15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Vegna fsp. frá hv. 5. landsk. þm. til mín sem iðnrh., er varðar fjárhag Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, vil ég upplýsa það að starfandi er nefnd, sem ég setti á laggirnar, sem athugar þessi mál, stöðu fyrirtækisins og annarra orkufyrirtækja í þeim landshluta. Sú nefnd er að störfum undir forustu aðstoðarmanns míns, Jónasar Elíassonar, og eiga sæti í henni að sjálfsögðu heimamenn í réttu hlutfalli eins og gefur að skilja. Sú nefnd hefur ekki skilað niðurstöðu, en nefndin er að sjálfsögðu sett á laggirnar til að finna lausn á þessum mikla vanda. Hitt er annað mál að við höfum ekki hugsað okkur að hlaupa frá neinum loforðum sem við gefum þó við skiptum um stóla. Ég mun að sjálfsögðu hafa allt það, sem forveri minn hefur látið falla, í huga þegar að lokasennu kemur í lausn á þessu máli.

Nú er það svo að raforkuverð er byggt á nýjum fjárfestingum í virkjunum og er samræmt, m.a. í Andakílsárvirkjun, við aðrar nýjar rafveitur eða raforkuframleiðandi fyrirtæki, sem er kannske ekki nauðsynlegt vegna þess að Andakílsárvirkjun er gömul fjárfesting, skuldlaus, þannig að það hlýtur að vera óeðlilega, má segja, mikill ágóði miðað við það sem nýjar framkvæmdir gefa í ágóða. Svo það getur vel verið, það hefur ekki verið fullkannað, að ágóði af einni virkjun, sem er þá rafvirkjun, megi standa undir vandamáli annarrar virkjunar fyrir sama fólkið, í sama héraði, þ.e. hitaveitnanna. Allt þetta er í athugun og niðurstaðan hlýtur að vera í sjónmáli.

Ég segi þetta m.a. vegna þess að ég er að koma af erlendri orkumálaráðstefnu þar sem saman voru komnir um fjögur þúsund sérfræðingar á þessu sviði víðs vegar að úr heiminum og þar voru staddir 27 orkumálaráðherrar. Eitt af því sem var hvað athyglisverðast voru umræður um þessi mál og svipuð þeim sem hér eru á dagskrá nú. Þau voru rædd á þann hátt að vegna sveiflna í olíuverði var tekin ákvörðun um heim allan um að leita annarrar orku en olíu. Og það var talið borga sig vegna þess hve olíuverðið var hátt. Síðan fellur olíuverðið verulega og þá eru það flestar þjóðir sem draga úr þessari leit að nýjum orkugjöfum í stað olíu.

Þetta átti sér stað hjá okkur. Ríkisstjórnin hvatti til þess að heita vatnið yrði notað í ríkara mæli vegna hins háa verðs á annarri orku eins og olíu. Nú er það svo að þau ríki, sem hafa dregið í land með leit að öðrum orkugjöfum vegna þess að olíuverðið hefur lækkað, eru uggandi yfir framtíð sinni. Og þess vegna hafa komið mjög sterkar raddir fram víðs vegar að úr heiminum, frá vísindamönnum nánast allra þessara landa, sem þarna tóku til máls, að olíuverð verði að hækka verulega á ný, og því fyrr því betra, vegna þess að við verðum að byggja brú - eins og þeir orðuðu það, vísindamennirnir á þessari ráðstefnu, - við verðum að byggja brú frá fortíðinni og nútímanum inn í framtíðina. Orkugjafinn sem í dag er þekktur og notaður verður að standa undir framkvæmdum við þá orkugjafa sem koma í staðinn fyrir olíuna.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að gera eitthvað slíkt hér á landi líka. Við verðum að halda áfram að virkja þá orku sem er heima fyrir, sem ekki er innflutt, þó að hún sé dýr. Og einhvern veginn verðum við að borga hana og þá verðum við að borga hana á þennan sama hátt og vísindamenn allra þjóða tala um, að orkan, sem við höfum og notum í dag, hún eigi að standa undir framkvæmdum við þá orkugjafa sem framtíðin kemur til með að nota. Þetta held ég að sé alveg ljóst.

Ég vil upplýsa það að ég bar vissan ótta í brjósti við að hlusta á þessa vísindamenn tala varnaðarorð til stjórnmálamanna um að jafnvel 30 dollarar, sem var hámarksverð á sínum tíma þegar olíutunnan lækkaði, sé ekki nóg. Þeir tala um 50-60 dollara á tunnuna. Og þeir benda á að við erum að missa af tækifærum vegna þess að olían, það heildarmagn af olíu sem vitað er um í heiminum, er aðeins 7% af öllum þeim orkugjöfum sem þekktir eru í heiminum. Það gæti verið að hægt væri að finna að þeirra mati 7% til viðbótar af olíu. En olían í dag stendur undir 40% af orkunotkun í heiminum. Þannig að þetta sem eftir er af olíu, þetta litla sem eftir er af olíu, sögðu þeir, verður að skattleggjast þannig að það standi undir orkugjöfum, sem þá verða óhjákvæmilegir, þegar olían þrýtur. Og þess vegna segi ég: Við skulum hugsa okkar mál vel. Við skulum ekki hætta að virkja innlenda orkugjafa eins og heita vatnið þó svo að aðrir orkugjafar, innfluttir orkugjafar, séu ódýrari í augnablikinu. Við skulum búa okkur undir framtíðina með því að safna í sarpinn til þess að geta verið tilbúin þegar heimurinn stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að aðrir orkugjafar eru ekki fyrir hendi en innlendir. Öll loforð gefin af sjálfstæðismönnum eru gefin í nafni Sjálfstfl. og ég mun ekki hlaupa frá neinu því loforði, ef um loforð hefur verið að ræða, sem forveri minn og flokksbróðir hefur gefið.