05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

89. mál, grunnskóli

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau frýjunarorð sem hæstv. menntmrh. mælti hér áðan. Þó að það sé kannske svolítið til hliðar við efni þessa frv., þá tengist það því samt engu að síður.

Ég vil minna hæstv. ráðherrann á það, nokkrar meginstaðreyndir í þessu máli, sem snýr að skólunum þar sem þeir eru stærstir og flestir í Reykjavík, að ástand þessara mála við skólana var kannað fyrir nokkrum árum af sérstakri nefnd sem til þess var sett. Og þá kom í ljós að það var ekki ein einasta lóð við grunnskóla í Reykjavík sem var fullfrágengin. Ekki ein einasta vegna þess að það eru þau atriði sem mæta afgangi í fjárveitingum. Bæði varðar þetta ýmiss konar öryggisframkvæmdir eins og lýsingu o.fl. Þarna má vissulega miklu betur gera og það eru borgaryfirvöld í Reykjavík m.a., hæstv. menntmrh., sem þarna ber að snúa sér að.

Ég tek undir hvert orð af því sem hæstv. ráðherrann sagði með að lækka hámarkshraðann í kringum skólana, þetta er alveg rétt, og vík kannske aðeins að því hér aftur. Ég tek líka undir það sem hann sagði um bílbeltin og minni á það, sem ég veit að hæstv. ráðherra veit fullvel, að þessi hv. þingdeild hefur tvisvar sinnum samþykkt þetta mál, en hv. þingbræður okkar og systur í Nd. hafa enn ekki borið gæfu til að sjá Ijósið í þessum efnum og samþykkja það sem rétt er og skylt að gera, því miður.

Varðandi slysin og aðstæður við skólana helst og fremst hér í þéttbýlinu, þá get ég sagt hæstv. ráðherra það að svo hefur viljað til að undanfarin þrjú ár eða svo hef ég verið formaður foreldra- og kennarafélags í einum af grunnskólum Reykjavíkurborgar og við höfum ár eftir ár skrifað borgaryfirvöldum í Reykjavík og óskað úrbóta í umferðarmálum og öryggismálum að því er varðar börn sem stunda nám í þessum tiltekna skóla. Síðast skrifuðum við umferðarnefnd Reykjavíkur í maímánuði s.l. og því bréfi hefur ekki einu sinni verið svarað. Slíkur er nú áhuginn þar á þeim málum. En ég tek heils hugar undir frýjunarorð sem hæstv. ráðherrann mælti hér og lýsi mig reiðubúinn, og minn flokk, til að starfa að lausn þessara mála með tilliti til þess að veita öryggi og draga úr þessari hrikalegu slysatíðni barna og unglinga hér á landi sem er okkur til skammar og háðungar sein eldri erum og ráðum ferðinni. Auðvitað er aldrei hægt að koma í veg fyrir öli slys, en það er hægt að draga verulega úr þeim og fækka þeim með því að gera viðeigandi ráðstafanir eins og hæstv. ráðherrann minntist réttilega á.

En, herra forseti, varðandi frv. það sem hér liggur fyrir á þskj. 89, þá munu þetta vera tillögur vinnuhóps sem settur var og formaður vinnuhópsins hefur flutt þetta mál hér inn á þing eins og hún gerði raunar í fyrra líka. Ég verð að lýsa ýmsum efasemdum um þetta mál vegna þess að hér er verið að auka báknið sýnist mér að þarflausu. Það er verið að búa til nýtt stig, nýtt þrep og ég sé ekki alveg og er ekki enn þá sannfærður um - vera má að ég verði það síðar eftir að um þetta mál hefur verið fjallað í hv. menntmn. þessarar deildar, að ég verði sannfærður um að þessi breyting sé til bóta, en ég er það ekki eins og er.

Í 21. gr. núgildandi grunnskólalaga er gert ráð fyrir foreldrafélögum og þessi félög hafa starfað með miklum ágætum við marga skóla. Þau efla samstarf skólans og heimilisins, þau efla samstarf foreldra, kennara og nemenda, a.m.k. þar sem ég þekki til, og ég held að það sé ekki nokkur trygging fyrir því að samband heimila og skóla verði meira eða betra þó að báknið sé aukið enn. Auðvitað er þetta gott mál og skylt að ræða, en ég held hins vegar að það séu mörg mál brýnni að því er grunnskólann varðar heldur en þetta núna. Og þar skal ég nefna þrennt til sögunnar:

1. Það er verið að skera niður fjárframlög til sérkennslu.

2. Það á að skerða framlög til skólaaksturs, sýnist manni, úti um landsbyggðina.

3. Þannig er búið að kennurum launalega að það gengur mjög erfiðlega að manna skólana.

Ég held að þessi þrjú mál séu öll miklu brýnni, en auðvitað ber ekki að lasta þetta mál þess vegna. Þetta er mál sem sjálfsagt er að ræða. En ég hef töluverðar efasemdir um að þessi breyting sé til bóta. Þessi foreldrafélög starfa mörg hver mjög vel og þeirra starfsemi er skólunum til góða og það er engin trygging fyrir því að þetta verði betra. Eg held satt að segja að það hefði verið miklu brýnna að flytja núna t.d. tillögu um það að nemendur eigi kost á að fá máltíðir í skólunum, sérstaklega hérna í, þéttbýlinu. Ég held að það sé miklu brýnna mál heldur en þessi skipulagsbreyting sem ég sé ekki að hafi neinn skapaðan hlut upp á sig og orki tvímælis hvort er til bóta. Og ég held að foreldrafélögin geti nefnilega, og geri, unnið mjög gott starf að þessum málum. Ég skal nefna eitt dæmi.

Hér hafa verið með miklu brambolti og látum stofnuð samtök sem heita Vímulaus æska. Ég man ekki hvort það voru 8 eða 11 þúsund manns sem skrifuðu sig í þessi samtök og þetta var allt gert með miklum áróðri og allt gott um það. Síðan efna þessi samtök til ráðstefnu sem varð að fella niður vegna þátttökuleysis vegna þess að það mættu miklu færri þátttakendur heldur en fyrirlesarar. Það mættu örfáir. En foreldrafélag í þeim grunnskóla þar sem ég þekki til efndi til fundar um ungt fólk og vímuefni og þangað komu 70-80 foreldrar, sem þykir góð fundarsókn í samkeppni við allt það sem um er að vera núna, þannig að ég held kannske að það eigi að kappkosta að virkja þessi foreldrafélög enn þá betur, gera þeim betur kleift að sinna störfum sínum, breyta kannske ákvæðum um að nemendur eigi líka formlega aðild að þeim. Víða eru nemendur hafðir með í ráðum um þessi mál. En ég hef miklar efasemdir um að þarna eigi að fara að auka báknið með þeim hætti sem hér er lagt til og tel það raunar mjög orka tvímælis og tel enga tryggingu fyrir því, því miður, ég veit að þetta mál er flutt af góðum hug, að þetta leiði af sjálfu til bóta. Ég held að það sé miklu vænlegri leið að hlúa að þeirri starfsemi sem þegar er fyrir hendi.