04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

63. mál, bann við geimvopnum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mér skilst að hv. flm., 5. þm. Austurl., hafl beint orðum sínum til mín eða fulltrúa Alþfl. í utanrmn. vegna þessa tillöguflutnings. Ég skal játa að svör verða ekki, á þessu stigi máls, afdráttarlaus. En þar eru málsbætur nokkrar. Það er sjálfsagður hlutur að krefja menn svara við framlögðum tillögum um afvopnunarmál, krefja menn svara við framlögðum tillögum um gagnkvæma afvopnun og leggja mat á þá hluti alla. Hitt er öllu erfiðara að biðja menn um afstöðu til þess sem á útlendu máli heitir „science fiction“ eða vísindadraumur af þeirri einföldu ástæðu að með hliðsjón af skrautumbúnaði Reagans Bandaríkjaforseta, svo sem kemur berlega fram af fskj., þegar hann kynnti þessi áform strax 1983, taldi þau breyta gangi mannkynssögu og boðaði þar að stefnt væri að nýju varnarkerfi sem ætti að þjóna þeim mjög svo loflega tilgangi að gera kjarnorkuvopn gagnslaus og úrelt, er mjög erfitt að færa fyrir því sannfærandi vísindaleg rök að við þetta sé hægt að standa. Hins vegar treysta hvorki ég, sem hér stend, né aðrir sér til að fullyrða til hvers þessar rannsóknir muni leiða. Um það er gífurlegur ágreiningur meðal vísindamanna, rannsóknarmanna, og skoðanir á því eins margar og höfundar.

Af þeim ástæðum er ósköp eðlilegt að menn svari ekki spurningunni Ertu með eða móti geimvarnaáætluninni? með jái eða nei. Það er tiltölulega fáfengileg skoðun að lýsa sig fyrir fram andvígan rannsóknum og tilraunum. Hitt er nær lagi að hægt sé að taka afstöðu til að Alþingi Íslendinga eða aðrir stjórnmálaaðilar lýsi sig andvíga hernaðarumsvifum og vopnakerfum í geimnum eða lýsi sig andvíga því að hugsanlegum niðurstöðum þessara rannsókna verði beitt þegar þar að kemur í tilteknum yfirlýstum hernaðarlegum tilgangi.

Þetta þskj. lýsir afstöðu og rökstyður þá afstöðu á nokkuð svo einhliða máta, styður það fskj. sem líka eru nokkuð svo einhliða. En með sama hætti mætti að sjálfsögðu leiða til vitnis ritsmíðar, rannsóknir, athugasemdir og ályktanir annarra vísindamanna sem taka annan pól í hæðina. Að vísu kemur skilmerkilega fram, þegar vitnað er í kafla í utanríkismálaskýrslu hæstv. utanrrh., fyrstu röksemdir Bandaríkjamanna til stuðnings þessari „science fiction“, þ.e. þessum vísindadraumi, að það sé ekki unnt á grundvelli fullnægjandi raka að stöðva þessar rannsóknir einar út af fyrir sig vegna þess einfaldlega að það er á þessu stigi málsins alls óvíst hverjar verða niðurstöður rannsóknanna.

Það stendur upp á marga að svara því, sem lýsa sig andvíga kjarnorkuvopnum og vilja ekki aðeins fjarlægja kjarnorkuvopn heldur afnema kjarnorkuvopn, með hvaða hætti það skuli gert. Að lokum endar sú röksemdafærsla í spurningunni: Hvað ætla menn að gera með þekkinguna til að búa til kjarnorkuvopn? Hún er til staðar. Tæknin er tiltölulega einföld og hún er á valdi fjölmargra þjóða og ekki bara þjóða heldur fyrirsjáanlega jafnvel á valdi hópa. Og gæti jafnvel innan skamms verið á valdi hryðjuverkamanna hvað þá heldur þjóðríkja.

Það er heldur ekkert launungarmál að rannsóknir af þessu tagi, geimvarnarrannsóknir, sem snúast um lasergeisla og kerfistækni, eru auðvitað ekki aðeins stundaðar af Bandaríkjamönnum. Þær eru að sjálfsögðu stundaðar af Sovétmönnum líka. Það er hins vegar eðli málsins samkvæmt að vitneskjan um það á hvaða stigi þær rannsóknir eru er ófullkomin.

