að Íslendingar geta ekki síður en aðrir notið góðs af samvinnunni.“

Það er auðvitað útilokað að Alþingi Íslendinga geti látið hjá líða að kveða upp úr um afstöðu sína til hugmynda af þessu tagi. Að hugsa sér að fara að reyra Íslendinga við áætlun af þessu tagi, áætlun sem er einróma fordæmd af stjórnmálamönnum í Vestur-Evrópu frá miðju og til vinstri í stjórnmálum, og vefengd af fjölda manna sem telja sig til hægri flokka, sem eru búnir að átta sig á hvað hér er á ferðinni.

Herra forseti. Það eru aðeins fulltrúar tveggja þingflokka sem leggja fram þessa till. hér. Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð annarra flokka við þessari till. og fá þau fram á Alþingi. Það er ánægjulegt að virðulegur 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson er viðstaddur umræðuna og eins talsmaður Framsfl. í utanrmn., hv. 9. þm. Reykv. Haraldur Ólafsson, fyrir utan formann utanrmn., hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til utanrmn. og ég vænti þess og tel mig mæla þar fyrir þá þingflokka sem eiga aðild að þessari till., sem við tillögumenn erum fulltrúar fyrir, að þessi till. eigi endurkvæmt frá nefndinni að athuguðu máli þannig að Alþingi Íslendinga geti ályktað með skýrum hætti um það efni sem varð þröskuldurinn fyrir sögulegu samkomulagi á fundi stórveldanna í höfuðstað Íslands fyrir fáum vikum og sem er eitt af stærstu málum sem þjóðir hljóta að taka tillit til þegar fjallað er um afvopnunarmál og framtíð mannkyns.