05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

22. mál, framhaldsskólar

Haraldur Ólafsson:

Hæstvirtur forseti. Ég þarf varla að taka fram að hæstv. núv. menntmrh. hefur sýnt mjög góðan vilja í málefnum Háskóla Íslands. Það held ég að hafi ekki farið fram hjá neinum og hann hefur leyst þar ýmsan bráðan vanda. En vandamál hæstv. ráðherra er hið sama og annarra menntamálaráðherra sem hér hafa verið síðan Gylfi Þ. Gíslason á sínum tíma stóð fyrir hinni gífurlegu og merkilegu uppbyggingu sem átti sér stað í málefnum æðri menntunar hér á landi fyrir rúmlega hálfum öðrum áratug. Það er baráttan við fjmrn., það er baráttan við að deila út peningunum. Mín orð ber að túlka sem vilja þeirra sem starfa við þessa stofnun og hafa starfað við þessa stofnun í hartnær hálfan annan áratug til þess að hún fái sinnt sem best sínu hlutverki og þeim verkefnum sem ríkisvaldið hefur falið henni sem er m.a. að þjálfa og búa kennara undir störf á framhaldsskólastigi. Háskóli Íslands er sú stofnun sem sér framhaldsskólastiginu fyrir langflestum þeim kennurum sem þar starfa.

Ég vil aðeins undirstrika að við þekkjum og vitum hinn góða vilja ráðherrans og virðum og metum það sem hann hefur gott gert en við eins og aðrir hópar vildum bara svolítið meira.