Sumir leggja á það megináherslu í þessum umræðum að þó menn treysti sér ekki til að taka einhverja grundvallarafstöðu til þess að stöðva rannsóknir sem menn vita ekki til hvaða niðurstöðu leiði sé þetta fyrst og fremst hættulegt vegna þess að hér sé boðið upp á samkeppni milli risaveldanna sem sé ójafn leikur að því leyti að þeir gífurlegu fjármunir sem varið er til þessara rannsókna séu varla á valdi sovéska hagkerfisins og muni þess vegna hugsanlega kalla á örvæntingarfull viðbrögð húsbændanna í Kreml og leggja það miklar fjárhagslegar byrðar á sovéska efnahagskerfið sem muni bitna þar á almenningi. Út af fyrir sig hafa líka verið færðar röksemdir fyrir því að þó að Sovétmenn kunni að vera eftir á í þessum rannsóknum og þær verði ekki stöðvaðar, hvorki með tillöguflutningi héðan né annars staðar, muni viðbrögð þeirra verða þau að margfalda vopnabúr sitt á sviði langdrægra kjarnaeldflauga vegna þess að miðað við þær upplýsingar sem menn hafa nú um getu þessara fyrirhuguðu kerfa til að stöðva eldflaugasendingar meginlanda á milli má slá því föstu, a.m.k. miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið, að hinn umdreymdi varnarhjálmur muni aldrei verða af slíku tagi að massíf eldflaugaárás brjótist ekki þar í gegn.

Ég ætta ekki að fjölyrða mikið um þetta mál. Ég svara því til að ég tek ekki afstöðu til þess hér og nú, hvorki persónulega né heldur fyrir hönd míns flokks sem ekki hefur markað sér stefnu eða afstöðu til þessarar till. Ég tek ekki afstöðu hér og nú til tillögunnar og treysti mér ekki til þess að lýsa því yfir fyrir fram að ég sé andvígur rannsóknum sem ég veit ekki til hvers leiða og sem þeir sem rannsóknirnar stunda vita ekki til hvers leiða.

Ég vil ljúka þessum athugasemdum, herra forseti, á almennri nótu. Hún er þessi:

Mér finnst umræður um afvopnunarmál oft og tíðum vera svolítið yfirborðskenndar og út úr samhengi ef þær eru eingöngu látnar snúast um tæknilega hluti. Oft og tíðum er umræðan á þann veg að menn telja upp tillögur sem fram hafa verið lagðar um fækkun eldflauga, bæði langdrægra eldflauga meginlanda á milli, skammdrægra eldflauga eða fækkun í öðrum vopnabúnaði, samdrátt í herjum, og menn segja sem svo: Bara ef samkomulag gæti nú tekist milli risaveldanna tveggja um slíka fækkun í vopnabúri, sem menn vita fyrir fram að nægir fyllilega til að útrýma mannkyni mörgum sinnum, þá yrði miklu friðvænlegra hérna í heiminum. Þar með eru menn að gefa í skyn að spurningin um stríð og frið sé fyrst og fremst tæknilegt vandamál sem hún að mínu mati er alls ekki. Þar með er ég ekki að draga úr því hversu mikilvæg þau vandamál eru og ekki að draga úr því að það er brýn nauðsyn öllu mannkyni að ná samkomulagi um gagnkvæma afvopnun og ef hún er ekki gagnkvæm kemur hún til lítils að mína mati. Ég er aftur á móti að vekja athygli á því að spurningin um stríð og frið er í grundvallaratriðum pólitísk spurning. Og hún er spurning um pólitískan vilja. Umræðan um það verður þess vegna ekkert slitin úr pólitísku samhengi.

