05.11.1986
Neðri deild: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

94. mál, almannatryggingar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 95 frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Þetta frv. er nú flutt hér í fimmta sinn, hefur ekki hlotið afgreiðslu á undanförnum þingum, verið vísað til nefndar, en hv. heilbr.- og trn. hefur ekki komið málinu frá sér og því er það enn flutt vegna þess að þingið hefur ekki fengist til að taka afstöðu til þessa máls.

Hér er um að ræða mál sem snertir alla þá fatlaða í landinu sem þurfa að leita til Tryggingastofnunar ríkisins með örorkumatsúrskurð og ég tel að það sé í rauninni ekki vansalaust af hv. Alþingi að taka ekki á máli af þessu tagi þegar líka er vitað að samtök fatlaðra hafa ítrekað verið með óskir, tillögur og kröfur um að örorkumatsmálum verði breytt eitthvað í þá átt sem hér er gerð tillaga um, en ég tek það fram að ég teldi að hvers konar afgreiðsla á málinu væri þinginu fremur til sóma en láta þetta mál liggja enn þá einu sinni óafgreitt.

Frv. er tvær greinar. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að breyta 12. gr., en á eftir henni komi nokkrar nýjar málsgr. sem orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Úrskurður tryggingayfirlæknis tekur gildi strax og hann liggur fyrir og frá þeim tíma er örorkan skapaðist. Nú er öryrki óánægður með úrskurð tryggingayfirlæknis og getur hann þá óskað eftir skriflegri greinargerð læknisins um forsendur matsins. Þeirri greinargerð ásamt athugasemdum skal öryrkinn síðan vísa skriflega til úrskurðar örorkumatsnefndar.

Í örorkumatsnefnd eiga sæti þrír menn: 1. Öryrkjabandalag Íslands tilnefnir einn mann. 2. Hæstiréttur tilnefnir einn mann. Hann skal vera læknir og vera formaður matsnefndarinnar. 3. Heilbr.- og trmrn. tilnefnir einn mann og skal hann vera lögfræðingur. Auk aðalmanna skulu tilnefndir varamenn.

Nefndin skal í störfum sínum hafa hliðsjón af öllum þeim þáttum sem b-liður 1. mgr. þessarar greinar gerir ráð fyrir. Þá skal nefndin einnig taka tillit til félagslegra sjónarmiða við úrskurði sína.“

Það má segja að þetta sé annað meginatriði þessa frv., að tryggingayfirlæknir eigi ekki einasta að taka tillit til heilsufars viðkomandi einstaklings heldur eigi líka að athuga hinar félagslegu aðstæður sem þessi einstaklingur á við að búa og er þá farið inn á svipaðar brautir og farnar hafa verið um áratuga skeið í almannatryggingalöggjöf grannlanda okkar. Í grg. segir síðan:

„Þetta frv. er nú flutt á Alþingi í fimmta sinn. Frá fyrri þingum liggja fyrir ítarlegar umsagnir. Verður nú að gera þá kröfu til Alþingis að þetta mál verði afgreitt á yfirstandandi þingi.“

Sumarið 1985 héldu samtök öryrkja fund þar sem m.a. var fjallað sérstaklega um frv. þetta. Lýstu samtökin eindregnum stuðningi við þá málsmeðferð sem hér er gerð tillaga um og kemur samþykkt Öryrkjabandalagsins fram sem fskj. með þessu plaggi, en í niðurstöðu Öryrkjabandalagsins segir svo:

„Öryrkjabandalag Íslands mælir með samþykkt frv., en telur æskilegt að eftirfarandi breytingar verði gerðar“ og síðan eru þær taldar upp. Þetta er umsögn um frv. frá 1985 og þessar tillögur Öryrkjabandalagsins hafa allar verið teknar inn í núverandi gerð frv.

Ég tel ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara ítarlega yfir þetta efni. Hér er um svo sjálfsagt mannréttindamál að ræða, hefði ég haldið, að það hefði átt að vera vandalaust fyrir þingið að taka afstöðu í þessu efni.

Tryggingayfirlæknir er, eins og kunnugt er, skv. gildandi almannatryggingalögum einvaldur um örorkumat. Ég held að það hljóti að vera bæði frá sjónarmiði viðskiptamanna trygginganna og líka frá sjónarmiði tryggingayfirlæknis sjálfs mjög óheppilegt að þetta vald liggi hjá einum manni. Þess vegna er sú tillaga gerð að mynduð verði úrskurðarnefnd með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég hef tekið eftir því á undanförnum þingum að ýmsir þm. virðast telja að hér sé um að ræða smámál sem menn eigi í rauninni ekki að leggja mikla vinnu í að skoða, smámál sem sé allt í lagi þó að liggi hér í þinginu þing eftir þing. Ég bendi á að þetta mál snertir lífsafkomu fleiri þúsunda manna í þessu landi. Það er fólk sem á að vísu mjög erfitt með að fylgja sínum kröfum eftir. Það getur ekki gert kjarakröfur á sama hátt og menn t.d. á almennum launamarkaði með því að leggja niður vinnu og fara í verkföll. Þetta fólk á allt undir því að sjónarmið, sem borin eru fram með rökum og á grundvelli réttlætistilfinningar, nái eyrum alþm. Ég skora á hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar að sjá svo til að á þessu þingi verði þetta frv. afgreitt, annaðhvort eins og það liggur hér fyrir eða með breytingum sem deildin teldi nauðsynlegt að gera.

Ég held að það sé mjög óheppilegt að þingið láti mál af þessu tagi liggja hjá sér árum saman. Ég veit að mjög stór hluti þm. í öllum flokkum er sammála þeirri tillögu sem hér er gerð. Það eru hins vegar einhverjar aðrar ástæður sem valda því að menn hafa ekki haft döngun í sér til að taka á málinu og afgreiða það.

Nú vill svo til að formaður tryggingaráðs er jafnframt formaður þingflokks Sjálfstfl. og um leið í heilbr.- og trn. þessar hv. deildar. Ég hefði því talið að það ætti að vera auðvelt að sjá til þess að þetta mál nái afgreiðslu. Ég lýsi ábyrgð á hendur þinginu í máli af þessu tagi ef menn ekki taka á því með eðlilegum og myndugum hætti hafandi í huga að þingið og þm. hafa skyldur við fatlaða og öryrkja ekki síður en aðra í þessu þjóðfélagi.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.