04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

63. mál, bann við geimvopnum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp aftur var athugasemd hv. 3. landsk. þm. um rannsóknir í Auschwitz. Um afstöðu mína til þessarar till. ætla ég aðeins að endurtaka: Ég tek ekki af einhverjum grundvallarástæðum afstöðu gegn rannsóknum sem ekki er ljóst fyrir fram til hvaða niðurstöðu leiða. Það var það sem ég sagði og við þá afstöðu stend ég.

En skoðum aðeins þessa athugasemd hv. þm. um rannsóknirnar í Auschwitz í ljósi þess sem ég sagði áðan í almennum athugasemdum um stríð og frið og pólitískan vilja. Auschwitz vekur upp í huga okkar endurminningar um kerfisbundna útrýmingu á undirokuðu fólki, ekki bara Gyðingum, heldur fólki af ýmsum þjóðernum. Þeir sem stóðu að þessari útrýmingarherferð og beittu vísindunum í sinni þjónustu voru stjórnendur í pólitísku valdakerfi. Þetta pólitíska kerfi heitir nasismi.

Það er athyglisvert að á þessum árum voru uppi stórir hópar fólks á Vesturlöndum utan Þýskalands og reyndar innan sem kölluðu sig friðarsinna. Þeir sögðu að það væri fyrir öllu að tryggja friðinn og gerðust talsmenn þess að taka mark á margendurteknum yfirlýsingum forsvarsmanna þýska nasismans um það að áform þeirra og fyrirætlanir væru friðsamleg. Það bæri að halda friðinn. Af því spratt hinn frægi „Münchenar-andi“: Uppgjöfin gagnvart ofbeldinu. Þau öfl, sem þá bar hæst í fjölmiðlum heimsins með endalausum ræðuhöldum og endalausum ráðstefnum um friðarvilja sinn, sem gjarnan var settur fram með brigslyrðum í garð hinna, sem sögðu að nasisminn væri slíkt skrímsli og svo hættulegur að það yrði að kveða hann niður og lýðræðisríkin yrðu að halda vöku sinni og jafnvel verjast skrímslinu og jafnvel kveða það niður áður en það yrði hamslaust og óviðráðanlegt, - þessir menn voru gjarnan kallaðir stríðsæsingamenn og ófriðarsinnar. Hver var svo niðurstaðan? Niðurstaðan var sú að skrímslið spurði hvorki um það hvort þú væri friðarsinni eða ekki. Skrímslið beitti vísindum sínum til þess að ryðja úr vegi og útrýma kerfisbundið og á vísindalegan hátt öllum þeim sem það hafði vanþóknun á. Um það þarf ekkert að deila hverjir höfðu rétt fyrir sér í þessum deilum. Spurningin var: Skildu menn eða skildu menn ekki eðli nasismans`? Og því miður: Dómur sögunnar er sá að barnaskapur, skilningsleysi velviljaðs fólks, hundruðum og þúsundum saman, var aldeilis ótrúlegt. En það kostaði 60 milljónir mannslífa.

Og það er í þessum skilningi sem athugasemd hv. þm. um hinar óþekktu niðurstöður í Auschwitz gefur tilefni til þess að rifja þetta upp vegna þess að þessi athugasemd staðfestir það sem ég var að segja. Það var ekki nóg að ná samningum við Adolf Hitler og þýska nasismann. Það var ekki nóg, hvorki að beygja sig fyrir og semja við þá um Saar, ekki nóg um Austurríki, ekki nóg um Bæheim, ekki nóg um Pólland. Yfirleitt engir þeir samningar komu að neinu haldi. Engir samningar heldur í sambandi við spænsku borgarastyrjöldina. Spurningin var ósköp einfaldlega þessi: Ef menn hefðu haft raunsæjan skilning á eðli þýska nasismans og beitt valdi í tæka tíð til þess að kveða hann niður, þá geta menn nú séð það eftir á að þeir hefðu kannske þyrmt 50 milljónum mannslífa. Spurningin var ekki um tækni. Spurningin var um pólitískan vilja og pólitískan skilning, hv. 3. landsk. þm.