Þrátt fyrir ógnarjafnvægi risaveldanna hafa verið háðar 150 styrjaldir á tímabilinu eftir stríð. En þær styrjaldir hafa aðallega verið háðar í öðrum heimshlutum, þ.e. utan beinna yfirráðasvæða stórveldanna og utan áhrifasvæða þeirra og fyrst og fremst í ríkjum þriðja heimsins þar sem undirrótin sem kveður á um stríð eða frið er staðreyndir sem við blasa um örbirgð, fátækt, hungur, misskiptingu auðs og tekna og misskiptingu valds. Ekkert sem gerðist í samskiptum risaveldanna eitt út af fyrir sig í samkomulagi sem byggist á tæknilegum lausnum um fækkun á ógnarvopnabúrum mun breyta þessum pólitísku staðreyndum sem eru ráðandi um stríð eða frið. Ég mundi reyndar ganga lengra og segja sem svo að ég tek með fyrirvara tillögugerð sem fram gengur af valdhöfum t.d. í Sovétríkjunum af þeirri einföldu ástæðu að það er augljóst mál þeim sem vilja vita að það þjóðfélagskerfi sem þar er við lýði byggir á valdbeitingu. Tilvera þess byggir á valdbeitingu. Það er ólíklegt, miðað við eðlilega mannlega hegðun eða bíólógíska hegðun, að þeir menn, sem eiga vald sitt í hinu mikla nýlenduveldi undir vopnavaldi komið og vita að það mundi hrynja sem spilaborg ef þetta vopnavald væri fjarlægt, séu líklegir til þess öðrum fremur að hafa frumkvæði að því að leysa vandamál stríðs og friðar sem eru í því fólgin að færa fólki sem er undirokað aftur mannréttindi sín, réttinn ekki aðeins til þess að tjá sig, réttinn til lýðræðislegs stjórnarfars o.s.frv.

Mér fannst það mjög lærdómsríkt á s.l. sumri að fá að berja augum í fyrsta sinn á ævinni borg í þriðja heims ríki og sjá fyrir augunum þjóðfélag sem var hrunið í frumefni sín vegna þess að þar blasti við slík himinhrópandi misskipting auðs og valds, þar sem yfirstétt byggir vald sitt fyrst og fremst á vopnavaldi, en allur almenningur er dæmdur til örbirgðar vegna þess að örbirgðin getur af sér örvæntingu og örvæntingin getur af sér ofbeldi. Ekkert af því sem hér er fjallað um, um tæknilegar lausnir á samskiptavandamálum stórveldanna, mun breyta þessum staðreyndum. Mér finnst því ástæða til þess í umræðum um afvopnunarmál að biðja menn að ræða þau í pólitísku samhengi vegna þess að spurningin um stríð og frið er ekki fyrst og fremst tæknilegt vandamál, þó hún sé það að vissu leyti í birtingarformi hennar, heldur er hún fyrst og síðast í innsta eðli sínu spurning um pólitík. Fólk sem er ófrjálst og fólk sem beitt er ofbeldi mun ekki una því þjóðfélagskerfi. Oft og tíðum er eina lausnin sú að grípa til vopna. Og kerfi, valdakerfi eins og sovéska nýlendukerfið sem byggir allt sitt á valdbeitingu er auðvitað eitt af afturhaldsöflum þessa heims og mun aldrei meðan það fær nokkru um ráðið gefa upp það vald sitt sem tilvera þess byggist á. Að því er varðar stjórnlausan og óheftan kapítalisma, þá er hann ófriðarafl með sama hætti vegna þess að hann býður öllum þorra fólks ekki aðra kosti en örvæntingu og örbirgð.

Þess vegna er ekki nóg að ná samkomulagi um að draga úr ógnarjafnvægi, að draga úr vopnabúrum. Það sem þarf að gerast er það að gefa þarf þjóðum og einstaklingum kost á því að leysa vandamál sín án ofbeldis. Það gerist ekki nema í krafti lýðræðislegs stjórnarfars. Og það gerist ekki nema með því að virða mannréttindi manna, rétt þeirra til að hugsa og tjá sig og rétt manna til athafna án valdbeitingar.

Þessar almennu athugasemdir fara kannske út fyrir umræðuramma þessarar till. En þær eiga almennt við þegar menn spyrja hver annan: Ert þú sammála þessari eða hinni tillögunni um fækkun kjarnorkuvopna, þessari eða hinni tillögunni um fækkun í vopnabúrum risaveldanna? Já. Það er hins vegar ekki nóg vegna þess að það er misskilningur og blekking að það eitt út af fyrir sig, jafnvel þótt samkomulag tækist milli risaveldanna um slíka takmörkun í núverandi vopnabúnaði, mundi færa hrjáðu mannkyni frið þar fyrir.