05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

89. mál, grunnskóli

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Hér á undan var verið að fjalla um frv. til laga um framhaldsskóla og inn í þær umræður fléttuðust umræður um háskóla, aðstöðuleysi hans, kjör kennara á öllum stigum skólakerfisins. Ég er hins vegar hér komin til að fjalla um grunninn að þessu öllu saman, þ.e. breytingu á lögum um grunnskólann. En í honum fer fram einn þýðingarmesti þáttur í skólakerfinu, að sinna ungviðinu á fyrsta þroskaskeiði þess á menntabrautinni.

Frv. sama efnis og þess sem ég mæli hér fyrir á þskj. 89 var flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu enda þá stutt til þingloka. Það er því endurflutt nú óbreytt.

Meginefni þessa frv. varðar breytingu á 20., 21. og 22. gr. laga nr. 63 frá 1974 um grunnskóla. En þær greinar fjalla um daglega stjórn skóla, foreldrafélög og nemendaráð. Megintilgangurinn með þessu frv. er að auka aðild foreldra og nemenda að daglegri stjórn og innra starfi skóla.

Síðustu áratugi hafa orðið miklar breytingar á þjóðfélagsháttum, ekki síst hvað varðar líf fjölskyldunnar. Atvinnuhættir hafa breyst og þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur aukist svo að nú stunda um 80% þeirra vinnu utan heimilis. Fjöldi barna sem dvelur hjá öðru foreldri hefur farið vaxandi og lætur nærri að sjötti hver nemandi í bekk sé barn einstæðs foreldris. Þetta kallar á breytt viðhorf til hlutverks skóla. Grunnskólinn hefur skv. lögum fyrst og fremst það hlutverk að mennta og fræða börn og unglinga en nú er ættast til að hann sinni einnig í ríkari mæli en áður ýmsum þáttum uppeldis og umönnunar sem ekki falla beint undir hefðbundnar námsgreinar og fræðslu. Það hefur því komið í hlut grunnskólans í auknum mæli að taka að sér gæslu og jafnt líkamlega sem andlega umönnun barnanna. Það getur engum blandast hugur um að þessi þróun hefur í för með sér vaxandi þörf á sterkum tengslum milli heimila og skóla og raunverulegri samvinnu foreldra og starfsfólks skóla um uppeldi og skólastarf.

Rétt er að taka það fram að skólar og heimili hafa haft með sér samvinnu, og hafa, og stofnað til margs konar samskipta sem borið hafa árangur. Starfsemi foreldra- og kennarafélaga ber þess ljósan vott, þau hafa aukið tengsl milli heimila og skóla og milli foreldra og nemenda og foreldra innbyrðis. Þau hafa einnig aukið kynni foreldra af vissum hlutum skólastarfs og aukið kynni kennaranna af viðhorfum og skoðunum foreldranna. Þau hafa einnig aukið bein afskipti foreldra af ýmsum hliðarþáttum skólastarfsins, svo sem úrbótum á húsnæði og aðstöðu í umferðarmálum í nágrenni skóla svo að eitthvað sé nefnt. En það verður að segjast eins og er að það er mjög misjafnt hve virk foreldrafélögin eru við hina einstöku skóla og reynslan hefur sýnt að starfsemi þeirra, þó hún fari vel af stað í upphafi, vill lognast út af.

Ýmsar ástæður geta legið að baki, m.a. annríki foreldra og langur vinnutími, og oft vill starfið lenda á fáum aðilum. Þess vegna var það einróma álit vinnuhópsins, sem þáv. rnenntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, skipaði í júlí 1983 til að athuga tengsl fjölskyldu og skóla, að mæla eindregið með því að við hvern grunnskóla skuli starfa skólaráð, sem er stjórn skólans til ráðuneytis um innri mál hans, svo sem kennsluskipan, starfsáætlanir, skólatíma, slysavarnir og félagslíf í skólanum og fleira sem varðar daglega starfsemi skólans.

Ég vil einnig láta þess getið að núv. hæstv. menntmrh. styður eindregið þá skýrslu sem vinnuhópurinn skilaði af sér og þarf ekki að fjölyrða um hér, því hv. alþm. munu þekkja efni hennar. Hann hefur einnig lýst yfir stuðningi við þennan þátt í tillögum vinnuhópsins, þ.e. breytingu á lögunum í þessa veru.

