04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

63. mál, bann við geimvopnum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt að ég hafði ekki endilega ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu nú. Ég hafði talað hér áður um annað mál ekki alveg óskylt og hélt að það sem ég þar sagði væri nægjanlegt, en á mig er skorað að taka til máls og mér er það auðvitað ljúft þó að ég teldi það nægja þegar varaformaður utanrmn. hafði einmitt í fyrri ræðu sinni lýst því yfir að málið kæmi auðvitað til utanrmn. og þar yrði sjálfsagt á það reynt hvort samkomulag gæti náðst um þessa till. eins og náðst hefur raunar um allar aðrar sem fluttar hafa verið um þessi málefni.

En úr því að ég er kominn í pontuna eftir þessari áskorun vil ég gjarnan víkja örlítið að ræðum einstakra hv. þm. Ég sá út af fyrir sig ekki nokkurn skapaðan hlut athugavert við það þó að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson færi svolítið út fyrir efnið, eins og hann sjálfur orðaði það, kallaði það held ég útúrdúr eða eitthvað slíkt, og færi að ræða um það, sem er öllum mönnum ljóst, að hér er um stórpólitísk átök að ræða. Við vitum það ósköp vel að annars vegar eru lýðræðisþjóðirnar og hins vegar eru verstu ofbeldis- og harðstjórnarþjóðir veraldarsögunnar, kannske að nasistunum einum undanskildum. Og fara að draga Auschwitz inn í það, líkja því eitthvað saman, er alveg furðulegt uppátæki. Og segja að það hafi verið gerðar tilraunir í Auschwitz og menn hafi ekki vitað hvert þær mundu leiða. Það vissu allir hvert þær mundu leiða. Þær leiða auðvitað út í ofbeldi, manndráp og einhver stærstu morð mannkynssögunnar.

Hitt er auðvitað rétt að þessar rannsóknir úti í geimnum eru mjög skammt á veg komnar. Það er líka rétt að þessi vopn - við skulum kalla það vopn - eru þó til að eyða enn skaðvænlegri vopnum svo þau eru ekki sama eðlis og stigmögnun vopnabúnaðarins. Ég er ekki að taka afstöðu með eða móti þessari áætlun. Ég þarf að kynna mér þetta mál betur. Ég segi það nákvæmlega eins og það er. En auðvitað halda einhverjar rannsóknir áfram úti í geimnum og auðvitað eru þær stundaðar af Rússum. Það vitum við allir.

En það var táknrænt að heyra hv. þm. Hjörleif Guttormsson tala hér núna síðast. Hvað kom þar í ljós? Allt sem gerðist var Bandaríkjamönnum að kenna. Hann gleymdi rullunni sem hann hefur spilað síðustu ár. Hann var aftur kominn austur fyrir járntjald og farinn að skrifa SÍA-skýrslur sem hægt er að lesa í Rauðu bókinni. Hann var gersamlega staurblindaður, sagði að hér væri allt Reagan að kenna, Gorbatsjoff hefði allt saman rétt fyrir sér! Halda menn, þegar verið er að spila slíkt pókerspil og della með þessum hætti, að þegar tveir deili valdi bara annar?

Ég er ekkert endilega að verja afstöðu Bandaríkjamanna og NATO í einu og öllu. Við erum NATO þjóð og við ræðum þessi málefni við okkar bandamenn. En það var svo augljóst að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson datt út úr þeirri rullu sem hann hefur þó verið að reyna að spila jafnvel í áratugi og var aftur kominn með gamla hugsunarháttinn sem er ríkjandi í honum enn þá. Það leyndi sér ekki þegar hann var að tala áðan, verja allt sem ofbeldisöflin í Kreml gera og ásaka alla aðra. Hvernig væri umhorfs ef NATO hefði aldrei verið stofnað? Auðvitað væri þá sæluríkið komið, bæði yfir Ísland og önnur frjáls lönd. Ef menn vilja tala í þessum tóninum stendur ekki á mér. Auðvitað vita allir að þetta er rétt. Það vita allir að við lýðræðissinnar höfum rétt fyrir okkur, en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er enn við sama heygarðshornið. Þess vegna verðum við að vera vel á varðbergi. Þess vegna verðum við að hugsa okkar tillögur áður en við sendum þær frá okkur, ræða þær opinskátt og málefnalega eins og flestir hafa hér gert og við gerðum á síðasta þingi og næstsíðasta með ágætum árangri. Við náðum samstöðu í þessum veigamiklu málum. Henni á auðvitað að reyna að spilla. Í þágu hverra? Ofbeldisaflanna. Það leynir sér ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Tillaga þessi kemur til hv. utanrmn. og verður þar rædd. Hvort sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vill eða vill ekki verður hún rædd þar málefnalega. Hann situr raunar í nefndinni og hefur þar tækifæri til að koma öllum sínum skoðunum á framfæri. En ef hann vill tala þannig að það sé allt saman vestrænum lýðræðisþjóðum að kenna að pólitíska ástandið í heiminum er eins og raun ber vitni er auðvitað hægt að tala um það lengi og mikið.