04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

63. mál, bann við geimvopnum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessa umræðu, taldi mig ekki hafa neitt sérstakt fram að færa til viðbótar ágætlega málefnalegum umræðum sem hér höfðu farið fram. Þó menn væru ekki endilega á eitt sáttir, eins og hv. 5. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Reykv. Jón Baldvin Hannibalsson, ræddu þeir þó málin af málefnalegum rólegheitum og af skynsamlegu viti eins og það heitir á íslensku, en það er meira, herra forseti, en hægt er að segja um hv. formann utanrmn.

Ég hlýt að harma það, herra forseti, þegar maður sem stýrir einni þýðingarmestu nefnd Alþingis, hv. utanrmn., kveður sér hljóðs með þeim hætti sem hér bar raun vitni og ræðst mjög persónulega að þm. sem hefur flutt mál sitt með rökum, fullkomlega yfirvegað og án þess að veitast persónulega að nokkrum einasta manni. Þegar þetta gera menn sem stýra slíkum störfum hér á Alþingi, eins og formaður utanrmn. á væntanlega að gera og er í öðru hverju orði að tala um nauðsyn þess að ná samstöðu og vinna saman og ræða málin, sem er gott og blessað, er ekki gott í efni, herra forseti, ég verð að segja það alveg eins og er. Það er verið að gefa í skyn að menn séu í raun og veru fullir hræsni og tvöfeldni og tali ævinlega þvert um hug sinn, það sé sem sagt svart og hvítt í heiminum og hér séu nokkrir liðsmenn hins svarta sem hafi læðst inn undir fölskum formerkjum, séu í raun og veru andstæðingar lýðræðis og þingræðis og allra góðra hluta, séu eins og einhverjir útsendarar djöfulsins. Þetta er miklu líkara og minnir mig miklu meira á bók sem ég las fyrir svona 15 árum og fjallaði um kaþólska rannsóknarréttinn og málflutning æðstu prestanna á þeim tíma. Mér finnast hugrenningar og málflutningur formanns utanrmn., hv. 4. þm. Norðurl. v. sem enn þá er, Eyjólfs Konráðs Jónssonar, minna mig miklu meira á slíkt sem ég hélt í raun og veru að væri ekki aðeins horfið af sviðinu með endalokum kaldastríðstímans heldur horfið af sviðinu með miðöldunum, horfið af sviðinu með rannsóknarréttinum og öðru slíku.

Svona eiga menn ekki að ræða hlutina, hvorki hér á Alþingi né nokkurs staðar annars staðar. Ég held að það sé öllum fyrir bestu að svona ræður séu ekki haldnar hvort sem menn ræða um utanríkismál eða annað. Af því að hv. þm. sagðist hafa komið í ræðustól vegna þess að hann hafi verið hvattur til þess hlýtur að hvarfla að manni að kannske séu hér vissir menn sem ætti yfirleitt ekki að hvetja í ræðustól á hv. Alþingi ef því fylgja gusur af þessu tagi. (Gripið fram í.) Við skulum bara lesa ræðu hv. þm. þegar hún kemur prentuð í þingtíðindunum. (EKJ: Þú hlustaðir á hana.) Ég get ekki óskað Alþingi þess að hér séu fluttar margar ræður af þessu tagi. Ég verð að segja það alveg eins og er. Ég tel það svo langt fyrir neðan virðingu þessarar stofnunar að menn skuli ræða hlutina og veitast persónulega hver að öðrum með þessum hætti að ég harma það sameiginlega fyrir hönd Alþingis að slíkar ræður skuli vera hér fluttar.