Varðandi einstakar greinar þessa frv. er það að segja að eina breytingin, sem það felur í sér skv. 1. gr. og varðar 20. gr. gildandi laga, er sú að skólastjóri skuli bæði hafa samráð við skólaráð og kennara við stjórn grunnskóla. Þá eru ákvæði 21. og 22. gr. núgildandi laga um foreldrafélög og nemendaráð sameinuð í eina heildargrein í þessu frv. og ekki gerð önnur efnisleg breyting á þessum lagagreinum en sú að lögð er aukin áhersla á eflingu samstarfs heimila og skóla.

Meginbreytingin kemur svo fram í 3. gr. frv. en hún fjallar um stofnun skólaráða sem ég minntist á áðan. Tilgangurinn með stofnun skólaráða er að skapa sameiginlegan vettvang fyrir skólanefnd, foreldrafélög, nemendaráð og kennararáð.

Mál þau er skólaráð fá til umfjöllunar eru t.d. kennslu- og starfsáætlanir skóla, skólareglur, félagslíf nemenda, ferðalög nemenda, námsefni og fyrirkomulag námsmats, nýting húss og búnaðar, skólalóðin, tilrauna- og rannsóknaverkefni, valgreinar, öryggi á vinnustað, brunavarnir, umferðaröryggi í nágrenni skólans og annað sem lýtur að slysavörnum.

Þá er gert ráð fyrir að skólaráð hafi frumkvæði um að vinna að slysavörnum innan skólanna. Það er orðið mikið áhyggjuefni hve slys á börnum og unglingum eru tíð hér á landi. Slysatíðni barna og unglinga á Íslandi er með þeirri hæstu sem gerist í heiminum og þó að mikið sé unnið að slysavörnum er augljóst að ná þarf til stærstu áhættuhópanna með því að virkja þá sjálfa, börnin og unglingana. Það verður best gert með samvinnu foreldra, forráðamanna skóla og nemenda.

Rétt er að taka fram að það er ekki talin ástæða til að lögbinda stofnun foreldrafélaga og nemendaráða við hvern grunnskóla ef stofnun skólaráðs er gerð að skyldu. Séu foreldrafélög og nemendaráð starfandi og skóli er af þeirri stærð sem leyfir kennararáð er mikilvægt að auka samvinnu þessara aðila með setu fulltrúa þeirra í skólaráði. Þar sem ein skólanefnd er fyrir marga skóla, eins og t.d. er í Reykjavík, er útilokað að fræðsluráðsmenn sjálfir verði í öllum skólaráðum. Vænlegra þykir að fræðsluráð tilnefni fólk úr hverfi viðkomandi skóla.

Þá er rétt að benda á ákvæði til bráðabirgða en það fjallar um að gefa skólum tveggja ára aðlögunartíma til að koma skólaráðum á og þá er einnig gert ráð fyrir undanþágu fyrir skóla sem telur ekki grundvöll fyrir stofnun skólaráðs og það sé þá hægt að sækja um undanþágu frá ákvæði 3. gr. til menntmrn. En gildar ástæður þurfa að liggja fyrir þeirri undanþágu, t.d. vegna smæðar skóla eða að hann sé með innan við 50 nemendur, og slíkri umsókn skal þá fylgja rökstudd greinargerð.

Það er sem sagt ljóst að það sem á við í fjölmennum byggðarlögum, stórum skólum, það getur ekki átt við eða þarf ekki endilega að eiga við í skólum úti í dreifbýlinu þar sem skólanefndir gegna í raun og veru víða hlutverki foreldrafélaga og skólaráða ef því er að skipta.

Sú breyting á grunnskólalögunum, sem þetta frv. felur í sér, er samin, eins og ég sagði áðan, í beinu framhaldi af tillögu vinnuhópsins sem ég gat um og tillagan er byggð á viðræðum við fjölmarga aðila og ítarlegri umfjöllun innan vinnuhópsins um það með hvaða hætti væri best hægt að virkja foreldra í daglegri stjórnun skólanna, að gera þá ábyrgari en nú er.

Ég vil svo að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.