05.11.1986
Efri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

89. mál, grunnskóli

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umræða á sér stað og því frv. sem hér er til meðferðar. Þar er vissulega verið að fjalla um mikilvæg mál í skólastarfi ekki síst í þéttbýlinu. Það snýr að sjálfsögðu að tveimur atriðum, annars vegar hag nemenda innan skólans og hins vegar utan og ég vil gera síðara atriðið að umræðuefni, þ.e. umferðina.

Þegar mín börn sóttu grunnskóla og tóku strætisvagn, þá þurftu þau að fara yfir fimm umferðargötur til þess að komast frá strætisvagnastöðinni í skólann. Þau þurftu að fara yfir stórt opið bílastæði og á leiðinni var einnig hringtorg þar sem sex götur mættust, svo það gefur auga leið að á dimmum vetrarmorgnum voru foreldrar í Skerjafirði ekki alltaf ugglausir þegar 7, 8 og 9 ára börn voru að leggja af stað. Og stundum bara hreinlega þorði maður ekki að láta börnin fara heldur reyndi að finna önnur ráð, fara með þau í bíl eða koma þeim til nágranna. Annars staðar sameinuðust nágrannar um að flytja til skiptis börnin í skólann. Þarna voru engin umferðarljós, það voru jafnvel ekki gangstéttar, það voru engar umferðarhindranir á þessari leið. Þetta var náttúrlega algerlega óþolandi ástand, en þrátt fyrir að foreldrafélög og skólayfirvöld lægju í yfirvöldum Reykjavíkurborgar, þá fékkst engin leiðrétting þarna á. Það var ekki nokkur lifandis leið, hvorki að fá þarna umferðarljós, umferðarhindranir eða annað sem gæti auðveldað börnunum förina frá strætisvagnastöðinni í skólann. Það var einnig rætt um það að á vissum tímum dagsins gengju strætisvagnar aðrar leiðir til þess að hægt væri að koma börnunum nokkurn veginn að skólahliðinu en það var ekki heldur hægt. Það var reynt, held ég, einu sinni eitt haustið, en því var hætt eftir örfáa daga. Þetta held ég að hér í þéttbýlinu sé gífurlega mikilvægt mál og það eru umferðaryfirvöldin í Reykjavík sem hér ráða mestu. Og eins og hv. 5. landsk. þm. benti á, þá hefur yfirleitt verið talað fyrir daufum eyrum þegar reynt hefur verið að hafa samskipti við þau.

Foreldrafélögin eru sjálfsagður vettvangur til að hrinda af stað umbótum í þessu efni, en þau hafa líka annað og ekki síður mikilvægt hlutverk, það er að auka velsæld og vellíðan barnanna í skólanum. Það er ákaflega mikilvægt að foreldrar fylgist vel með því sem þar fer fram og séu í nánum tengslum við skólastjóra og kennara. Það getur verið undir foreldrafélögunum komið og foreldrum barna hvernig þeirra eigin börnum og ekki síður börnum annarra vegnar í skólanum. Ég held að reynslan sé samt sú, eða a.m.k. fékk ég oft þær upplýsingar hjá kennurum og skólastjóra í skóla minna barna, að það væru kannske foreldrar þeirra barna sem helst þurftu á að halda sem sjaldnast eða aldrei sáust á foreldrafundum og aldrei komu til viðtals jafnvel þótt boðuð væru. Það liggur því í augum uppi að hér þarf mikið að gera. Hvort það verður gert með þeirri breyttu skipan sem hér er þori ég ekki að segja um. Ég tel þó að það sé til bóta. Það er í sjálfu sér ekki neitt bákn sem verið er að setja hér upp. Það er verið að setja upp fastan samráðshóp foreldra, kennara og nemenda um ýmis innri hagsmunamál nemendanna í skólanum. En náttúrlega hefur slíkt ráð eða slík nefnd lítið að segja ef ekki er hægt að virkja sem allra flesta foreldra í skólunum til þess að taka þátt í starfinu.

Ég vænti þess að þetta frv. komi til meðferðar menntmn. og ég mun kosta kapps um að þar fari fram ítarlegar umræður um frv. og þar verði ræddar á því breytingar eða viðbætur sem gætu enn frekar stuðlað að því að það yrði til þess að bæta skólastarf og hag nemenda í grunnskólum.